Aðlögun Seðlabankinn hefur hækkað vexti mikið á þessu ári.
Aðlögun Seðlabankinn hefur hækkað vexti mikið á þessu ári. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Niðurstaða kjarasamninga gæti að óbreyttu kallað á hærri vexti til að ná niður verðbólgu.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Niðurstaða kjarasamninga gæti að óbreyttu kallað á hærri vexti til að ná niður verðbólgu.

Þetta er mat Yngva Harðarsonar, hagfræðings og framkvæmdastjóra Analytica.

Verðbólgumarkmið Seðlabankans er sem kunnugt er 2,5% en verðbólga er nú 9,6% þegar litið er til sl. 12 mánaða og meginvextir 6%.

Í síðustu Peningamálum Seðlabankans, sem birt voru í nóvember, er gert ráð fyrir 6% launahækkunum í grunnspá bankans. Óvissa sé um verðbólguhorfur og geti þær talist of bjartsýnar „ef t.d. launahækkanir í kjarasamningum reynast á endanum meiri en grunnspáin gerir ráð fyrir“.

Umfram forsendur bankans

„Samkvæmt síðustu Peningamálum var ein forsendan að baki verðbólguspá bankans að samið yrði um 6% launahækkanir næstu þrjú ár,“ segir Yngvi.

„Nú virðist hafa verið samið um meiri hækkanir, að minnsta kosti til skemmri tíma litið. Ég er ekki búinn að greina hvað kjarasamningarnir fela í sér miklar launahækkanir en mér sýnast þær töluvert umfram forsendur Seðlabankans. Rætt er um að þær samsvari 11% launahækkun á 15 mánaða tímabili og deilt niður á árshlutföll er það um 9% hækkun á ári, sem er þá 50% umfram þá 6% launahækkun sem gert er ráð fyrir í forsendum og grunnspá Seðlabankans.“

Hvað þýðir það fyrir vaxtahorfur?

„Að öðru óbreyttu, þ.m.t. að fasteignamarkaður kólni ekki [og vinni þannig gegn verðbólgu], ætti þetta að þýða að það þurfi hærri vexti til þess að ná verðbólgumarkmiðinu.“

Þannig að niðurstaða kjarasamninga þrýstir fremur á vaxtahækkanir en lækkanir?

„Já, en á móti kemur að óvissa um verðbólguhorfur hefur minnkað, miðað við þá kjarasamninga sem hafa verið samþykktir, en það er svo sem ekki búið að bíta úr nálinni með yfirstandandi kjarasamningalotu.“

Grefur undan genginu

– Nú virðist hafa verið samið um meiri hækkun en kannski einhverjir voru að vona. Hvaða áhrif mun það hafa á gengisþróun, ekki síst ef viðskiptahalli eykst?

„Það grefur þá undan genginu en það hefur látið undan síga. Það skýrist að hluta af því að þótt Seðlabankinn hafi hækkað vexti hefur vaxtaálag á íslenska banka erlendis hækkað mikið og jafnað út vaxtahækkanir hér heima. Þannig að fyrirtæki sem hafa skuldað í erlendri mynd geta jafnvel sparað sér peninga með því að skulda heldur í krónum.“

Aðlögun fram undan

– Höfum við sem þjóð efni á að hækka laun svo mikið miðað við óbreytt gengi krónu?

„Það mun verða einhvers konar aðlögun en þá sviðsmynd er heldur ekki hægt að útiloka að framleiðsla á tímaeiningu aukist mikið. Þá meðal annars vegna þess að ef atvinnuleysi eykst hefur það tilhneigingu til að valda fækkun starfsfólks með lága framleiðni,“ segir Yngvi.

– Hafa, að þínu mati, líkur aukist á að verðbólgan verði þrálátari en vonast var til fram til ársins 2024?

„Það er erfitt að spá um hvað það tekur langan tíma að ná verðbólgu niður í markmið. Það er ekki hægt að útiloka að verðbólga hafi ekki náð hámarki, en ég tel meiri líkur á að hún muni fara minnkandi. Hún gæti þó orðið vel yfir markmiði í lengri tíma en áður var gert ráð fyrir.“

Í þessu samhengi má einnig nefna að erlendir seðlabankar, s.s. sá bandaríski og sá evrópski, eru ákveðnir í því að ná verðbólgu niður í markmið. Evrópski seðlabankinn hefur sagt með berum orðum að frekari vaxtahækkanir séu nauðsynlegar til að vinna bug á verðbólgu.

Á fréttamannafundi bankans 15. desember síðastliðinn sagði Christine Lagarde seðlabankastjóri að þörf væri á talsverðum vaxtahækkunum fram undan og að þær yrðu í 50 punkta jöfnum skrefum. Þá myndi bankinn hefja sölu á skuldabréfum snemma í mars nk. Þá sagði Lagarde að væntingar markaðaðila um vaxtaþróun endurspegluðu ekki það sem þyrfti til að ná verðbólgu niður í 2% verðbólgumarkmiðið innan ásættanlegs tíma.

Hækkunarlotan ekki afstaðin

Jerome Powell seðlabankastjóri Bandaríkjanna sagði í tilefni af vaxtaákvörðun bankans 14. desember að ekki væri tímabært að fara að velta fyrir sér vaxtalækkunum, fulltrúaráðsmeðlimir spáðu 4,6% verðbólgu eftir eitt ár samanborið við 2% markmið. Ferli vaxtahækkana væri ekki lokið. Þeir spáðu 5,1% stýrivöxtum að ári liðnu en núverandi vaxtastig er 4,25%-4,75%. Hraði vaxtahækkana væri hins vegar ekki lengur aðalmálið heldur hver stefnan gæti verið.“

Loks segir Yngvi aðspurður að ef endi verði bundinn á stríðið í Úkraínu kunni alþjóðlegar efnahagshorfur að glæðast og þá breytist efnahagshorfur á Íslandi sömuleiðis til batnaðar.

Höf.: Baldur Arnarson