Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Þegar er búið að selja um helming íbúða í endurgerðu fjölbýlishúsi á Dunhaga 18-20 í Vesturbæ Reykjavíkur. Um er að ræða endurgert hús í grónu hverfi, sem byggt var við.
Magnús Magnússon, framkvæmdastjóri verkefnisins, segir húsið nær fullbúið. Aðeins sé eftir frágangur á lóð að framanverðu og uppsetning handriða en tafir hafi orðið á afhendingu íbúðanna.
Alls 21 íbúð er í húsinu sem er fimm hæðir. Fjórar hæðir eru Dunhagamegin en fimm hæðir á baklóð. Þar af eru þrjár tveggja hæða íbúðir á jarðhæð á bakhlið hússins en vegna halla í lóðinni telst neðri hæðin ekki vera kjallari. Dunhagamegin á jarðhæð eru tvö atvinnurými til sölu. Gert er ráð fyrir verslunum.
Hýsti Háskólaútgáfuna
Atvinnustarfsemi var lengi í húsinu og var Háskólaútgáfan meðal annars með aðsetur þar um tíma.
Íbúðirnar verða afhentar í janúar en þær eru frá 46 og upp í 160 fermetrar. Sameiginleg bílastæði eru við húsið og er hugsunin að þau nýtist verslun og umhverfi á daginn og íbúum á kvöldin. Það er, að sögn Magnúsar, hluti af framtíðarsýn borgarinnar en gert sé ráð fyrir slíkri samnýtingu.
Búið er að selja 10 af 21 íbúð og reiknar Magnús með að allar íbúðirnar verði seldar í janúar eða febrúar. Íbúðirnar höfði til breiðs hóps kaupenda. Þar með talið fjölskyldufólks og háskólafólks sem sæki í að búa steinsnar frá háskólasvæðinu.
„Við tókum á móti tilboðum til fimmtudagsins [8. desember]. Við höfum fundið fyrir gríðarlegum áhuga í gegnum allt ferlið en vegna tafa á aðföngum gátum við því miður ekki hafið sölu á tilsettum tíma en í millitíðinni hefur söluumhverfið breyst,“ segir Magnús og vísar meðal annars til áhrifa vaxtahækkana á fasteignamarkaðinn.
„Við finnum fyrir því að söluumhverfið hefur þyngst. Ég hugsa að hús eins og Dunhagi 18-20 hefði selst á einum degi fyrir sex mánuðum. Verðlagning er á breiðu bili hvað varðar fermetraverð og krónutölu. Húsið er á frábærum stað og þetta er flott eign,“ segir Magnús.
Framkvæmdir hófust í ársbyrjun 2021 en núverandi eigendur keyptu húsnæðið árið 2018. Síðan fór í hönd skipulagsferli sem reyndist tímafrekara en ætlað var. Þurfti meðal annars að breyta deiliskipulagi.
Við baklóð hússins er opið leiksvæði en hverfið er gamalt og gróið.
Allt að 120 milljónir
Verð óseldra íbúða er frá 48,9 og upp í 119,9 milljónir.
Ódýrasta íbúðin er 46,3 fermetrar og sú dýrasta 159,2 fermetrar.
Dýrustu íbúðirnar eru á tveimur hæðum og eru þær með afgirtum palli á baklóð (sjá mynd hér fyrir ofan).