[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Borgarfulltrúinn Árelía Eydís Guðmundsdóttir býst við miklu fjöri á aðfangadagskvöld. Hvað kemur þér í jólaskap? Þegar ljósin fara að kvikna eitt og eitt í myrkrinu í lok nóvember og hillir undir jólapróf fer ég að komast í jólastuð

Borgarfulltrúinn Árelía Eydís Guðmundsdóttir býst við miklu fjöri á aðfangadagskvöld.

Hvað kemur þér í jólaskap?

Þegar ljósin fara að kvikna eitt og eitt í myrkrinu í lok nóvember og hillir undir jólapróf fer ég að komast í jólastuð. Hið sanna hátíðarskap hins vegar er þegar hinn himneski friður jólanna kviknar innra með mér þegar kirkjubjöllur klingja klukkan sex á aðfangadag.

Hver eru eftirminnilegustu jólin?

Fáklædd fjölskyldan að sötra kampavín á ströndinni í Ástralíu undir heitri sól á aðfangadag (þau yngstu fengu ekki kampavín skal tekið fram) er líklega óvanalegasta jólaminning okkar hingað til.

Hver er sniðugasta gjöf sem þú hefur fengið?

Ég elskaði jólaskrautsgjafir barna minna þegar þau voru lítil, þær voru bestar. Kannski ekki fegurstar en bestar. Ég og Kristín systir mín heitin gáfum hvor annarri „kærasta“-pakka þegar enginn var kærastinn í gamla daga og það gat verið ýmislegt skemmtilegt og skrýtið.

Hvernig verða jólin í ár?

Jólin í ár verða bæði fjölmenn og blátt áfram dásamleg. Börnin, barnabarn, tengdasonur og foreldrar hans, foreldrar mínir og bróðir minn og hans fjölskylda. Það má ekki bregða út af vananum í matargerð: hamborgarhryggur, steikt hvítkál, brúnaðar kartöflur, grænar baunir og rauðkál, malt og appelsín. Mamma kemur með frómas og tengdasonurinn með heimagerðan ís og í ár bætist við eplasalat frá Birgittu. Ég mun vera í stressi á síðustu stundu fram að mat, skipa krökkunum óþolinmóð fyrir og öskra á köttinn og þýt svo upp og set á mig varalit áður en gestir koma rétt fyrir kvöldmat. Klukkan 18 mun allt falla í dúnalogn og allir verða sestir niður þegar blessun hátíðarinnar leggst yfir okkur.

Árelía Eydís Guðmundsdóttir