Sólveig Kristjánsdóttir fæddist á Akureyri 6. september 1935. Hún lést á Heilsuvernd Hjúkrunarheimili á Akureyri 19. nóvember 2022. Einar Gunnlaugsson fæddist á Akureyri 8. júlí 1933. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 13. september 2022.

Börn þeirra eru: 1) Ómar, f. 14. febrúar 1954, maki Guðný S. Guðlaugsdóttir, börn Einar og Soffía Arna. 2) Helga, f. 2. júní 1955, maki Jostein Ingulfssen, börn Vala og Inga. 3) Ester, f. 19. nóvember 1960, maki Nói Björnsson, börn Sólveig Helga, Karen og Björk. 4) Kristján, f. 7. apríl 1969, maki Ásta Björk Matthíasdóttir, börn Leifur og Ísak Atli. Barnabarnabörnin eru 13.

Útför Einars fór fram í kyrrþey, að hans ósk, 23. september 2022 og útför Sólveigar fór fram í kyrrþey, að hennar ósk, 2. desember 2022.

Eftir 68 ára dásamlega sambúð fara þau saman til draumalandsins, pabbi og mamma, með nokkurra daga millibili.

Að pabbi færi á undan mömmu áttum við kannski ekki von á. Hann var hraustur, glæsimenni og bar sig vel alla tíð, stundaði göngur, ferðalög og útivist og hugsaði vel um heilsuna og mataræði allt sitt líf.

Þegar hann var farinn var eins og mamma hefði ákveðið að fylgja honum. Þegar þau gengu saman var hann alltaf skrefinu á undan „og ég kom í humátt á eftir honum“, sagði mamma. Hún hefur viljað fylgja þessu og fór í humátt á eftir honum líka núna.

Pabbi elskaði Ísland og fór í þvílíkar ævintýraferðir til að skoða landið og kynna sér það. Hann hafði ótrúlegan áhuga á veðurfari og stjórnmálum. Það var engu líkt og til eru skráningar hans um veðurfar á Akureyri alla daga í marga áratugi og um stjórnmálamenn felldi hann palladóma, sem voru marktækir.

Dagleg samtöl okkar í fjölskyldunni við hann um Ísland, veður, stjórnmál og fjölskyldumálefni veittu okkur öllum gleði og uppörvun.

Mamma mundi alla afmælisdaga allra í fjölskyldunni og allir fengu sendingar frá henni og var hún sannkölluð afmælis- og jólagjafamamma, -amma og -langamma.

Umhyggja þeirra og áhugi á öllum börnunum var þannig að þau minnast þeirra með hlýju og þakklæti. Enda sagði eitt barnið í fjölskyldunni þegar það frétti af andláti langömmu sinnar: „Hver á þá núna að gefa mér pening?“

Oft hefur verið velt vöngum innan fjölskyldunnar yfir hvar mamma hafi gróðursett peningatréð, því ekki höfðu þau hjónin mikið milli handanna, en nýtni og fyrirhyggja var þeirra leiðarljós.

Mamma var einstök hannyrðakona og allir í fjölskyldunni eiga minjagripi um hana, sokka, peysur, dúka og fleira. Þetta varðveitir minningu hennar hjá öllum auk allra handskrifuðu mataruppskriftanna um ömmumatinn. Mamma var einn af stofnendum Geðverndarfélags Akureyrar og sinnti þar óeigingjörnu grasrótarstarfi á þeim tíma þegar fordómar voru miklir í garð geðsjúkdóma. Hún opnaði heimili sitt og voru reglulegir fundir haldnir þar á upphafsárum félagsins. Var hún alla tíð stolt af framlagi sínu til geðheilbrigðismála á Akureyri.

Pabbi var Þórsari allt sitt líf og mikill áhugamaður um íþróttir og fylgdist með öllum íþróttaviðburðum, stórum sem smáum, og studdi alla í fjölskyldunni sem tóku þátt í íþróttum.

Í frábærum texta eftir Bjarna Hafþór Helgason í Þórslaginu segir meðal annars:

Bjartsýni æskunnar, frá fyrsta degi,

í forgang setjum við og hana hvetjum við

og leggjum áfram grunn að lífsins vegi.

Við lútum höfði í þakkarskuld.

Segja má að þetta hafi verið lífsviðhorf pabba og mömmu í garð fjölskyldunnar allt þeirra líf.

Þau hefðu bæði getað tekið heilshugar undir með Bjarna Hafþóri:

Að vera nýtur þegn á voru landi,

er vert að ræða um og fólk að fræða um.

Lífið er bræðralag, lifi sá andi.

Við lútum höfði í þakkarskuld.

Fyrir hönd fjölskyldunnar, barna, tengdabarna, barnabarna og barnabarna þakka ég þeim fyrir uppeldið, stuðninginn og umhyggjuna alla tíð.

Blessuð sé minning þeirra hjóna.

Ómar Einarsson.

Nú hefur sú góða kona og frænka mín Sólveig Kristjánsdóttir, ávallt kölluð Dolla, lokið sinni jarðnesku vegferð og kvatt lífið hér.

Ég hef þekkt Dollu frá blautu barnsbeini sem eina af ástríkustu og umhyggjusömustu einstaklingum sem ég hef kynnst. Ávallt var hún elskuleg í viðmóti og tók alltaf á móti mér með breiðu brosi og útbreiddum faðmi er við hittumst á lífsleiðinni. Hún bar einstaka umhyggju fyrir allri sinni nánustu fjölskyldu svo og öðru ættfólki sínu. Hún passaði mig oft sem lítinn dreng á æskuárum mínum þegar fjölskylda hennar bjó á Sigurhæðum á Akureyri. Móðir Dollu, sú sómakona Helga Guðmundsdóttir, var systir ömmu Jórunnar sem ég ólst upp hjá á Akureyri og var því mikill samgangur milli heimilanna. Ég naut góðs af því, þar sem á Sigurhæðum voru fjórar ungar systur – en enginn strákur – og litu þær á mig sem eins konar litla bróður, talsvert mikið yngri en þær. Dolla var næstelst þeirra systra og passaði einna mest upp á mig, með mikla ábyrgðartilfinningu. Fyrir það verð ég henni ávallt þakklátur. Við Kristján faðir Dollu vorum einnig mjög hændir hvor að öðrum og var hann mér sérlega góður vinur alla tíð sem og öll sú fjölskylda.

Öll skólaárin mín á Akureyri hafði ég náið samband við fjölskyldu Dollu og var ávallt velkominn á heimili þeirra Einars. Kom ég síðar ævinlega í heimsókn til þeirra í Holtagötuna, Álfabyggðina og síðast í Einilund eftir að ég flutti frá Akureyri. Þau Einar eignuðust fjögur börn sem ég hef einnig kynnst mjög vel. Einar eiginmaður Sólveigar er nú einnig nýlátinn, 89 ára. Mjög skammt var því á milli andláts þeirra hjóna og minntist ég Einars Gunnlaugssonar vinar míns í minningargrein fyrir mjög stuttu síðan. Það var reyndar svo að Dolla og Einar hófu sitt tilhugalíf og búskap í litlu afdrepi í Brekkugötu 35 hjá okkur ömmu Jórunni fyrir margt löngu. Samneyti okkar átti sér því mjög langa sögu og ástríka. Því miður átti Dolla við heilsubrest að stríða síðustu ár ævinnar og var fyrir nokkru komin á Dvalarheimilið Hlíð þar sem hún andaðist, en Einar bjó heima fram til hins síðasta.

Síðasta heimsókn mín til Dollu var daginn fyrir andlátið.

Ótalmargt væri hægt að rifja upp frá liðinni tíð af ánægjulegum samskiptum okkar Dollu og Einars sem ekki verður gert hér. Eitt smáatriði ætla ég þó að nefna. Ég hafði fyrir sið alla tíð að hringja í þau á Þorláksmessu eða aðfangadag til að óska þeim gleðilegra jóla – en einnig til að fá á hreint hjá Dollu hvernig uppskriftin að brúnaða rauðkálinu hennar væri nákvæmlega. Það er einstakt hátíðarmeðlæti. Að lokum vil ég nefna einstaka umhyggju Dollu frænku fyrir minningu og virðingu við Jórunni ömmu mína og fyrir það er ég henni einlæglega þakklátur.

Ég sendi fjölskyldu Sólveigar og Einars innilegar samúðarkveðjur og er þakklátur fyrir að hafa svo lengi átt samleið með þeim Dollu.

Hvíl þú nú í friði án þjáninga blessuð frænka mín.

Guðmundur Pétursson.