Samkomulag hefur náðst milli íslenska ríkisins og Erlu Bolladóttur vegna gæsluvarðhalds sem Erla sætti fyrir meinta aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar. Erla var sýknuð af þeim ákærum í Hæstarétti 1980 en hún mátti sæta frelsissviptingu í tæpa átta mánuði vegna málsins.
Greiðir íslenska ríkið Erlu 32 milljónir króna í miskabætur fyrir gæsluvarðhaldið á sama grundvelli og sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, sem síðar voru sýknaðir, voru dæmdar bætur í Landsrétti. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sendi einnig frá sér yfirlýsingu þar sem Erla er beðin afsökunar á gæsluvarðhaldsvistinni.