Á Fjörukránni Systurnar Freyja Rán og Unnur Ýr Viðarsdætur með föður sínum, Jóhannesi Viðari Bjarnasyni, sem heldur upp á íslenskan mat.
Á Fjörukránni Systurnar Freyja Rán og Unnur Ýr Viðarsdætur með föður sínum, Jóhannesi Viðari Bjarnasyni, sem heldur upp á íslenskan mat. — Ljósmyndir/motiv/Jón Svavarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Kæst skata á Þorláksmessu er gamall siður og Jóhannes V. Bjarnason á Fjörukránni í Hafnarfirði hefur haldið hann þar í heiðri síðan hann opnaði veitingastaðinn 1990. „Ég kaupi skötuna hjá fisksölunum í Hafnarfirði og þeir hafa náð góðu lagi við að verka hana, enda hafa gestir rómað hana alla tíð,“ segir vertinn. „Sama fólkið kemur ár eftir ár og sumir vilja alltaf sitja við sama borð en auk þess er ánægjulegt að sjá reglulega ný andlit.“

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Kæst skata á Þorláksmessu er gamall siður og Jóhannes V. Bjarnason á Fjörukránni í Hafnarfirði hefur haldið hann þar í heiðri síðan hann opnaði veitingastaðinn 1990. „Ég kaupi skötuna hjá fisksölunum í Hafnarfirði og þeir hafa náð góðu lagi við að verka hana, enda hafa gestir rómað hana alla tíð,“ segir vertinn. „Sama fólkið kemur ár eftir ár og sumir vilja alltaf sitja við sama borð en auk þess er ánægjulegt að sjá reglulega ný andlit.“

Skata hefur alla tíð verið herramannsmatur í huga Jóhannesar. „Ég ólst upp við að borða skötu og allan íslenskan mat,“ segir hann. „Ég fór fimm ára gamall í sveit og þá var skata hvunndagsmatur á borðum, bæði kæst og söltuð. Þegar ég byrjaði að læra 17 ára í Naustinu var skata hefðarmatur í hádeginu á laugardögum og þá komu mektarmenn reglulega og fengu sér skötu og saltfisk.“ Hann segist hafa lært af þessu og haft það í huga þegar hann fór út í eigin rekstur. Hann bjóði upp á missterka skötu, saltfisk, plokkfisk og hákarl ásamt hefðbundnu meðlæti. „Á Þorláksmessu er skatan á boðstólum hjá mér frá klukkan 11 að morgni fram til klukkan tíu að kvöldi,“ segir Jóhannes. „Það er rennerí í hana frá morgni til kvölds.“

Íslenskur matur í hávegum

Jóhannes leggur reyndar áherslu á íslenskan mat allt árið, ekki síst með erlenda ferðamenn í huga. „Ég býð til dæmis upp á hákarl og sviðakjamma alla daga, er með svokallaða Íslandsdiska,“ segir hann. „Útlendingar eru mjög spenntir fyrir því að prófa að borða svið.“ Hann bætir við að fastagestir á Þorláksmessu komi gjarnan líka í þorramat. „Fjölskyldur, vinir og vinnuhópar eiga góðar stundir saman á Þorláksmessu og þorranum hjá okkur.“

Þrátt fyrir að mörgum þyki kæst skata ómissandi á Þorláksmessu og hafi hana sem fastan lið í mataræðinu eru ekki allir á sama máli. Sumir þola ekki lyktina og því er eflaust minna um vel kæsta skötu í fjölbýlishúsum nú en fyrir nokkrum áratugum. Jóhannes segist hafa fundið fyrir þessu þegar hann byrjaði með rekstur Fjörukrárinnar. „Í gamla daga setti enginn út á skötulyktina en ég fékk strax gesti sem máttu ekki vera með hana heima hjá sér,“ bendir Jóhannes á. Hann hafi boðið upp á jólahlaðborð samhliða skötunni til þess að koma til móts við alla, en það sé eiginlega liðin tíð. „Krakkarnir eru farnir að venjast skötunni eins og ég gerði í æsku. Flest börnin mín borða skötu og hákarl og nú er ég byrjaður að kynna barnabörnunum þennan mat. Það verður að halda í hefðirnar.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson