Kaplakriki Aron Pálmarsson skrifaði í gær undir samning við uppeldisfélag sitt FH en hann mun leika með liðinu frá og með næsta tímabili.
Kaplakriki Aron Pálmarsson skrifaði í gær undir samning við uppeldisfélag sitt FH en hann mun leika með liðinu frá og með næsta tímabili. — Morgunblaðið/Arnþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson skrifaði í gær undir samning við uppeldisfélagið sitt, FH og mun hann leika með liðinu frá og með næsta tímabili. Aron er 32 ára og enn á meðal bestu handknattleiksmanna Evrópu. Þrátt fyrir það leitaði hugurinn heim, þar sem hann vill vera nær dóttur sinni.

Handbolti

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson skrifaði í gær undir samning við uppeldisfélagið sitt, FH og mun hann leika með liðinu frá og með næsta tímabili. Aron er 32 ára og enn á meðal bestu handknattleiksmanna Evrópu. Þrátt fyrir það leitaði hugurinn heim, þar sem hann vill vera nær dóttur sinni.

„Stelpan mín er að byrja í skóla á næsta ári. Ég er búinn að vera frá henni núna í fimm ár og ég er gríðarlega spenntur að geta spilað handbolta og að geta sinnt henni í leiðinni. Ég er búinn að vera úti í 14 ár, það er mjög langt, og vera mestmegnis einn, þannig að það er gott að koma heim,“ sagði Aron í samtali við Morgunblaðið við undirskriftina.

„Á sama tíma þá kallaði FH-hjartað á mig líka. Ég er ekki gamall þannig séð og er í ágætis standi enn þá. Eftir langan tíma úti var ég klár í að koma heim og vera nær fjölskyldu minni,“ bætti Aron við.

Búið að blunda í mér

Aron hafði samband við FH að fyrra bragði, en forráðamenn félagsins héldu fyrst að um grín væri að ræða.

„Þetta er búið að blunda í mér í ágætis tíma. Frá því að dóttir mín fæddist hefur það alltaf blundað í mér að koma heim, enda hefur hún verið búsett hér á landi alla sína tíð. Ég fann það líka snemma í haust að ég væri klár í þetta og mér fannst það vera mikilvægara fyrir mig persónulega að ég væri á svæðinu fyrir hana. Þá hafði ég fyrst samband við FH og það gekk vel. Það var smá sjokk fyrir alla held ég þegar þeir heyrðu fyrst í mér, en svo kláruðust viðræðurnar fyrir nokkrum vikum þegar við náðum samkomulagi,“ sagði FH-ingurinn.

Hann skrifaði undir þriggja ára samning við danska félagið Aalborg, en riftir nú samningi sínum við félagið eftir tvö ár í herbúðum þess. Hann viðurkennir að það hafi verið erfitt að ræða við forráðamenn Aalborg.

„Samtalið við þá var mjög erfitt en þeir sýndu þessu mikinn skilning á sama tíma. Ég er þeim fáránlega þakklátur fyrir það hvernig þeir tóku í þetta. Þetta var persónulegt en þeir eru vissulega að leyfa mér að fara ári áður en samningurinn minn átti að klárast. Fyrir það kann ég þeim bestu þakkir,“ sagði hann.

Aron byrjar að leika með FH á næstu leiktíð, en fram að því ætlar hann sér stóra hluti með Aalborg í Meistaradeildinni og dönsku deildinni. Þá er HM landsliða í Svíþjóð og Póllandi í janúar.

„Auðvitað er ég spenntur að klæða mig aftur í treyjuna en það er nú eitthvað í þetta samt sem áður. Ég er samningsbundinn Aalborg og svo er auðvitað nóg fram undan hjá landsliðinu. Ég er fínn í því að leggja hlutina til hliðar og maður gerir það núna. Það er búið að vera smá æsingur í kringum þetta en svo á þetta eftir að deyja aðeins út núna. Síðan mætir maður í gallann næsta sumar,“ sagði Aron.

Vildi ekki ræða við önnur félög

Leikmaðurinn var kynntur fyrir fullu húsi af stuðningsmönnum í Kaplakrikanum í gærkvöldi. Aron viðurkennir að hann hafi verið klökkur þegar hann sá móttökurnar.

„Ég veit náttúrlega hvernig FH-fjölskyldan er. Það kom mér smá á óvart hversu margir voru hérna en á sama tíma segja þessar móttökur mikið um klúbbinn og ég get alveg viðurkennt það að ég varð smá klökkur þegar að ég gekk hérna inn,“ sagði Aron um móttökur stuðningsmannanna.

Hefði tekið fimm sekúndur

Aron er harður FH-ingur og það kom aldrei neitt annað félag til greina hér á landi. Hann segir það engu hafa skipt, hvað önnur félög hefðu boðið, ef þau hefðu haft samband.

„Það símtal hefði tekið fimm sekúndur. Ég hefði bara sagt við þann sem hefði hringt að það skipti engu máli hvað hann segði eða gerði og samtalið hefði verið um eitthvað allt annað.

Það kom aldrei til greina að fara í neitt annað lið. Ég hafði bara samband við FH og þetta snerist auðvitað fyrst og fremst um það að koma heim. Ég held að það viti það allir í handboltanum á Íslandi að ég var ekki að fara að spila fyrir neitt annað lið en FH og ég opnaði aldrei á þann möguleika,“ sagði Aron.

Leikstjórnandinn viðurkennir að hann hafi stundum farið fram úr sjálfum sér á samfélagsmiðlum, þegar hann tjáir sig um FH. Gagnrýndi hann til að mynda að Halldór Jóhann Sigfússon hefði verið að þjálfa karla- og kvennaliðið á sama tíma.

Kannski aðeins of mikið

„Það var kannski aðeins of mikið og ég fór kannski fram úr mér þá. Maður þekkir alla hérna og alla í kringum félagið. Þetta skiptir mig gríðarlegu máli. Ég er fyrst og fremst faðir og svo kemur FH næst,“ sagði Aron.

Hann verður í lykilhlutverki með íslenska landsliðinu á HM í Svíþjóð og Póllandi í janúar, en íslenska liðið er virkilega vel mannað og ætlar sér stóra hluti. „Það er kominn mikill fiðringur í mann og maður hugsar alltaf um þetta þegar nær dregur. Við erum með frábært lið og margir að spila vel. Það er góður andi yfir þessu og stemning, bæði hjá okkur og landanum. Ég er gríðarlega spenntur fyrir janúar og hlakka mikið til að byrja að æfa 2. janúar,“ sagði Aron.

Meðbyrinn nýtist okkur

Hann finnur fyrir meiri spennu og væntingum í samfélaginu nú en oft áður.

„Við finnum það alveg og ég hef verið í þessu það lengi að maður finnur muninn. Ég hef verið í góðu liði og líka þegar liðið hefur verið í lægð. Maður finnur algjörlega muninn og núna erum við að gera þetta vel og standa okkur vel og meðbyrinn nýtist okkur svo sannarlega,“ sagði Aron Pálmarsson.

Aron Pálmarsson

 Fæddur 19. júlí 1990, 32 ára gamall.

 Lék með meistaraflokki FH frá 2006 til 2009.

 Lék með Kiel í Þýskalandi frá 2009 til 2015. Varð þýskur meistari með liðinu 2010, 2012, 2013, 2014 og 2015, bikarmeistari 2011 og 2012 og Evrópumeistari 2010 og 2012. Fékk silfrið í Meistaradeild Evrópu 2014.

 Lék með Veszprém í Ungverjalandi frá 2015 til 2017 og bæði ungverskur meistari og bikarmeistari með liðinu bæði tímabilin. Fékk silfrið í Meistaradeild Evrópu 2016.

 Lék með Barcelona á Spáni frá 2017 til 2021 og varð spænskur meistari og bikarmeistari með liðinu öll fjögur árin, Evrópumeistari 2021 og heimsmeistari félagsliða 2018 og 2019. Fékk silfrið í Meistaradeild Evrópu 2020.

 Hefur leikið með Aalborg í Danmörku frá 2021 og varð danskur bikarmeistari árið 2021.

 Landsliðsmaður Íslands frá 2009, fyrirliði undanfarin ár, og var í liðinu sem fékk bronsverðlaunin á EM 2010. Hefur leikið 158 landsleiki og skorað í þeim 618 mörk.

 Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna árið 2012 og níu sinnum alls verið í hópi tíu efstu í kjörinu.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson