Allir þessir blessuðu litir.
Fegurðin sem blasti við honum sló örlítið á kvíðann, gamla hjartað tifaði aðeins hægar, komst smátt og smátt aftur í takt við náttúruna. Hann þurfti að passa upp á hjartað, mundi ekki nákvæmlega hvað læknirinn hafði sagt þegar þeir höfðu síðast tekið tal saman, en hann fann einfaldlega á sér að það sló ekki af sömu ákefð og í gamla daga, þegar lífið var ein stór aflíðandi brekka, hágræn svo langt sem augað eygði. Nú fór hann sparlega með hvern einasta andardrátt, því lífið átti sér endastöð og slög hjartans voru takmörkuð.
Hágrænn átti ekki fyllilega við um litinn í fjöllunum sem voru handan vatnsins og umhverfis það, hér og þar. Fjöllin, eða kannski voru þetta fremur hólar og hæðir, voru mosagræn, það var angurværð yfir þeim. Hann fann á sér að það var að koma haust. Tilfinning, en ekki endilega fullvissa. Golan var köld, og þetta var ekki sumarkuldi heldur ónotagustur.
Þvílík gæfa samt að gamli jeppinn skyldi ekki hafa gefið upp öndina. Það var aldeilis afrek að komast alla leið hingað, yfir í einskismannsland.
Hann hafði ekið eftir þjóðveginum í óratíma, leið sem hann kunni afturábak og áfram, og svo upp á hálendið, þar sem malarvegirnir tóku við og tíminn stóð í stað.
Nú var hann kominn á leiðarenda. Það var ekki enn tekið að kvölda svo eflaust hafði hann dágóða stund til þess að leysa gátuna.
Hjákátlegt, jafnvel grátbroslegt, fyrir hann, gamlan manninn, að taka upp á því á þessum aldri að leysa ráðgátur.
Hann stóð á malarströndinni, í nokkurri fjarlægð frá vatninu, kastaði mæðinni, naut litadýrðarinnar. Grænn litur fjallanna í fjarska heillaði en það var fegurð í jarðveginum sömuleiðis, steinarnir hvítir, svartir, gráir, jafnvel aurrauðir, og einmitt þar sem hann var nú sá hann glitta í smáblóm. Hann kunni ekki heitið á því, hafði kannski aldrei gert.
Mildir litir haustsins kölluðu fram brotakenndar minningar. Vinur hans hafði horfið fyrir áratugum, ekkert til hans spurst og gátan eflaust litað líf allra þeirra sem staðið höfðu honum nærri. Þeir höfðu kynnst á unglingsárunum og svo farið saman á sjóinn. Haustdagur úti á hafi í hvimleiðu veðri, öldugangur, fuglagarg, úfinn sjórinn tónaði ágætlega við depurðina í skýjunum; þetta voru blik sem rifjuðust upp við tilhugsunina um löngu liðinn vinskap.
Honum hafði liðið vel á sjónum, þrátt fyrir allt. Það mundi hann. Starf sem hann réð vel við og skilaði honum ágætum tekjum. Hann var kominn af sjómönnum nokkra ættliði aftur, í það minnsta, og enn var eins og hafið kallaði stundum á hann. Helst á morgnana, þegar hann rumskaði í skímunni og hélt stundum eitt augnablik að hann væri úti á ballarhafi. Það var góð tilfinning.
Sjórinn hafði í senn verið besti vinur hans og versti óvinur. Harður húsbóndi en tryggur. Kannski höfðu það verið bestu árin, hann var ekki viss lengur, en þannig leið honum stundum. Mikil vinna, góður félagsskapur, tilgangur með tilverunni.
Og nú var hann kominn alla leið upp á hálendi, til þess að leita að vini sínum, en það eina sem hann gat hugsað um var úthafið. Það var langt undan en haustkuldinn frá vatninu dró fram minningar um hafgoluna.
Hann hafði veitt því athygli að bíllinn var að verða bensínlaus. Hugsunarleysi að hafa ekki gætt að því fyrr. Einhvern veginn varð hann að komast aftur til baka, aftur heim, en það var vandamál sem hann ætlaði ekki að reyna að leysa strax. Allt varð að gerast í réttri röð. Hann var hingað kominn til þess að fylgja eftir vísbendingu. Hann brosti í kampinn við tilhugsunina – vísbendingu, svei mér þá. Eins og hann væri lentur í miðjum leynilögregluþætti í sjónvarpinu; þeir höfðu stytt honum stundir í ellinni, kvöld eftir kvöld, runnu allir saman í eitt. Tíminn átti það til að stríða honum, lífið var orðið býsna einmanalegt. Maður uppsker kannski eins og maður sáir, hugsaði hann stundum með sér. Tónar lífsins urðu heldur gráir eftir því sem árin liðu, og þess vegna var svona dagur svo dýrmætur. Að upplifa, skynja fremur en að skilja. Einmitt þar var hamingjan núna. Hún gat verið svo lævís.
Það fór honum ekki vel að gráta. Hann mundi ekki til þess að nokkur hefði orðað það þannig við hann en hann vissi þetta þó. Það var ekki gert ráð fyrir því að hann gréti. Þess vegna mátti hann ekki hugsa til þess sem lífið hafði ekki látið honum í té, þeirra sem hann hafði aldrei fengið að faðma, halda í höndina á.
Hann hafði staðið í sömu sporum drykklanga stund. Honum fannst að aðeins hefði bætt í goluna. Nú mátti hann ekki bíða lengur, hann þurfti að finna vin sinn, þann sem hafði verið týndur svo lengi.
Hann var auðvitað allt of seint á ferðinni, mörgum árum, áratugum, birtu tekið að bregða á lífið en það kom sennilega ekki að sök. Einmitt nú leið honum eins og þetta væri síðasta leyndarmálið sem hann þyrfti að svipta hulunni af, ekkert síður fyrir sjálfan sig en aðra. Aftur sá hann fyrir sér leynilögreglumennina á skjánum, og svo vin sinn heitinn á sjónum, og allt í einu var eins og landslagið lifnaði við og þrengdi að honum. Sú tilfinning hvarf jafnskjótt og hún hafði hellst yfir hann. Þannig var þetta stundum, núorðið.
Það kom að því, eitt haustið, að sjómennskan hentaði ekki lengur. Tími kominn til að fara í land og það höfðu þeir þá gert báðir.
Það eina sem þú átt er orðsporið, hafði mamma hans alltaf sagt við hann. Gott vegarnesti út í lífið. Hann átti svo góðar minningar um hana, hlýlegt fasið, hvatningarorðin. Hann hafði reynt að lifa eftir sömu reglum og hún. Um föður hans var minna að segja, maður fárra orða og fremur sinnulaus. Æskan var stundum svo nærri, þótt langt væri um liðið, en árin á sjónum þokukenndari.
Einhvern veginn tóku þjóðvegirnir við af úthafinu, einn góðan veðurdag sat hann við stýrið á flutningabifreið í stað þess að sigla. Sömu sögu var að segja af vini hans, önnur bifreið, sömu vegir. Allar þessar ferðir, fram og til baka, einn langur vegur, ár eftir ár, án upphafs og ákvörðunarstaðar. Þarna höfðu þeir fylgst að, enn og aftur.
Og nú fékk hann á tilfinninguna að hann væri að nálgast lausn gátunnar, einmitt þarna. Leiðin hafði verið fremur löng en langferðir áttu vel við hann. Úti á vegum leið honum eins og hann væri kominn aftur í tímann, undir stýri á stærra farartæki, að flytja verðmætan varning landshlutanna á milli.
Vinur hans hafði horfið sporlaust og þessi blessaða vísbending hafði leitt hann hingað. Vatnið var utan alfaraleiðar, fallegur staður sem fáir fengu að njóta, og nú stóð hann þarna aleinn. Hann fikraði sig nær vatnsbakkanum, tók nokkur skref fram á við, það marraði í mölinni undir fótunum, og einhvers staðar í fjarska kölluðu hálendisfuglarnir á hann. Sólin hafði lækkað á lofti, það var eðlilegt. Hann tók svo sem ekki beinlínis eftir því, fann bara á sér að það var örlítið meira rökkur fram undan en áður. Birtan ekki alveg eins tær.
Einmitt þarna átti að vera hinsti hvíldarstaður besta vinar hans, ef allt saman gekk þá upp. Hann gerði sér í raun ekki miklar vonir um að finna líkið, ekki eftir allan þennan tíma, en það var einhver drifkraftur sem fékk hann til þess að reyna. Aldrei gefast upp. Það hafði faðir hans stundum sagt. Það rifjaðist upp núna.
Og hvað ef ætlunarverkið tækist? Það var auðvitað ekkert hægt að gera lengur. Langt, langt um liðið. Hversu langt, í árum talið, vissi hann ekki lengur upp á hár, en það skipti svo sem ekki öllu máli.
Hann lygndi aftur augunum, reyndi að ná áttum, opnaði þau svo aftur og leyfði haustlitunum að síast inn aftur, einum eftir annan, heyrði landslagið hrópa á hann: Ekkert skiptir neinu máli lengur.
Hann vissi, jafnvel þegar allt annað var hulið þoku, að hann átti engan að. Þau fáu sem höfðu verið honum nákomin voru öll farin, og það var að vissu leyti ágæt tilfinning. Á einhvern undarlegan hátt var hann þá frjáls.
Það kom fyrir að hann fékk gesti sem hann kannaðist við, vöktu með honum einhverjar óljósar minningar. Slíkt braut upp daginn, vissulega, en það var á hinn bóginn lýjandi að reyna að teygja sig þangað sem ekkert var að finna.
Og stundum kom ókunnugt fólk í heimsókn. Hann lét það yfir sig ganga. Brosti bara, átti ekkert ósagt við ókunnuga.
Komdu.
Það var engu líkara en að vinur hans væri að kalla en hann vissi auðvitað betur. Leikur í haustvindinum, ekkert annað.
Vísbendingin hafði komið til hans í draumi, þá um nóttina. Taktu mark á draumunum, það hafði mamma hans sagt. Kannski meinti hún það ekki svona bókstaflega. Hann dreymdi að vinur hans væri þarna, ofan í vatninu, og hefði verið lengi.
Og svo var það þessi stúlka. Mikið mundi hann vel eftir henni. Kannski hafði þar verið fólgið eina tækifærið til að festa rætur, stofna fjölskyldu. Hann hafði fundið það svo sterkt, hversu vel þau áttu saman, og enn gat hann séð hana fyrir sér. Ekki andlitsdrættina, endilega, ekki svipinn, bara bros og bjarta litina. Og hann heyrði tónlistina sem þau höfðu hlustað á. Gömul dægurlög kölluðu oft fram sterkustu viðbrögðin hjá honum, þá var líkt og hann væri kominn á annan stað í huganum, að stíga dans í landlegu, á þjóðveginum að hlusta á útvarpið.
Hún hafði verið þannig í fasi að hún hreif flesta með sér. Og mestu mistökin höfðu verið þegar hann kynnti hana fyrir besta vini sínum, svona eftir á að hyggja. Það kvöld rifjaðist því miður oft upp fyrir honum á meðan annað var í móðu. Hann átti stundum erfiðara með að kalla fram það góða en það slæma úr fortíðinni. Hann hafði undireins áttað sig á því að það hafði verið misráðið að leiða þau saman, hafði séð að einhverjir neistar kviknuðu, eiginlega við fyrstu kynni.
Þessir bölvuðu neistar.
Hann sá þetta allt saman fyrir sér núna, á meðan hann starði út yfir vatnið; móða yfir minningunum en gömlu tilfinningarnar létu á sér kræla. Og einhvers staðar, aðeins utan seilingar, var annað atvik sem hann náði ekki að festa hendur á.
Það sem hafði byrjað svo fallega, ástarsamband, en tók smám saman á sig aðra mynd. Svo mikill sársauki, svo mikil vonbrigði.
Hann hafði viljað eiga framtíð með henni, leyft sér að vona, jafnvel vonað of innilega. Þá var fallið svo hátt. Af öllum mönnum hafði það verið besti vinur hans sem sveik hann.
Og svo …
Og hvað svo?
Hann tók eftir því að það var kominn örlítill snjór í fjöllin í fjarska, tákn um það sem koma skyldi. Áminning um hvað veturinn gat verið grimmur og að hann skall stundum á fyrirvaralaust. Það var oft verst, að fá engan fyrirvara.
Stundum hafði verið kalt á sjónum, ólýsanlega kalt, og sömuleiðis á vegunum að vetrarlagi. Lífið var kalt. Lífið var hættulegt.
Hættulegt, líka, að sjá fyrir sér framtíð sem aldrei gat orðið, að halda að tálsýn gæti orðið veruleiki.
Stundum mundi hann að hann var farinn að gleyma.
Stundum mundi hann ekki neitt en svo kom fyrir að minningarnar skullu á honum eins og holskefla, hver á fætur annarri, eða margar í einu, hrærigrautur svipmynda, litbrigða.
Það var erfitt að drepa mann.
Þetta rifjaðist upp fyrir honum rétt í svipinn. Fyrst tilfinning, svo leiftur, loks skýr minning. Skelfileg óhamingja fylgdi þessari minningu, svo mikil sorg, en þó einhver vellíðan líka. Það var nefnilega ekki hægt að syrgja nema með því að muna.
Mjög erfitt, að drepa.
Hann hafði þurft að beita ýtrustu kröftum til að hafa vin sinn undir, þrengt að hálsinum þar til allra síðasti andardrátturinn hafði örugglega verið dreginn, sekúndur liðu eins og mínútur og eina hugsunin sem hafði endurómað um hugann, eins og hávært, dynjandi bergmál, var þessi: Ég ætla að drepa hann.
Og það hafði hann einmitt gert.
Einhvers konar stundarbrjálæði, hefði kannski mátt segja, en í rauninni var ástæðan eflaust bara afbrýðisemi.
Þetta var á laugardagskvöldi í Reykjavík, að haustlagi. Allt í einu var þetta eina kvöld ljóslifandi í huga hans. Skýin lágu ofan á byggðinni, höfðu rétt svo tyllt sér þar, kvöldbirtan óraunveruleg, eins og úr öðrum heimi, fálmkennd, draumkennd.
Þeir voru heima hjá honum, vinirnir tveir, og einhvern veginn upphófst rifrildi um þessa konu sem þeir vildu báðir eiga. Hávær tónlist í bakgrunni og eitthvert áfengi hér og þar um íbúðina, hálftómar flöskur. Helgarfrí frá akstrinum, og þessar deilur höfðu náð að krauma undir niðri allt of lengi. Öskur og læti, og skyndilega hafði hann tekið besta vin sinn kverkataki.
Verknaðurinn var svo erfiður, en einhvern veginn hafði aldrei hvarflað að honum að hætta við, hættuleg blanda af áfengi og heift.
Í gamla daga hafði hann einmitt lifað lífinu þannig, tekið ákvarðanir, góðar og slæmar, og staðið við þær. Þetta fann hann á sér, og sömuleiðis vissi hann að tíminn hafði ýmsu breytt í þessum efnum. Enn var hann þó staðfastur, þótt hann færi ekki eins hratt í gegnum lífið og áður, þótt stundum gæti hann ómögulega munað hvað það var sem hann hafði ákveðið að gera.
Dauðinn var alltaf svo fjarlægur, þrátt fyrir allt, nú og þá; en þetta liðna laugardagskvöld hafði annað verið upp á teningnum. Þá hafði hann haldið vini sínum í heljargreipum, og línan á milli lífs og dauða orðið svo óskaplega þunn, valdið til að velja – valdið til að taka líf – færst fram í fingurgóma, bókstaflega.
Hann hafði tekið líf.
Hann mundi hvernig lífskrafturinn hafði fjarað út, orkan gufað upp, lífsglöð manneskja breyst í liðið lík, og einmitt þá hafði annað vandamál blasað við.
Verknaðurinn breytti öllu, hann vissi það. Vinur hans fengi ekki að eiga stúlkuna úr þessu, en í raun voru þeir báðir dæmdir úr leik. Hann varð að lifa með morðinu, hvernig svo sem hann færi að því.
Það var sérkennilegt að standa þarna í mölinni, mitt í allri þessari ægilegu fegurð, litadýrð, og átta sig á því að maður hafði framið morð, fyrir löngu. Að muna skyndilega það sem áður hafði verið gleymt. Stórkostlegt áfall en tækifæri til að horfast í augu við sannleikann. Tækifæri til að iðrast, sömuleiðis.
Það rann upp fyrir honum að auðvitað hafði draumurinn ekki verið neinn venjulegur draumur, að hann hafði ekki dreymt vísbendingu upp úr þurru. Í svefnrofunum hafði einfaldlega rifjast upp fyrir honum hvað hafði gerst, hvað hann hafði gert. Voðaverkið tók á sig þokukennda mynd, eins og um væri að ræða vinalega ábendingu um hvar vinur hans gæti hafa leynst öll þessi ár.
Það hafði verið erfitt að flytja líkið, aleinn. Það var nú einmitt vandamálið við að drepa manneskju; maður var alltaf einn, gat ekki rætt við neinn, hvergi aðstoð að fá. Líkið var svo þungt og hann hafði þurft að bera það út í flutningabifreiðina í skjóli nætur.
Umhverfið sem við honum blasti nú – vatnið, fjöllin – gerði það að verkum að hann átti auðvelt með að skyggnast inn í fortíðina, aldrei þessu vant. Því hérna hafði hann staðið, á sama árstíma en við aðrar aðstæður; áratugum áður, við þetta fagurbláa vatn, horfst í augu við framtíðina og ekkert séð nema niðamyrkur.
Mamma hans, björt eins og engill, og faðir hans, fálátur, þau höfðu verið ólík en bæði tvö góðar manneskjur. Og hann vissi að þau höfðu alið hann upp í þeim anda. Hann þurfti ekki endilega að skara fram úr, hógværðin var dyggð, en hann átti ekki að meiða aðra. Og hann átti svo sannarlega ekki að drepa annan mann.
Hvað átti maður eiginlega að gera við lík?
Auðvitað hafði hann bara sest upp í bílinn og ekið af stað. Þetta var honum eðlislægt. Að sigla, og að keyra. Hann hafði keyrt út í myrkrið, út í nóttina, klukkutímum saman, og loks fundið afleggjarann, leiðina sem hann hafði kannski haft einhvers staðar á bak við eyrað allan tímann, sömu leið og hann hafði þrætt núna, þennan hinsta haustdag.
Vatnið hafði ekkert breyst, fjöllin þau sömu, og alltaf var hann einn. Hann hafði með herkjum náð að bera vin sinn úr bílnum, lagt hann á mölina. Og svo – og þetta mundi hann því miður – og svo dregið líkið alla leiðina að vatninu.
Slíka útför átti enginn maður skilið, en þetta hafði hann lagt á besta vin sinn.
Einhvers staðar á miðri leið, mitt á milli flutningabifreiðarinnar og vatnsins, hafði sorgin orðið öllum tilfinningum yfirsterkari. Sorgin hafði veitt skjól, minnt hann á að hann var – eins og foreldrar hans – góð manneskja, en að góðar manneskjur gerðu líka mistök. Sum afdrifaríkari en önnur.
Hvernig átti maður að lifa með svona synd á bakinu?
Vatnið minnti hann á sjóinn og þar átti vinur hans heima. Á svona himneskum stað, ofan í vatninu. Einhvern veginn hafði hann svo haft vit á því að gera ráðstafanir til að sökkva vini sínum með þungu grjóti, til að reyna að tryggja að glæpurinn kæmist aldrei upp. Hann hafði horft á eftir honum hverfa undir yfirborðið, hlustað á hálendisþögnina, gengið svo til baka, yfir mölina, og aldrei litið um öxl. Haldið áfram að keyra um þjóðvegina, í myrkri, einn.
Og aldrei komið aftur á þennan stað, ekki fyrr en núna.
Eins og hendi væri veifað breyttist vatnið í himinblátt hafið, mosagræn fjöllin allt í kring urðu eitt faðmlag og hann stökk ofan í, á bólakaf. Það var frelsi í algleyminu.
Reykjavík / Róm, 2021.
Sagan hefur áður birst í Tímariti Máls og menningar og Vogue Scandinavia.