Helena stendur hér við fallegt útsaumað veggteppi sem hún saumaði en eiginmaðurinn sagaði út stafina á hillunni fyrir ofan. Á borðinu má sjá ljósmynd af dóttur hennar, Helgu Kristínu, sem lést 49 ára gömul.
Helena stendur hér við fallegt útsaumað veggteppi sem hún saumaði en eiginmaðurinn sagaði út stafina á hillunni fyrir ofan. Á borðinu má sjá ljósmynd af dóttur hennar, Helgu Kristínu, sem lést 49 ára gömul. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það fékkst ekkert í búðunum; kreppan var í aðsigi og það komu engar vörur til landsins. Hvorki matarkyns né annað. Fátæktin var víða.

Í fjölskylduhúsi í Kópavogi býr hin 99 ára gamla Helena Sigtryggsdóttir, móðir, amma og langamma. Hún býður blaðamanni inn á hlýlegt heimili sitt en þar eru fyrir tvær dætur hennar, Jóna og Alda, sem eru þar mættar með gamlar ljósmyndir til að rifja upp minningar og jólahald áranna á Siglufirði með móður sinni. Í íbúðinni er fjöldi fjölskyldumynda og fallegra hluta sem fylgt hafa Helenu um langa hríð. Helena er hæglát, falleg kona sem ber aldurinn afar vel. Það er margs að minnast þegar horft er um öxl en við byrjum á byrjuninni.

Æskan var svo sem ágæt

Í septembermánuði árið 1923 fæddist stúlkubarn á Árskógsströnd. Móðir hennar, Ingibjörg Davíðsdóttir, var þá nýorðin ekkja en maður hennar og faðir litlu stúlkunnar, Sigtryggur Sigtryggsson, drukknaði nokkrum mánuðum fyrr.

Helena ólst því upp föðurlaus en segist eiga góðar minningar úr æsku.

„Æskan var svo sem ágæt, það var allt í lagi með mig. Ég var alltaf með góðu fólki og var ekkert send í sveit til vandalausra eins og sumir krakkar,“ segir Helena, en hún ólst upp að mestu ein með móður sinni þar sem systkini hennar voru töluvert eldri en hún.

Alda hefur orðið: „Faðir hennar mömmu fórst 6. maí 1923 í ofsaveðri í Hornvík. Hann var stýrimaður á bát sem hét Róbert. Þá var mamma hennar orðin ekkja með tvö börn og eitt ófætt. Það var lán að eldri börnin, Bára Anna og Karl Sigtryggur, voru orðin nokkuð stálpuð. Mamma fæddist svo í Ytri Haga á Árskógsströnd, sem var lítill bær og er löngu kominn í eyði,“ segir Alda og bætir við að nokkru síðar hafi Ingibjörg flust til Hjalteyrar þar sem hún átti heima næstu árin. En fyrst lenti hún á sjúkrahúsi á Akureyri um margra vikna skeið og þurfti að koma börnunum í fóstur.

„Það var nú þannig að mamma þurfti að fara á sjúkrahús til uppskurðar og engin var nú amman og ekki neitt. En hún kom okkur fyrir hjá mjög góðu fólki og við höfðum það ljómandi gott,“ segir Helena, sem þarna var aðeins þriggja ára gömul. Hún segist muna eftir því þegar móðir hennar fór á spítalann og man vel eftir dvölinni hjá gömlu hjónunum Helgu Kristínu Þorkelsdóttur og Haraldi Indriðasyni sem bjuggu í húsinu Eyrarbakka rétt ofan Hjalteyrar en hjá þeim ílengdust þær mæðgur síðan og Ingibjörg gerðist ráðskona þeirra næstu árin.

Slapp við að enda út í tjörn

„Já, ég man aðeins eftir jólunum þarna á Eyrarbakka,“ segir Helena.

„Ég man að maður í þorpinu, kallaður Kristján í Sæborg, smíðaði handa okkur jólatré sem var málað grænt. Það var hægt að festa á það kerti og var kveikt á þeim á aðfangadagskvöld. En það var ekkert jólaskraut hengt á tréð; það fékkst ekki neitt. Ég man ekki eftir að hafa fengið neitt í jólagjöf, en við fengum jólamat,“ segir hún.

„Kristján smíðaði svo handa okkur magasleða. Kalli bróðir lá á sleðanum og ég sat klofvega á bakinu á honum. Svona renndum við okkur heilu og hálfu dagana,“ segir hún og brosir að minningunni.

„Eitt sinn lenti ég næstum því í slysi. Ég var ein á sleðanum og brunaði hratt niður brekkuna. Ég skynjaði enga hættu og lenti næstum því út í tjörn. Það varð mér til bjargar að ég rakst á staur og hentist af sleðanum,“ segir hún og segir það líklega eina háskann sem hún lenti í sem barn.

„Ég man annars ekkert sérstaklega mikið eftir jólunum því það var ekki mikið tilstand. En það var gert vel sig við í mat og við gerðum laufabrauð. Það fékkst ekkert í búðunum; kreppan var í aðsigi og það komu engar vörur til landsins. Hvorki matarkyns né annað. Fátæktin var víða.“

Mæðgurnar, Ingibjörg og Helena, voru alla tíð saman.

„Ég virði það alltaf við hana að hún lét mig aldrei frá sér. Hún var góð mamma og kenndi mér mjög mikið. Hún var guðhrædd og lagði allt í skaparans hendur.“

Dúkkustrákurinn Montrokkur

Fyrstu dúkkuna sína fékk hún frá mömmu sinni þegar hún kom af sjúkrahúsinu.

„Hann var kallaður Montrokkur,“ segir hún og hlær.

„Hann stóð svo sperrtur og góður með sig. Hann var dálítið montinn að sjá í fínum fötum,“ segir hún og Alda dregur fram gamla ljósmynd þar sem sjá má dóttur Helenu halda á gömlu dúkkunni tveimur áratugum síðar.

Ekki fengu börnin oft leikföng en þó eignaðist Helena aðra dúkku að gjöf þegar hún var fjögurra ára. Þá spurði fóstra hennar hvort hún vildi nú ekki nefna hana í höfuðið á sér, nafninu Helgu Kristínu.

„Ég á víst að hafa sagt: „Nei það geri ég ekki fyrr en ég á lifandi barn sem getur talað.“ Þetta loforð efndi ég þegar ég eignaðist fyrstu dótturina. Hún hét Helga Kristín og fæddist 1942,“ segir Helena, en Helga lést fyrir aldur fram árið 1992.

Helena rifjar upp góða minningu frá jólum æskunnar.

„Ég man eftir að það var barnaskemmtun niðri á Hjalteyri og Gústi sonur hjónanna á Eyrarbakka bar mig á bakinu niður í samkomuhús því það var svo mikill snjór þennan vetur. Þar var gengið í kringum jólatré og sungið og við fengum súkkulaði og rauð epli,“ segir Helena en hún segist ekki minnast þess að hafa trúað á jólasveininn.

Spurð hvort hún hafi sett skó út í glugga hlær Helena.

„Það var ekkert byrjað á því þá, en það var talað um Grýlu, Leppalúða og jólasveinana.“

Hlerinn skall í höfuðið

Tíu ára var Helena farin að vinna en hún var lánuð í Svínárnes á Látraströnd, austan Eyjafjarðar. Ég var látin vinna eins og fullorðin manneskja! Ég rak kýrnar á morgnana og var síðan í uppvaski hjá kellu. Synirnir á heimilinu voru með útgerð og ég þurfti oft að færa þeim mat og kaffi niður að sjó og það var þó nokkuð langt,“ segir hún og rifjar upp hvernig litlar stúlkur léku sér í gamla daga.

„Ég og vinkona mín af næsta bæ á Hjalteyri bjuggum til bú og lékum okkur með skeljar og leggi og þar bökuðum við drullukökur og skreyttum með sóleyjum og fíflum,“ segir hún og hlær.

„Þetta var merkilegt sumar því þá urðu stóru jarðskjálftarnir,“ segir Helena, en 2. júní 1934 reið yfir gríðarstór jarðskjálfti og margir minni fylgdu í kjölfarið. Skjálftinn, sem kallast ávallt Dalvíkurskjálftinn, var um 6,3 á Richter og lagði Dalvík í rúst svo að segja, en ekki varð manntjón.

Helena man vel eftir skjálftanum.

„Ég er nú hrædd um það! Það var svoleiðis grjóthrunið úr fjallinu báðum megin við bæinn. En ekkert féll á bæinn. Þetta var alveg svakalegur jarðskjálfti og ég var einmitt stödd niðri í kjallara. Hlerinn skall í hausinn á mér þegar ég kom upp,“ segir Helena, sem var þá á ellefta ári.

Hörkupúl en spennandi

„Síðan þegar mamma er ellefu ára flytja þær til Hríseyjar,“ segir Alda en þar bjuggu eldri systkini Helenu einnig á þeim tíma.

„Ég fór svo í skóla í Hrísey en mamma var búin að kenna mér að lesa, sálma og vers,“ segir Helena og segist muna eftir einhverjum jólagjöfum þegar hún var eldri.

„Ég man nú ekki eftir að við höfum öll hist á jólunum en hins vegar fórum við saman í kirkju og það var hátíðlegt. Ég man ekki eftir neinum pökkum en ég fékk einhverjar bækur í jólagjöf.“

Eftir nokkur ár í Hrísey fór Helena tvo vetur í Laugaskóla og vann á sumrin fyrir náminu í síldinni á Siglufirði því þar var síldarævintýrið í algleymingi og nóga vinnu að hafa.

„Ég fór í síld þar náttúrlega,“ segir hún en á þessum tíma hitti hún tilvonandi mann sinn, Jóhann Möller, „sem fylgdi henni í Laugaskóla seinni veturinn því ekki vildi hann missa af henni“, skýtur Alda inn í.

„Hann vann hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. Okkur var eiginlega kastað út í djúpu laugina; maður þurfti að bjarga sér bara,“ segir Helena.

„Þið köstuðuð ykkur sjálf,“ segir dóttirin Jóna og Helena hlær dátt.

„Já við gerðum það víst sjálf.“

Þegar síldarævintýrið er nefnt hugsar maður um rómantík. Var það svoleiðis eða bara hörkupúl?

„Þetta var hörkupúl og mjög óþrifaleg vinna en hún var alltaf spennandi!“ segir Helena og hlær.

„Við fórum ekki á böll enda fórum við að hlaða niður börnum,“ segir hún en fyrsta barnið fæddist þegar Helena var nýorðin nítján.

„Og þar með hófst ævistarfið,“ segir Helena en þau hjón eignuðust sex börn á nítján árum.

Dæturnar draga fram mynd af unga parinu nýtrúlofuðu og blaðamanni verður á orði hve falleg þau voru.

„Já, allir hafa einhvern tímann verið ungir,“ segir Helena.

Átta á sextíu fermetrum

Hvernig voru fyrstu jólin með Jóhanni?

„Þau voru góð. Ég man nú ekki hvað hann gaf mér í jólagjöf. Við vorum á aðfangadag í Möllershúsinu hjá foreldrum hans með Helgu litla,“ segir Helena.

Börnin fæddust svo eitt af öðru, fimm stúlkur og einn drengur, en þau eru í aldursröð fyrrnefnd Helga Kristín sem var kennari, Ingibjörg kennari, Alda matvælafræðingur og málfræðingur, Jóna kennari, Kristján fyrrverandi alþingismaður og ráðherra og Alma landlæknir, sem er langyngst systkinanna.

„Allir vorkenndu Kristjáni fyrir að vera eini strákurinn og oft var sagt að hann hefði ekki byrjað að tala fyrr en Helga fór í menntaskóla,“ segir Jóna og hlær.

„Já hann var seinn til máls en einn frændi okkar sagði að við ættum ekkert að vera hissa á því; hann kæmist aldrei að fyrir öllu þessu kvenfólki,“ segir Helena kímin.

Það var því oft líf og fjör á heimilinu, en átta manna fjölskyldan bjó þröngt, á aðeins sextíu fermetrum, en amman Ingibjörg bjó einnig hjá þeim.

„Það var víða búið þröngt á þessum tíma,“ segir Helena og bætir við að fjölskyldan hafi flutt í mun rýmra húsnæði áður en Alma fæddist.

„Það bjuggu margir þröngt og ég man eftir þriggja hæða kojum í einu húsinu. Amma var líka með okkur þarna og fékk dívan í stofunni. Það var sett bólstruð fjöl við þann dívan og þar svaf eitthvað af krökkunum og önnur inni hjá mömmu og pabba,“ segir Jóna.

„Heimavinnan úr skólanum var stundum unnin á klósettinu eða í þvottahúsinu,“ segir Jóna og hlær.

Alda og Jóna segja jól æskunnar hafa verið ljúf og börnin hafi ávallt fengið góðan mat og gjafir. Faðir þeirra kom eitt sinn færandi hendi með nýjar blússur frá útlöndum og „við fengum meira að segja þau jólin postulínsdúkkur frá Bretlandi sem voru skírðar Elísabet eftir ungu drottningunni og Margrét eftir prinsessunni systur hennar“, segir Alda og þær segjast alltaf hafa fengið lambahrygg á aðfangadag og hangikjöt á jóladag.

Helena segir það hafa verið gott að búa á Siglufirði, þótt samgöngurnar hafi verið afar erfiðar á þessum tíma.

„Það var oft snjóþungt og óveður,“ segir hún og dæturnar segjast vel muna eftir snjó upp fyrir miðja glugga.

Að kaupa síðustu flíkina

Börnin fluttu suður í nám eitt af öðru og nokkrum árum eftir að Jóhann lést flutti Helena í Kópavoginn og keypti neðri hæðina í húsi Kristjáns sonar síns og Oddnýjar konu hans.

„Ég flutti hingað með öldinni, árið 2000,“ segir Helena og segist alltaf hafa verið heilsuhraust.

„Ég hef aldrei þurft að fara á spítala, nema í hnjáliðaskipti,“ segir hún.

„Ég man allt vel en ég segi það stundum að ég er góð í hausnum en skrokkurinn er aðeins farinn að gefa sig. Áður fyrr var ég í leikfimi og sundi en fékk svo samfall í bakið og hef ekki náð mér vel eftir það,“ segir Helena, en hún fer tvisvar í viku í dagdvöl þar sem hún hittir annað eldra fólk, heklar og spjallar, og svo fer hún einu sinni í viku til hennar Hörpu í Sjúkraþjálfun Kópavogs.

„Mamma er elst í dagdvölinni en ég mundi segja að hún væri með þeim allra sprækustu,“ segir Alda.

„Ég er alls staðar elst,“ segir Helena og brosir.

Helena hefur ætíð verið mikil handavinnukona og hefur heklað mörg listaverkin sem hún gefur börnum og barnabörnum í jólagjafir.

„Hún hefur gert alls konar diska- og glasamottur, jóladúka og jólasokka og allt ótrúlega fallegt,“ segir Alda og sýnir blaðamanni myndir af listaverkum Helenu sem nú sóma sér vel á jólaborðum barna og barnabarna.

„Mamma bæði prjónaði og saumaði allt á okkur alla tíð, meira að segja þegar ég var í menntaskóla,“ segir Jóna og segir móður sína oft í akkorðsvinnu við heklið.

„Eins og hún sé komin aftur í síldina,“ segir Jóna og brosir.

Ég frétti frá einu barnabarninu að þú værir mikið fyrir falleg föt. Er það satt?

Systurnar skella upp úr.

„Mamma er pjöttuð,“ segir Jóna.

„Í fleiri ár hef ég alltaf haldið að ég væri að fá eða kaupa síðustu flíkina og stundum fæ ég mér nýjan kjól fyrir jólin,“ segir Helena og gjarnan er haft á orði í fjölskyldunni að þá segist hún nú þurfa að lifa tíu ár í viðbót til að slíta henni.

Skilað vel ævistarfinu

Um þessi jól ætlar Helena að borða hjá fjölskyldu Kristjáns á aðfangadag og það hefur hún langoftast gert en tvisvar hefur hún verið í Svíþjóð um jól. Í fyrra skiptið var hún hjá Ölmu í Lundi og sótti þar messu í dómkirkjunni. Í seinna skiptið var hún í Åkarp hjá nöfnu sinni og dótturdóttur, Helenu Sveinsdóttur skurðlækni.

Það er farið að líða að hádegi og blaðamanni er boðið til sætis í eldhúsinu þar sem okkar bíður ilmandi kaffi og fínasta meðlæti. Við ræðum allt fólkið hennar Helenu, en barnabörnin urðu fjórtán og barnabarnabörnin eru nú orðin tuttugu og fjögur.

„Það var nú lán að sleðinn hennar Helenu endaði ekki út í tjörn!“ verður blaðamanni að orði yfir kaffinu.

„Ég hefði getað drukknað þar,“ segir Helena og er afar þakklát fyrir góða afkomendur.

„Það er gaman að fylgjast með öllu þessu fólki og vera ættmóðirin. Þetta er allt saman reglufólk sem hefur klárað nám. Ég vona að ég hafi skilað vel mínu æviverki. Mamma sagði einu sinni við mig: „Skaparinn hefur trúað þér fyrir þessum börnum Lena mín.“ Ég vona að hún hafi ekki orðið fyrir vonbrigðum.“

Nú ertu að fara að lifa hundruðustu jólin þín. Finnst þér það ekki skrítið?

„Jú, mjög skrítið. Mér datt aldrei nokkurn tímann í hug að ég yrði svona gömul.“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir