Einu gildir hvar borið er niður um veröld víða nú í aðdraganda jólanna: margir siðir eru svipaðir hvert sem landið er og menning þar. Í Rio de Janeiro í Brasilíu birtist jólasveinninn, rauðklæddur með hvítt skegg, á gjörgæsludeild barnaspítalans þar í borg. Á bak við búninginn var tæplega sextugur starfsmaður sjúkrahússins. Sá hefur síðastliðin tuttugu ár haft með höndum að gleðja börn sem þurfa læknishjálp og dvelja á sjúkrahúsinu um hátíðina.
Í alþjóðlegum fréttaveitum, þaðan sem Morgunblaðinu berst efni, mátti í gær finna margar frásagnir líkar þeirri sem hér að ofan greinir. Óteljandi lönd og allar álfur heimsins voru undir í þeim pakka. Litríkar og líflegar sögur sem allar hafa í raun sama inntak: bestu óskir um gleðileg jól. sbs@mbl.is