Anton Guðjónsson
anton@mbl.is
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að Guðmundar- og Geirfinnsmálið skilji eftir sár sem muni aldrei gróa. Engin einföld lausn hafi verið á málinu en því sé nú að ljúka hvað varðar aðkomu stjórnvalda.
„Ég held að bæði það sem hefur gerst áður í þessu máli, fyrri atvik, og þessi ákvörðun líka miðist öll við það að við teljum að þetta mál sé einstakt,“ segir Katrín við Morgunblaðið.
Á fimmtudaginn var tilkynnt að Erla Bolladóttir fengi greiddar 32 milljónir króna í miskabætur vegna gæsluvarðhalds sem hún sætti fyrir meinta aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar. „Við teljum þetta ekki vera fordæmisgefandi því málið er einstakt sem slíkt, það sé ekki þekkt önnur sambærileg dæmi og eins vonumst við til að ekkert slíkt endurtaki sig,“ segir Katrín. Hún segir að bætur sem áður hafa verið greiddar í þessu máli hafi verið gríðarlega háar.
Í minnisblaði til forsætisráðherra frá skrifstofu stjórnskipunar og stjórnsýslu, sem sent var 16. desember sl. segir m.a. að telja megi forsvaranlegt að endurskoða afstöðu ríkisins frá 2019 og hverfa frá þeirri afstöðu að bótakrafa Erlu væri fyrnd, sem og sjónarmiðum um að Erla hafi valdið eða stuðlað að því að hún sætti gæsluvarðhaldi. „Ljóst er að þótt ríkið beri jafnan fyrir sig fyrningu þegar það á við er ríkinu ekki skylt að gera það. Í máli Erlu má færa rök fyrir því að hagsmunir ríkisins standi beinlínis til þess að bera ekki fyrir sig fyrningu sökum þess hve mikilvægt má telja að ljúka Guðmundar- og Geirfinnsmálinu gagnvart þeim sem hafa átt um sárt að binda vegna þess.“
Þar segir einnig að mikilvægt sé að ef samkomulag náist við Erlu grundvallist það á því hve einstakt málið sé til að skapa ekki óæskilegt fordæmi gagnvart öðrum sem eru í svipaðri réttarstöðu. Eðlilegt sé einnig að skoða mál Sigurðar Óttars Hreinssonar ef sátt náist við Erlu. Sigurður sat í gæsluvarðhaldi í um það bil mánuð í tengslum við Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Hann sendi ríkinu bótakröfu vegna þessa haustið 2018 en þeirri kröfu var hafnað með svipuðum rökum og kröfu Erlu. Bætur til hans myndu nema rúmlega þremur milljónum króna ef sama reikniaðferð yrði lögð til grundvallar og hjá Erlu.
„Já það verður gert og í þeim efnum erum við að tryggja jafna meðferð allra þeirra sem komu að þessu máli sem enn þá er jafn óleyst og það hefur alltaf verið,“ segir Katrín um mál Sigurðar.
Magnús Leópoldsson, einn fjögurra manna sem hnepptir voru í gæsluvarðhald vegna rangra sakargifta Erlu, segir þá ákvörðun Katrínar að biðja Erlu afsökunar og greiða henni bætur galna og að fjölskyldur fjórmenningana séu í áfalli.
„Sú meðferð sem við fengum, við höfum aldrei fengið nokkra afsökunarbeiðni. Við erum þó aðilarnir sem þurftum að þola skömmina, saklaust fólk,“ sagði Magnús við mbl.is.
„Ég held að það verði líklega aldrei allir á eitt sáttir en ég held að stjórnvöld hafi gert sitt allra besta til að reyna að ljúka þessum málum,“ segir Katrín.