Ferðamenn Langflestir koma á höfuðborgarsvæðið á hverju ári.
Ferðamenn Langflestir koma á höfuðborgarsvæðið á hverju ári. — Morgunblaðið/Eggert
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa samþykkt að setja á fót Áfangastaðastofu höfuðborgarsvæðisins. Undirbúningur er í fullum gangi og mun stofan taka til starfa á næsta ári. Í dag eru áfangastaðastofur í öllum landshlutum á Íslandi nema á höfuðborgarsvæðinu

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa samþykkt að setja á fót Áfangastaðastofu höfuðborgarsvæðisins. Undirbúningur er í fullum gangi og mun stofan taka til starfa á næsta ári. Í dag eru áfangastaðastofur í öllum landshlutum á Íslandi nema á höfuðborgarsvæðinu. Nýjustu tölur sýna að 93% erlendra ferðamanna heimsækja höfuðborgarsvæðið.

Drög að samningi Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar, Reykjavíkur, Seltjarnarnesbæjar, Samtaka sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins (SSH) og Ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins um stofnun áfangastaðastofu hafa verið kynnt. Með samningnum er skrifstofu SSH, ásamt verkefnastjóra verkefnis um áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið, falið að undirbúa stofnun Áfangastaðastofu höfuðborgarsvæðisins sem verði rekin sem sjálfseignarstofnun á grundvelli laga nr. 33/1999. Áfangastaðastofa höfuðborgarsvæðisins verður stofnuð á árinu 2023.

Samningur um samstarf

Unnið hefur verið að verkefninu frá upphafi árs 2021 og skrifaði samstarfsvettvangur um áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið í upphafi árs 2022 undir samstarfssamning. Þar voru helstu verkefnin m.a. að vinna áfangastaðaáætlun, stefnumótun og framtíðarsýn fyrir áfangastaðinn og aðgerðaáætlun (til 3-5 ára) og að greina tölfræði og vinna markmið og mælikvarða fyrir áfangastaðinn.

Tilgangur og markmið eru enn þau sömu og dregin voru fram í samningi samstarfsvettvangsins: Að efla vitund og þekkingu um áfangastaðinn og allt það sem svæðið hefur upp á að bjóða, jafnt fyrir ferðamenn og íbúa. Ennfremur að þróa, móta og efla samstarf og samlegð um málefni ferðaþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu milli sveitarfélaga, atvinnulífs og stjórnvalda.

Miðað skal við að stofnfundur skuli haldinn eigi síðar en 15. mars 2023. Í áætlunum um starfsemina er gert ráð fyrir að einn starfsmaður, þá væntanlega framkvæmdastjóri, verði ráðinn strax við stofnun stofunnar og að um mitt ár 2023 verði ráðnir tveir starfsmenn til viðbótar og formleg starfsemi hafin. Framtíðaráætlanir gera þá ráð fyrir að áfangastaðastofan verði komin í fulla starfsemi á árinu 2024 en þá verði tveir starfsmenn til viðbótar ráðnir til starfa.

Kostnaður sem skiptist milli sveitarfélaga á árinu 2023 nemur 39.590.000 krónum. Kostnaður miðast við hlutfall íbúa á svæðinu. Reykjavík mun leggja fram 22,3 milljónir, Kópavogur 6,5, Hafnarfjörður 4,9, Garðabær 3, Mosfellsbær 21,2 og Seltjarnarnesbær 776 þúsund krónur.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson