Ísland Kvennalandsliðið í fótbolta.
Ísland Kvennalandsliðið í fótbolta. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ellefu einstaklingar koma til greina í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins 2022. Ekki tíu eins og vanalega en samtökin hafa nú birt hvaða íþróttafólk hafnaði í efstu sætum kjörsins, í stafrófsröð

Best 2022

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Ellefu einstaklingar koma til greina í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins 2022.

Ekki tíu eins og vanalega en samtökin hafa nú birt hvaða íþróttafólk hafnaði í efstu sætum kjörsins, í stafrófsröð. Að þessu sinni urðu tveir íþróttamenn jafnir að stigum í tíunda til ellefta sætinu.

Sigurvegarinn verður opinberaður og krýndur í hófi samtakanna sem haldið verður í Hörpu í Reykjavík fimmtudagskvöldið 29. desember. Þetta er í 67. skipti sem Samtök íþróttafréttamanna kjósa íþróttamann ársins en fyrsta kjörið var fyrir árið 1956. Vilhjálmur Einarsson var þá kjörinn íþróttamaður ársins og hann hreppti þann titil fyrstu þrjú árin, og á fimm af fyrstu sex árunum sem kjörið fór fram.

Að þessu sinni eru átta karlar og þrjár konur í hópi þeirra efstu. Aðeins tvö af þeim sem voru í hópi tíu efstu í fyrra eru aftur á listanum í ár. Það eru Ómar Ingi Magnússon handboltamaður sem var kjörinn íþróttamaður ársins 2021 og Kristín Þórhallsdóttir kraftlyftingakona sem þá var í þriðja sæti í kjörinu.

Þau ellefu sem höfnuðu í efstu sætum í kjörinu eru eftirtalin, í stafrófsröð:

Anton Sveinn McKee sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar komst í úrslit bæði á HM og EM á árinu 2022. Hann varð sjötti í 200 m bringusundi á heimsmeistaramótinu í 50 metra laug og ennig sjötti á Evrópumótinu. Hann varð síðan tíundi í 200 m bringusundi á heimsmeistaramótinu í 25 metra laug.

Elvar Már Friðriksson körfuboltamaður hjá Rytas í Litháen, lykilmaður í körfuboltalandsliðinu sem er í baráttu um sæti á HM 2023 en hann er með næsthæsta meðalskor allra leikmanna í undankeppninni. Elvar lék í Belgíu og á Ítalíu fyrri hluta árs og er nú í keppni um sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar með Rytas.

Gísli Þorgeir Kristjánsson handboltamaður hjá Magdeburg í Þýskalandi. Hann varð þýskur meistari með liðinu í vor og heimsmeistari félagsliða í haust, og hefur verið einn af bestu leikmönnum þýsku deildarinnar og Meistaradeildarinnar í vetur. Gísli lék vel með íslenska landsliðinu sem varð í 6. sæti EM.

Glódís Perla Viggósdóttir knattspyrnukona hjá Bayern München í Þýskalandi. Hún er í stóru hlutverki hjá einu af sterkustu liðum Þýskalands og Evrópu og er komin með liðinu í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar. Hún var einn besti leikmaður landsliðsins sem tapaði ekki leik á EM og var nálægt því að komast í lokakeppni HM.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson kylfingur hjá GKG. Hann lék á Áskorendamótaröð Evrópu á árinu og vann sér sæti á Evrópumótaröðinni 2023 með því að ná 19. sæti á lokaúrtökumóti fyrir hana á Spáni í nóvember. Hann er aðeins annar Íslendingurinn sem kemst á Evrópumótaröð karla.

Hilmar Örn Jónsson frjálsíþróttamaður úr FH. Hann komst í úrslit og varð 12. í sleggjukasti á Evrópumeistaramótinu 2022 og endaði í 24. sæti á heimsmeistaramótinu. Hann var eini Íslendingurinn sem komst á HM og átti besta árangur íslensks frjálsíþróttafólks á árinu 2022 samkvæmt stigatöflu.

Kristín Þórhallsdóttir kraftlyftingakona úr ÍA. Hún fékk gullverðlaun í hnébeygju í -84 kg flokki á Evrópumeistaramótinu í Póllandi og bronsverðlaun í bekkpressu en hún fékk silfurverðlaunin í samanlögðu í flokknum.

Ómar Ingi Magnússon handboltamaður hjá Magdeburg í Þýskalandi. Hann varð þýskur meistari með liðinu í vor og heimsmeistari félagsliða í haust og var valinn besti leikmaður þýsku deildarinnar en hann varð næstmarkahæsti leikmaður hennar og þriðji hæsti í stoðsendingum. Ómar varð markahæsti leikmaður EM 2022 og var þar í lykilhlutverki hjá íslenska landsliðinu sem hafnaði í sjötta sæti en hann var jafnframt valinn í úrvalslið keppninnar.

Sandra Sigurðardóttir knattspyrnukona hjá Val. Hún varð Íslands- og bikarmeistari með Val, fékk á sig fæst mörk markvarða í deildinni og er orðin langleikjahæst í deildinni frá upphafi. Hún átti nokkra stórleiki með landsliðinu, bæði á EM á Englandi þar sem Ísland tapaði ekki leik og í leikjum liðsins um sæti í lokakeppni HM.

Tryggvi Snær Hlinason körfuboltamaður hjá Zaragoza á Spáni. Hann er í lykilhlutverki í landsliði Íslands sem er í baráttu um sæti á HM 2023 og hefur tekið flest fráköst allra í undankeppninni. Hann leikur í vetur sitt fjórða tímabil með Zaragoza í sterkustu deild Evrópu.

Viktor Gísli Hallgrímsson handboltamaður hjá Nantes í Frakklandi. Hann átti stórleiki í marki Íslands þegar liðið varð í 6. sæti á EM og var valinn í úrvalslið Evrópumótsins. Hann varð danskur meistari í vor, var í desember valinn efnilegasti markvörður heims og leikur í vetur með Nantes í Meistaradeild Evrópu.

Fjórir efstu þjálfararnir

Þá verður einnig þjálfari ársins 2022 útnefndur en þar koma fjórir til greina, ekki þrír eins og vanalega, þar sem tveir enduðu jafnir að stigum í þriðja og fjórða sæti. Fjórmenningarnir eru eftirtaldir, í stafrófsröð:

Guðmundur Þ. Guðmundsson þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta sem endaði í 6. sæti Evrópumótsins 2022.

Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari karlaliðs Breiðabliks í fótbolta sem varð Íslandsmeistari 2022.

Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari karlaliðs Vals í handbolta sem vann alla titla tímabilsins 2021-22.

Þórir Hergeirsson þjálfari kvennalandsliðs Noregs í handbolta sem varð Evrópumeistari 2022.

Kjör á liði ársins

Lið ársins verður einnig útnefnt í hófinu og þessi lið urðu í þremur efstu sætunum, í stafrófsröð:

Íslenska karlalandsliðið í handbolta sem endaði í 6. sæti EM 2022.

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta sem tapaði ekki leik á EM 2022 og var 90 sekúndum frá sæti á HM.

Valur, meistaraflokkur karla í handbolta, sem vann alla titla tímabilsins 2021-22.

Höf.: Víðir Sigurðsson