Borgarstjórnarfundur Fyrsti fundur ársins 2023 verður haldinn 3. janúar.
Borgarstjórnarfundur Fyrsti fundur ársins 2023 verður haldinn 3. janúar. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Tillaga um að fella niður reglulegan fund borgarstjórnar Reykjavíkur þriðjudaginn 3. janúar 2023 náði ekki fram að ganga þar sem hún var ekki samþykkt mótatkvæðalaust. Því verður fundur haldinn í borgarstjórn þennan dag

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Tillaga um að fella niður reglulegan fund borgarstjórnar Reykjavíkur þriðjudaginn 3. janúar 2023 náði ekki fram að ganga þar sem hún var ekki samþykkt mótatkvæðalaust. Því verður fundur haldinn í borgarstjórn þennan dag.

Tillagan var borin upp til atkvæða á síðasta fundi borgarstjórnar fyrir jól, 20. desember. Með tillögunni greiddu atkvæði sextán borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri-grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Þrír fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.

Í 2. málsgrein 14. greinar sveitarstjórnarlaganna segir að sveitarstjórn sé heimilt að fella niður reglulegan fund sinn, enda sé tillaga um slíkt samþykkt mótatkvæðalaust á næsta fundi sveitarstjórnar á undan. Í kjölfar atkvæðagreiðslunnar var farið að bóka um málið á borgarstjórnarfundinum og er óhætt að segja að þar hafi andi jólanna ekki svifið yfir vötnum.

Borgarfulltrúarnir þrír, sem greiddu atkvæði gegn tillögunni, Kjartan Magnússon, Jórunn Pála Jónasdóttir og Þorkell Sigurlaugsson, lögðu fram svohljóðandi bókun:

Ekki vorkunn að mæta

„Vandséð er að virða þurfi borgarfulltrúum það til vorkunnar, þótt þeir mæti til vinnu þriðjudaginn 3. janúar eins og annað launafólk.“ Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar lögðu fram svohljóðandi gagnbókun: „Það er undarlegt að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fullyrði að borgarfulltrúar meirihlutans „vorkenni“ sjálfum sér að þurfa að mæta á fund. Tillagan um að fella niður þennan borgarstjórnarfund tekur mið af starfsaðstæðum þess starfsfólks sem undirbýr borgarstjórnarfundinn. Að jafnaði tekur um tvo daga að undirbúa borgarstjórnarfund enda þarf að senda út gögn fundarins með tveggja daga fyrirvara. Með þessari ákvörðun er reynt að horfa til þess að sú undirbúningsvinna lendi ekki á rauðum dögum eða inni í jólafríum. Það er ómaklegt af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokks að saka borgarfulltrúa um vinnuleti að vilja líta til þessara sjónarmiða um vinnuaðstæður starfsfólks og fulltrúum Sjálfstæðisflokks til minnkunar að gefa sér að slíkt liggi að baki.“

Enginn þrýstingur

Borgarfulltrúarnir þrír lögðu fram svohljóðandi gagnbókun: „Enginn starfsmaður Reykjavíkurborgar hefur reynt að beita undirrituð þrýstingi í því skyni að knýja fram að borgarstjórnarfundur 3. janúar félli niður. Hins vegar hafa nokkrir borgarfulltrúar beitt þrýstingi í þessu skyni.“

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson