Hreinskilin „Kaflarnir tíu í þessari sögu eru ótrúlega vel pródúseraðir. Halda manni á tánum og taka óvissar beygjur í takti, hljóði og stefnum,“ segir gagnrýnandi hrifin um plötu Gugusar sem ber heitið 12:48.
Hreinskilin „Kaflarnir tíu í þessari sögu eru ótrúlega vel pródúseraðir. Halda manni á tánum og taka óvissar beygjur í takti, hljóði og stefnum,“ segir gagnrýnandi hrifin um plötu Gugusar sem ber heitið 12:48. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Raftónlist 12:48 ★★★★★ Breiðskífa Guðlaugar Sóleyjar Höskuldsdóttur, gugusar. Lög og útsetningar eftir hana.

Hljómplata

Sólveig Matthildur

Í nóvember gaf tónlistarkonan Guðlaug Sóley út aðra breiðskífu sína, 12:48, undir nafninu Gugusar. Guðlaug hóf tónlistarferil sinn 15 ára gömul þegar hún tók þátt í Músíktilraunum árið 2019 þar sem hún var krýnd rafheili keppninnar. Fyrsta breiðskífa hennar kom svo út ári síðar og bar nafnið Listen to this twice.

Ég sá Guðlaugu fyrst koma fram sem Gugusar þegar við deildum sviði í opnunarpartíi tónlistarmiðstöðvar Stelpur rokka í janúar 2020. Síðan þá hef ég fylgst með henni springa út og eftir að hafa hlustað á nýjustu verk þessarar mögnuðu tónlistarkonu get ég ekki annað en fengið stjörnur í augun og er full tilhlökkunar að sjá hvað framtíð hennar ber í skauti.

12:48 er rúmur hálftími af rafrænum draumi þar sem vindhviður úr mörgum ólíkum áttum mætast. Ég heyri Grimes og XXYYXX og dansgólfið á Prikinu með DnB- og drill-innskotum, þar sem bassinn og trommurnar fljúga upp og niður á meðan verkið líður áfram. Í hverju lagi er kafli þar sem melankólískur píanóleikur með „tape effekt“ tekur yfir og gefur plötunni heildarmynd og leggur tregafulla dulu yfir söguna. 12:48 hefst á inngangslaginu „Ekki séns“ þar sem rauður þráður plötunnar, melankólíska píanóið, er kynnt til leiks. Svo tekur yfir hljóðaflóð af stingandi syntum sem leiðir á eftir sér leiðandi takt inn í næsta lag, „Annar séns“, sem er örugglega poppaðasta lag plötunnar án þess að slá einhverja Eurovision-strengi. Það lyftir hlustendum upp og setur markið hátt fyrir komandi lög.

„Glerdúkkan“ tekur við, hrifsar okkur aftur niður og leiðir hlustanda áfram á fleygiferð um brothætta jörð, þar sem raddir breytast, litir brenglast og hjörtu brotna. Næstu tvö lög, „Leið á þessu“ og „Gaddavír“, sýna svipaða mynd en veita okkur betri skilning á veruleikanum. Raftrommurnar taka sér hlé og djassskotinn og óræður taktur tekur við og gefur okkur öðruvísi áferðir.

Það sem mér finnst skemmtilegast á plötunni er hvernig Guðlaug nýtir rödd sína í tónlistinni. Hún er stundum hrá og falleg en svo líka „auto-tune“-uð og brotin upp, „layeruð“ og klippt til svo eyrun heyra ekki hljóðanna skil. Þetta má heyra í mörgum lögum en svo einstaklega vel í sjötta lagi plötunnar, „Þurfum að batna“. Það ásamt sjöunda laginu, „Komdu“, lyftir okkur aftur upp. Þetta eru lög sem fara í allar áttir og eru algjör hápunktur þegar kemur að dansi og djammi og endar í snilldarlega útsettu „drum and bass“-brjálæði. Eftir eltingaleik og dans í miðnætursólinni fáum við að upplifa algjöra berskjöldun í síðustu lögum plötunnar; „Röddin í klettunum“ og „Aleinn“. Þar leyfir Guðlaug rödd sinni að blómstra. Svo fullkomlega hreinskilin, tregafull og blíð. Ég gæti endalaust hlustað á rödd hennar brotna.

Lokaorð sögunnar eru í tíunda og seinasta laginu sem ber titilnafn plötunnar, „12:48“. Án nokkurra radda bindur það allt saman og ég sem hlustandi legg frá mér bókina og andvarpa af virðingu og aðdáun á verkinu.

Kaflarnir tíu í þessari sögu eru ótrúlega vel pródúseraðir. Halda manni á tánum og taka óvissar beygjur í takti, hljóði og stefnum og gefa hlustendum ekki tækifæri á að stoppa, svo þau neyðast til þess að falla í hljóðheiminn og verða hluti af sögunni.