Gripið er niður í bókinni þar sem segir frá samskiptum hins unga bankamanns, Jóhannesar Nordal, við nestor íslenskra stjórnmála og atvinnulífs, Ólaf Thors, árið 1959, áður en Viðreisnarstjórnin var mynduð.
Málefni eins fyrirtækis vakti þó öðrum fremur athygli mína, en það var Kveldúlfur, hið gamla stórveldi í útgerð og fiskvinnslu. Ég vissi að í sögu þess höfðu skipst á skin og skúrir. Eftir mikinn uppgang á þriðja áratugnum lenti það í miklum andbyr á kreppuárunum þegar saltfiskmarkaðurinn hrundi. Mundi ég vel hvernig skuldamál Kveldúlfs í Landsbankanum höfðu orðið að miklu pólitísku deilumáli á árunum fyrir stríð, þegar ég var að byrja að mynda mér skoðanir á þjóðmálum. Við þeim vanda var brugðist af hálfu Kveldúlfs með byggingu Hjalteyrarverksmiðjunnar, en síldveiði og vinnsla var þá talin vænlegasta grein sjávarútvegsins. Síðan hófst stríðið með gósentíð bæði í sölu á síldarafurðum og togarafiski, svo að brátt var Kveldúlfur aftur orðinn stórefnað og nær skuldlaust fyrirtæki. Á nýsköpunarárunum tók Kveldúlfur þá stefnu að draga úr togaraútgerð, en leggja í þess stað aðaláhersluna á síldina. Aðeins einn nýsköpunartogari var keyptur í stað sjö togara sem félagið hafði áður gert út. Hins vegar var mikið fé lagt í endurbætur á verksmiðjunni á Hjalteyri. Ekki gaf sú fjárfesting mikið í aðra hönd því að framundan reyndist vera langt tímabil þverrandi síldveiði fyrir Norðurlandi.
Nýjar gróðavonir vöknuðu þó veturinn 1947-48, þegar mokveiði var á síld í Hvalfirði og jafnvel rétt utan Reykjavíkurhafnar. Vegna almennra væntinga um áframhaldandi síldarafla í Faxaflóa lagði Kveldúlfur þá mikið fé í byggingu nýrrar og fullkominnar síldarverksmiðju í Örfirisey. Sú fjárfesting varð félaginu eingöngu til byrði, því að Hvalfjarðarsíldin sýndi sig aldrei aftur. Þegar allt þetta lagðist saman hlaut afleiðingin að verða samfelldur taprekstur og skuldasöfnun sem fyrst og fremst var jöfnuð með vaxandi skuldasöfnun í Landsbankanum. Bak við þær skuldir stóðu margvíslegar óveðsettar eignir félagsins sem bankinn gat gengið að, að viðbættum ótakmörkuðum persónulegum ábyrgðum bræðranna Ólafs og Richards Thors. Það eina sem gert hafði verið til að lækka skuldir Kveldúlfs við bankann undanfarin ár var sala á eignum félagsins við Skúlagötu til Eimskipafélagsins árið 1953. Það nægði til að greiða brýnustu lausaskuldirnar við bankann, en þær voru aðeins hluti af heildarskuldum félagsins. Lítið var hins vegar að gert til að stöðva tapreksturinn, svo að þetta reyndist skammgóður vermir. Brátt voru skuldirnar við bankann því orðnar jafnmiklar og fyrr, svo að ekkert hafði breyst nema nú stóðu minni eignir á bak við þær en áður. Eina vænlega leiðin til að leysa vanda félagsins var því að ganga miklu lengra og stefna að því að greiða allar skuldir Kveldúlfs með sölu eða yfirtöku eigna og halda þeim eina rekstri áfram sem örugglega gæti staðið undir sér. Mér fannst þetta óviðunandi ástand og ræddi um áhuga minn á því að kanna málið á þessum grundvelli við félaga mína í bankastjórninni og tóku þeir vel undir það. Pétur Benediktsson taldi sig þó ekki geta haft nein afskipti af málinu, en hann var tengdasonur Ólafs Thors. Eftir að hafa farið yfir þau gögn sem fyrir lágu um eignir og skuldir Kveldúlfs, fannst mér næsta skref yrði að vera að kanna persónulega hvort nokkur grundvöllur væri fyrir því að semja um slíkt skuldauppgjör við forystumenn Kveldúlfs. Niðurstaðan var sú, eftir að ég hafði ráðfært mig við Pétur, að ég bað um viðtal við Ólaf Thors um málið. Tók hann mér vel og bauð mér að koma heim til sín eftir hádegi daginn eftir, en það var komið fram undir lok ágúst þegar þetta var. Hafði ég aðeins einu sinni áður átt tal við Ólaf, en það var þegar hann lýsti vanþóknun sinni á álitsgerð okkar hagfræðinganna fjórum árum áður, svo að ég vissi vel hve aðsópsmikill hann gat verið, þegar honum var mikið niðri fyrir.
Nú tók hann á móti mér jafn ljúfur í fasi og sumarblíðan sem ríkti utan dyra. Hann var auðsjáanlega vel hvíldur og afslappaður, kosningabaráttan um vorið að baki og alllangt þangað til átök haustsins hæfust með þinghaldi og enn nýjum kosningum. Hann bauð mér til sætis inni á skrifstofu sinni, þar sem ég gerði í stuttu máli grein fyrir hugmyndum mínum um að kannaðir yrðu möguleikar á uppgjöri á öllum skuldum Kveldúlfs við Landsbankann, en fyrsta skrefið væri að fá raunhæft mat á verðmæti allra eigna félagsins. Tók Ólafur strax vel undir mál mitt og sagðist fagna því að reynt yrði að finna lausn á skuldamálum Kvöldúlfs. Erfitt væri hins vegar að meta margar eignir félagsins til verðs og finna aðila sem hefðu bolmagn til að kaupa þær. Nefndi hann sérstaklega Melhúsalóðirnar á Seltjarnarnesi og lóðir félagsins við Strandgötu í Hafnarfirði. Brátt barst talið að rekstrarvandamálum Kveldúlfs og hvernig skipst hefðu á skin og skúrir í sögu félagsins. Fann ég hve hugleikið honum var þetta umræðuefni, en sjálfur sagðist hann ekki oft hafa átt skemmtilegri daga en þegar hann var með hugann allan við stjórn Kveldúlfs á þriðja áratugnum. Síðustu árin hefðu hins vegar verið erfið og hann lítið getað komið nærri málefnum félagsins. Richard bróðir hans, sem lengi hefði verið máttarstólpinn í rekstrinum, væri farinn að lýjast. „Hann var maður,“ sagði Ólafur, og ég fann hve mikill þungi og eftirsjá fólst í þessum fáu orðum.
Það kom mér á óvart, hve opinskátt og innilega Ólafur ræddi við mig um líf sitt og störf, jafnvel eins og ég væri gamall fjölskylduvinur. Það liðkaði eflaust líka um málbeinið hjá okkur báðum að frú Ingibjörg bar fyrir okkur kaffi og Ólafur tók upp koníaksflösku til bragðbætis. Eftir að hafa rætt fram til baka um málefni Kveldúlfs, snerist umræðan að efnahagsmálunum og hverjar horfur væru á því að koma fram nauðsynlegri stefnubreytingu með samvinnu Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins, en þar sagði hann að sjálfsögðu mikið velta á því, hvernig flokkarnir kæmu út úr komandi kosningum. Honum fannst hins vegar mikilvægt að heyra að ég teldi góðar líkur á öflugum fjárhagslegan stuðningi bæði frá OEEC og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, ef Íslendingar gerðu alvöru úr róttækri stefnubreytingu í átt til frjálsræðis í utanríkisviðskiptum.
Þótt ég geti ekki lengur, nú hálfri öld síðar, rakið samtal okkar í einstökum atriðum, eru áhrif þess á mig eins lifandi fyrir hugskotssjónum mínum og það hefði gerst í gær. Við sátum saman alveg fram undir kvöldmat, fjórar klukkustundir eða meira, og á þeim tíma kynntist ég ógleymanlegum manni, einlægum og heilsteyptum, alvörugefnum, en þó geislandi af lífsgleði. Ekki er ofmælt að ég hafi á þessum fundi fallið fyrir persónutöfrum Ólafs, en það sem mestu máli skipti fyrir mig var að þarna myndaðist með okkur trúnaðarsamband sem var mér mikils virði þau fjögur ár sem ég átti eftir að vinna náið með honum að mörgum vandasömum og erfiðum málum. Um upphaflegt tilefni fundar okkar, Kveldúlfsmálin, er hins vegar það eitt að segja að eftir að Ólafur varð forsætisráðherra var ekki á það minnst okkar á milli. Voru skuldamál Kveldúlfs þess vegna ekki tekin til endanlegrar afgreiðslu af bankanum fyrr en nokkrum árum eftir fráfall Ólafs. Mun Landsbankinn hafa komist skaðlaus frá því uppgjöri, en andvirði íbúðarhúss Ólafs Thors var meðal þeirra eigna sem gengu upp í skuldir félagsins við bankann.