— Morgunblaðið/Eggert
Haraldur Þorleifsson, frumkvöðull og stofnandi Ueno, er kominn í jólaskap. Hvað kemur þér í jólaskap? Við fjölskyldan höfum verið svo mikið á flakki undanfarin ár að það hafa eiginlega allar hefðir fokið

Haraldur Þorleifsson, frumkvöðull og stofnandi Ueno, er kominn í jólaskap.

Hvað kemur þér í jólaskap?

Við fjölskyldan höfum verið svo mikið á flakki undanfarin ár að það hafa eiginlega allar hefðir fokið. En við verðum loksins á Íslandi þetta árið og það er komið upp tré og skraut og syni mínum finnst gaman að syngja Snjókorn falla með mér. Við vorum líka að setja saman lítil piparkökuhús en límið hélt mínu húsi ekki alveg nógu vel saman þannig að ég þurfti að borða það.

Hver eru eftirminnilegustu jólin?

Afi minn kom í mat til okkar þegar ég var unglingur. Hann var mjög rólegur og ljúfur maður. Ég var hins vegar mjög spenntur að komast í að opna pakkana eins hratt og ég mögulega gat. Þetta endaði þannig að við vorum búin að borða, vaska upp og opna pakkana og afi sat ennþá við borðið að klára matinn sinn.

Hver er sniðugasta jólagjöf sem þú hefur fengið?

Þegar ég var tíu ára fékk ég fjarstýrðan bíl í jólagjöf frá mömmu. Hann var í miklu uppáhaldi og ég notaði hann mikið. Hún dó síðan nokkrum mánuðum seinna og þá fannst mér of erfitt að leika mér með hann. En ég átti hann mjög lengi.

Hvernig verða jólin í ár?

Við verðum á Íslandi, allar framkvæmdir á heimilinu náðu að klárast fyrir jól þannig að við erum orðin mjög spennt að komast í frí og slappa af saman, án þess að búa með iðnaðarmönnum. Þeir eru allir afskaplega næs en það verður fínt að vera bara við fjölskyldan. Við borðum hátíðarkjúkling með pabba og konunni hans, opnum svo nokkra pakka og horfum kannski á smá bíó.

Haraldur Þorleifsson