Hjörtur Þórarinsson, fyrrv. skólastjóri og framkvæmdastjóri, sendi mér góðan póst: „Jólahátíðin er fram undan og vekur upp minningar frá liðnum árum. Fjölskyldur hittast og njóta samverunnar. Hátíðin vekur mann til umhugsunar varðandi velferð og hamingju sinna nánustu

Hjörtur Þórarinsson, fyrrv. skólastjóri og framkvæmdastjóri, sendi mér góðan póst:

„Jólahátíðin er fram undan og vekur upp minningar frá liðnum árum.

Fjölskyldur hittast og njóta samverunnar. Hátíðin vekur mann til umhugsunar varðandi velferð og hamingju sinna nánustu. Hlýjar kveðjur, innilegar óskir og bænarkraftur berst manna á milli eftir margs konar samfélagsleiðum.

Að koma jóla kveðju af stað

er kærleiks fyrirbæri.

Á aðventu er auðvitað

einstakt tækifæri.

Ekkert fegra á sér stað

og yndislegt það væri,

ef bænin hefði óhindrað

engin landamæri.

Um leið og ég sendi Innilega ósk um gleðileg jól og farsæld á næsta ári verður mér hugsað til bernskujóla og æskuára minna.

Fram í hugann fer nú senn

fögur jólamynd að skína.

Hvað sem líður á ég enn

æsku minninguna mína.“

Þessar vísur fylgdu lausn Helga R. Einarssonar á laugardagsgátunni með athugasemdinni að ekkert megi orðið – „bannað að hafa börn í matinn!“:

Gamla Grýla er dauð

gafst hún upp í nauð

er sett var inn

eyminginn

upp á vatn og brauð.

Hér kemur eitthvað jákvæðara:

Jólasveinar fara um fjöll,

fagna börnin því,

kæti vex í koti og höll,

komið jólafrí.

Megi gæfan gefa þér

gleði, styrk og þor.

Meira brátt til sólar sér,

síðan kemur vor.

Á hverjum jólum rifja ég upp jólavísu Jóns Þorsteinssonar á Arnarvatni:

Nei, hér er þá dálítil hjörð á beit

og hjarðsveinn á aldri vænum. –

Í hverri einustu Íslands sveit

og afkima fram með sænum

nú stendur hún jólastundin há

með stjörnuna yfir bænum.

Eftir Jóhann Gunnar Sigurðsson eru tvær ferhendur, sem hann kallar „Jólin. (Brot).“:
Nú eru jólin að nálgast,
notar þau hver sem má,
barnið við gjöfunum brosir,
batnar og ellinni þá.

Helg eru jólin þar heima,
sem hreiður mitt áður ég bjó,
en eins og hver annar ungi
með aldrinum burtu ég fló.
Páll Ólafsson orti í grimmdarfrosti:
Gluggar frjósa, glerið á
grefur rósir vetur,
falda ljósu fjöllin há,
fátt sér hrósar betur.

Sunnanvindar fjöllum frá
fönnum hrinda síðar,
grænum linda gyrðast þá
grundir, tindar, hlíðar.
Jón Magnússon skáld kvað, þegar Guðmundur á Sandi og sr. Sigurður Einarsson, þá dósent, áttust við í útvarpinu:
Þó að fimur Siggi sé
og sveifli vígðum brandi
svitnar hann við að koma á kné
karlinum frá Sandi.
Guðrún Árnadóttir frá Oddsstöðum kveður:
Bera urðum skin og skúr
skilningsþurrð og trega.
Þó hefur snurðum okkar úr
undist furðanlega.
Steingrímur Thorsteinsson kvað:
Grundin vallar glituð hlær,
glóir á hjalla og rinda,
sólar halla blíður blær
blæs um fjallatinda.Kolbeinn Högnason í Kollafirði kvað:

Oft hef ég saman orðum hnýtt
einum mér til gleði,
það er annars ekki nýtt
að Íslendingar kveði.