Knattspyrnukonan Ída Marín Hermannsdóttir er ein af nýliðum ársins í bandaríska háskólaboltanum, en hún leikur með skólaliði Louisiana-háskólans. Ída skoraði sjö mörk í 19 leikjum á tímabilinu og lagði upp tvö mörk til viðbótar. Ída skoraði fjögur mörk í ellefu leikjum með Val á síðustu leiktíð og varð Íslands- og bikarmeistari með liðinu. Þá á hún að baki þrjá A-landsleiki.
Elvar Már Friðriksson, landsliðsmaður í körfubolta, lék stórt hlutverk hjá Rytas frá Litháen í fyrrakvöld þegar liðið lagði Tenerife frá Spáni að velli, 85:78, í lokaumferð riðlakeppninnar í Meistaradeild FIBA. Elvar skoraði 19 stig í leiknum og gaf fjórar stoðsendingar á 26 mínútum. Rytas komst með sigrinum í annað sæti riðilsins og fer því í umspil um sæti í 16-liða úrslitum en Tenerife hafði þegar unnið riðilinn.
Eyþór Martin Vigerust Björgólfsson var í nótt valinn af Seattle Sounders í 2. umferð nýliðavalsins í bandaríska fótboltanum. Eyþór er 22 ára framherji, sem er uppalinn í Noregi. Hann á íslenskan föður og norska móður. Hann hefur undanfarin ár spilað með bandarískum skólaliðum, en lék þar á undan með Nardo í 3. deildinni í heimalandinu. Verður hann fjórði íslenski leikmaðurinn í deildinni. Fyrir eru þeir Þorleifur Úlfarsson hjá Houston Dynamo, Guðlaugur Victor Pálsson hjá DC United og Róbert Orri Þorkelsson hjá CF Montréal.
Czeslaw Michniewicz hættir þjálfun pólska karlalandsliðsins í fótbolta um áramótin, er samningur hans við pólska knattspyrnusambandið rennur út. Hann stýrði Póllandi á HM í Katar. Var pólska knattspyrnusambandið ekki ánægt með frammistöðuna í Katar þar sem liðið féll úr leik í 16-liða úrslitum keppninnar eftir tap gegn silfurliði Frakklands.
Knattspyrnumennirnir Axel Sigurðarson og Ívan Óli Santos hafa báðir framlengt samning sinn við 1. deildarlið Gróttu á Seltjarnarnesi. Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum en Ívan Óli skrifaði undir tveggja ára samning við Gróttu og Axel eins árs samning. Ívan, sem er 19 ára, skoraði þrjú mörk í 20 leikjum í 1. deildinni í sumar. Axel lék ekki með Gróttu í sumar þar sem hann stundar nám í Bandaríkjunum en alls á hann að baki 39 leiki fyrir félagið þar sem hann hefur skorað 6 mörk.
Portúgalska knattspyrnustjarnan Cristiano Ronaldo er við það að skrifa undir sjö ára samning við Al-Nassr í Sádi-Arabíu. Fyrst í stað spilar hann með félaginu og svo hyggst hann starfa fyrir það sem ráðgjafi. Marca á Spáni greinir frá. Hann fær fyrst um sinn 175 milljónir punda í árslaun, eða tæplega 30 og hálfan milljarð króna. Þau laun hækka síðan eftir því sem líður á samninginn. Ronaldo, sem er orðinn 37 ára, lék með Manchester United á Englandi, þar til samningi hans við félagið var rift fyrir HM í Katar. Eftir leikmannsferilinn aðstoðar Ronaldo Arabíuþjóðina við að sækja um að halda HM 2030, að því er segir í frétt Marca.