Sviðsljós
Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
Við erum að horfa til framtíðar og viljum að þróunin verði hraðari í málefnum eldra fólks heldur en verið hefur. Mannfjöldaspár gera ráð fyrir að eldra fólki fjölgi mikið á næstu árum,“ segir Berglind Magnúsdóttir, verkefnastjóri Gott að eldast, sem er aðgerðaáætlun félags- og vinnumálaráðuneytis um málefni aldraðra. Ráðuneytið birti drög að þingsályktunartillögu á vef Stjórnarráðsins í vikunni. Þar er lagt til að samþætta þjónustu betur við eldra fólk og litið til uppbyggingar á næstu fjórum árum.
„Við erum að horfa til ákveðinnar vitundarvakningar og að sveitarfélög og ríki veiti því athygli að þjónusta við eldra fólk þarf að þróast, vera trygg og það þarf líka að vera spennandi að vinna við hana, því við erum hér eins og annars staðar í samkeppni um starfsfólk,“ segir Berglind. Einnig þurfi að skilgreina skýrar hvar mörkin á ábyrgðarsviði ríkis og sveitarfélaga liggja. Betra sé að heilbrigðis- og félagsþjónusta eldra fólks sé á sömu hendi, því það hafi sýnt sig að það tryggi betri þjónustu.
Frír garðsláttur bjarnargreiði
„Við viljum að þegar fólk þarf á þjónustu að halda þá gangi hún greiðlega fyrir sig. Hins vegar viljum við ekki að þjónustan komi of snemma. Það er til sveitarfélög sem bjóða eldra fólki upp á frían garðslátt, sem margir telja kost, en ég tel að eftir 10-15 ár muni ekki verða litið svo á, því garðsláttur er góð og holl hreyfing og stuðlar að farsælli öldrun. Það er svo mikilvægt að halda virkni sinni, hreyfa sig og hafa tilgang og skiptir gífurlega miklu máli í allri velferð, ekki síst hjá eldra fólki. Heilbrigð öldrun helst í hendur við hæfnina við að sjá um sig sjálfur.“
Sama má segja um heimilisstörfin, segir Berglind. Í stað þess að taka alla ábyrgð og virkni af eldra fólki sé betra að aðstoða við að skipuleggja störfin svo þau séu viðráðanleg. „Það er enginn sem segir að það þurfi að þrífa alla íbúðina á föstudögum,“ segir hún og leggur áherslu á að þessi daglegu störf séu góð hreyfing og tryggi áframhaldandi virkni einstaklingsins.
Ekki Vindáshlíð
„Við viljum seinka því að fólk þurfi að fara inn á hjúkrunarheimili, en samfélagslegur ávinningur af því er mjög mikill, allt að tólf milljónir á ári á mann.“ Hún segir að ef meiri áhersla verði lögð á forvarnir og stuðning á borð við sveigjanlega dagþjálfun og heimaþjónustu, styttist biðlistar og þau sem virkilega þurfa sólarhringsvistun komist þá fyrr að. „Það verður líka að segjast að hjúkrunarheimili í dag eru engin Vindáshlíð. 70-80% vistmanna þar eru komnir með heilabilun og það er ekki endilega góður kostur fyrir þá sem eru það ekki.“
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að auðvelda eldra fólki að búa sem lengst heima með viðeigandi stuðningi og þjónustu. Þar er einnig stefnt að aðgerðum sem sporni gegn félagslegri einangrun og einmanaleika. „Auður íslensks samfélags byggist á því að við skiptum öll máli og því er mikilvægt að við fáum öll tækifæri til þess að taka þátt. Einstaklingurinn er hjartað í kerfinu.“
Tölvulæsi eldra fólks
71% nota tölvu daglega
Öldrunarfordómar hafa ýmsar birtingarmyndir. Ein þeirra er að gefa sér að eldra fólk geti ekki hitt eða þetta. Margir telja að þeir sem komnir eru fast að áttræðu eða eldri séu kannski síðasta kynslóðin sem ekki er vel tölvulæs og því séu úrræði á vefgáttum þeim lítil hjálp. Það getur verið rétt í einhverjum tilfellum en rannsóknir draga upp aðra mynd.
Félagsvísindasvið Háskóla Íslands lét gera könnun á högum eldra fólks árin 2020-2021. Þar var m.a. spurt um notkun á tölvum, spjaldtölvum, snjallsímum og snjallúrum. Fram kom að aðeins 9% nota engin þessara tækja, en meirihlutinn er virkir notendur. 77% aðspurðra áttu tölvu og 71% notaði hana daglega og 90% notuðu snjallsíma sína daglega. Upplýsingaþjónusta og ráðgjöf í vefgáttum eins og heilsuveru og island.is geta því nýst meirihluta eldra fólks en símaráðgjöf þeim sem þess þurfa.