Birna María B. Svanbjörnsdóttir er dósent við Háskólann á Akureyri.
Birna María B. Svanbjörnsdóttir er dósent við Háskólann á Akureyri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hef alltaf haft gaman af góðum sögum og þá skiptir ekki öllu máli um hvað sagan er ef hún hreyfir við tilfinningum og opnar víddir í nýja heima. Bækur og sögur Haruki Murakami eru þess eðlis. Ég hef lesið allt sem ég hef náð í eftir hann en í…

Ég hef alltaf haft gaman af góðum sögum og þá skiptir ekki öllu máli um hvað sagan er ef hún hreyfir við tilfinningum og opnar víddir í nýja heima.

Bækur og sögur Haruki Murakami eru þess eðlis. Ég hef lesið allt sem ég hef náð í eftir hann en í sérstöku uppáhaldi er þríleikurinn 1Q84 sem gerist á öðru tilverustigi en við eigum að venjast. Þar stýra tungl hugsunum og hið óútskýranlega ræður ríkjum en gengur upp á einhvern undarlegan og skemmtilegan hátt. Ljóðabókin Leðurjakkaveður eftir Fríðu Ísberg hreyfir einnig við mér. Einlæg ljóðin segja sögur sem fá nýja merkingu og aukna dýpt þeim mun oftar sem þau eru lesin.

Sögur Nóbelsverðlaunahafans Kazuo Ishiguro hitta líka í mark hjá mér en ég lauk nýlega við bókina Klara and the Sun eftir hann sem er í grunninn afar sorgleg en hlý þar sem mennska og „vélmennska“ takast á í veröld breytinga og lyfta siðferðilegum álitamálum í hæstu hæðir.

Nýlega las ég einstaklega góðan og nýstárlegan þríleik eftir Karin Smirnoff um systkin sem takast á við lífið eftir erfið æskuár í Norður-Svíþjóð. Það eru bækurnar Jag for ner till bror, Vi for upp med mor og Sen for jag hem.

Kjell Westö lýsir lífi og samskiptum fólks í finnsku samfélagi og hefur einstaklega gott vald á persónusköpun og lýsir vel glímu fólks við sig sjálft og aðra. Bók hans Den svavelgula himlen sem ég var að klára gerist í Helsinki og er saga af einkalífi, vináttu, ástum, leyndarmálum og átökum vinahóps yfir áratuga tímabil.

Bókin sem ég er að lesa núna er eftir John Ajvide Lindquist og heitir Vänligheten. Hún fjallar um samfélagsbreytingar með yfirnáttúrlegum undirtóni og glímir við átök vinsemdar og hryllings. Ajvide skrifaði líka Gräns og Låt den rätta komma in.

Ég hef lesið mikið eftir Karl Ove Knausgaard, meðal annars öll sex bindin af Min kamp! Næsta bók á leslistanum mínum er bókin Morgenstjernen eftir hann. Auk hennar á listanum eru að sjálfsögðu líka nýjar íslenskar jólabækur sem gera jólin að jólum.

Gleðileg lestrarjól.