Hafþór Sigurðsson fæddist í Neskaupstað 29. desember 1986. Hann lést á heimili sínu 11. desember 2022.

Foreldrar Hafþórs eru Brynhildur Sigurðardóttir, f. 28. júní 1962, og Sigurður Sveinsson, f. 13. febrúar 1962. Systur hans eru: Borghildur, f. 20. apríl 1984, börn hennar og Rúnars Snæs Reynissonar eru Brynhildur Una, f. 1. desember 2008, Dagbjört Vala, f. 7. apríl 2011, og Reynir Sveinn, f. 20 janúar 2016; Hafrún, f. 13. júní 1991, sambýlismaður hennar er Helgi Sigurður Pálsson, f. 3. maí 1987, og eiga þau tvær dætur, Jónínu Hörpu, f. 21. apríl 2019, og Heklu Maríu, f. 28. júní 2022; 3) Sigrún Harpa, f. 5. september 1998.

Dóttir Hafþórs og Guðfinnu Þóreyjar Gunnarsdóttur, f. 1994, er Íris Arney, f. 23. ágúst 2017. Kærasta Hafþórs er Angélique Dény, f. 1991.

Útför Hafþórs fór fram frá Norðfjarðarkirkju 22. desember 2022.

Elsku frændi. Það er sárt að þurfa að kveðja þig allt of snemma. Eftir standa margar yndislegar minningar um góðar samverustundir.

Þú hafði einstakt hjartalag, vildir alltaf öllum vel og varst alltaf góður við alla. Mér eru sérstaklega minnisstæðar góðu stundirnar sem við áttum saman fyrir austan hjá ömmu og afa á Kvíabólsstígnum og á Marbakkanum. Ekki má heldur gleyma fótboltavellinum þar sem við nutum okkar hvað best. Þú settir aldeilis ekki fyrir þig að drösla frænku þinni frá Reykjavík með á æfingar.

Ég er líka þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér betur veturinn sem þú bjóst með okkur á Tunguveginum. Það var mikil upplifun fyrir okkur frænkurnar. Við fundum upp á ýmsu og áttum frábærar stundir saman. Ég gleymi aldrei einu bootcamp-æfingunni okkar í Skeifunni sem þú sannfærðir mig að fara með þér á. „Bootcamp er eina vitið til að koma sér í form,“ sagðirðu. Æfingin var ekkert grín, við gátum hvorki hreyft legg né lið eftir þessa herþjálfun, harðsperrurnar voru svakalegar. Það tók okkur heila viku að komast aftur á ról og á meðan var það eina í stöðunni að fá heimsenda pítsu á hverjum degi.

Takk fyrir allar góðu stundirnar. Hvíldu í friði, elsku frændi.

Þín frænka,

Þórhildur (Tóta).

Elsku hjartans Hafþór, elsku ljúflingurinn okkar, Guð geymi þig.

Minning þín lifir.

Megi ljós og styrkur fylgja ykkur, elsku Siggi, Binna, fjölskylda og allir ástvinir.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Auður Sveinsdóttir (Auja frænka) og

fjölskylda.