Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar í verðlagsnefnd búvara telja ekki forsvaranlegt að kjarasamningsbundnum launahækkunum sé velt út í verðlag enda sé ein meginforsenda nýgerðra kjarasamninga að skapa meiri stöðugleika í hagkerfinu með lækkandi verðbólgu og lækkun vaxta

Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar í verðlagsnefnd búvara telja ekki forsvaranlegt að kjarasamningsbundnum launahækkunum sé velt út í verðlag enda sé ein meginforsenda nýgerðra kjarasamninga að skapa meiri stöðugleika í hagkerfinu með lækkandi verðbólgu og lækkun vaxta.

Kom þetta fram þegar meirihluti verðlagsnefndarinnar ákvað að hækka verð á mjólk til bænda sem og að hækka heildsöluverð.

Verðlagsnefndin ákvað að lágmarksverð á mjólk til bænda skyldi hækka um 2,38% frá 1. desember og að hækka heildsöluverð um 3,5% frá áramótum.

Er það vegna aukins kostnaðar við framleiðslu og vinnslu mjólkur frá því í haust. Þar á meðal eru launahækkanir í nýsamþykktum kjarasamningum sem afurðastöðvar meta að leiði til 11,4% aukningar á launakostnaði á samningstímabilinu.

Álagning á mjólkurafurðir í smásölu er frjáls og verðið því nokkuð mismunandi. Búast má við því að venjuleg óvítamínbætt mjólk í eins lítra fernu hjá verslun sem nú verðleggur vöruna á 190 krónur hækki í 196 til 197 krónur nú um áramótin og aðrar afurðir hækki hlutfallslega svipað.

Yngvi Harðarson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri Analytica, sagði við Morgunblaðið að niðurstaða nýgerðra kjarasamninga gæti að óbreyttu kallað á hærri vexti til að ná niður verðbólgu. Ein forsendan að baki verðbólguspá bankans var sú að samið yrði um 6% launahækkanir næstu þrjú ár.

„Nú virðist hafa verið samið um meiri hækkanir, að minnsta kosti til skemmri tíma litið,“ segir Yngvi Harðarson. » 2 og 10