Litli galdrakarlinn Ronnie James Dio á tónleikum árið 2009. Ári síðar var hann allur.
Litli galdrakarlinn Ronnie James Dio á tónleikum árið 2009. Ári síðar var hann allur. — AFP/Terje Bendiksby
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Öll þekkjum við lögin Do They Know It's Christmas og Hjálpum þeim sem breska og íslenska popplandsliðið gáfu út til styrktar langsoltnum og bágstöddum börnum í Afríku um miðjan níunda áratug siðustu aldar

Öll þekkjum við lögin Do They Know It's Christmas og Hjálpum þeim sem breska og íslenska popplandsliðið gáfu út til styrktar langsoltnum og bágstöddum börnum í Afríku um miðjan níunda áratug siðustu aldar. Færri kannast líklega við lagið Stars sem alþjóðalið málmlistamanna gaf út um líkt leyti í sama tilgangi, enda höfðu aðstandendur þess verkefnis ekki rænu á því að pakka lagi sínu inn í jólapappír, þannig að dusta mætti rykið af því árlega eins lengi og ból byggist, líkt og hinum tveimur.

Do They Know It's Christmas með Band Aid-hópnum, sem út kom fyrir jólin 1984, og bandaríska hjálparlagið, We are the World með USA for Africa-flokknum, sem leit dagsins ljós rúmum þremur mánuðum síðar, voru upptakturinn að Stars. Höfundinum, Ronnie James Dio, ættföður þungarokkara í heiminum, þótti hans menn ekki nægilega áberandi í hinum atriðunum tveimur. Engum sögum fer af því hvort Dio heitinn heyrði Hjálpum þeim með Íslensku hjálparsveitinni nokkru sinni í lifanda lífi en þar fór frændi hans, Eiríkur Hauksson, sannarlega mikinn. Íslendingar alltaf framsæknir og á undan sinni samtíð.

Dio smalaði sínu liði, um 40 málmhausum, saman seint í maí 1985 í húsakynnum A&M Record Studios til að hljóðrita lag sem hann hafði samið ásamt tveimur félögum sínum úr sveit sem bar nafn hans, Jimmy Bain og Vivian Campbell, og hlaut hópurinn nafnið Hear ‘N Aid. Þetta var áður en nokkur maður hafði heyrt um Guns N’ Roses enda var það band rétt stofnað. Fagurkerar og aðrir á rófinu veita því ugglaust athygli að úrfellingarkomman er ekki á sama stað í nöfnum þessara tveggja sveita. Ef þið haldið að ég sé núna að fara að upplýsa ykkur um hverju það sætir þá er það misskilningur. Ég hef ekki grænan grun um það.

Stars er óður til hungraðs heims og hefst á strengjaglamri Campbells og Bains og angurværum orðum úr munni Ronnies James Dios sjálfs: Who cries for the children? I do …

Síðan taka við söngnum kappar á borð við Dave Meniketti úr Y&T, Eric Bloom úr Blue Öyster Cult, Don Dokken úr Dokken, Kevin DuBrow úr Quiet Riot, Rob Halford úr Judas Priest, Paul Shortino úr Rough Cut og Geoff Tate úr Queensrÿche. Allt voru þetta vinsæl bönd á þessum tíma en flestum gleymd í dag, nema auðvitað Judas Priest og kannski Queensrÿche hjá þeim allra hörðustu.

Seinna í laginu má heyra línur á borð við þessar:

We can be strong, we are fire and stone
And we all want to touch a rainbow
But singers and songs will never change it alone
We are calling you, calling you

Dio hlóð, sem kunnugt er, sjaldan í sönglagatexta án þess að blessaður regnboginn kæmi við sögu.

Í bakröddum mátti meðal annars finna skáldaðar persónur, Derek Smalls og David St. Hubbins úr hinu ódauðlega en marglogna bandi Spinal Tap. Samfélagsrýnirinn umdeildi Ted Nugent raulaði einnig með. Donald fóstri hans Trump átti ekki heimangengt.

Málmlag án sólós á þessum tíma var eins og hangiket án uppstúfs og fingragaldrar voru framdir af mönnum á borð við Craig Goldie (Giuffria), Eddie Ojeda (Twister Sister), Neal Schon (Journey), Yngwie Malmsteen, Carlos Cavazo (Quiet Riot) og svo auðvitað Vivian Campbell. Á ryþmagítarnum voru fóstbræðurnir úr Iron Maiden, Dave Murray og Adrian Smith.

Hvar voru málmynjurnar?

Stars var ruddalega karllægt lag. Sir Bob Geldof og Midge Ure höfðu alla vega rænu á að bjalla í Bananarama og stilla þeim stöllum upp fremst í myndbandinu við Do They Know It's Christmas en þeir málmbræður voru með öllu kvenmannslausir í kulda og trekki. Samt voru alveg til málsmetandi málmynjur á þessum tíma, svo sem Lita Ford og Doro Pesch. Var virkilega enginn með númerið hjá þeim? Alveg hefði mátt mynstra rokkstelpur á borð við Joan Jett og Pat Benatar í þetta líka.

Mikið var í verkefnið lagt. Heil plata gerð til að styðja við Stars með böndum á borð við Kiss, Rush, Motörhead og Scorpions. The Jimi Hendrix Experience reis meira að segja upp frá dauðum. Þá var tekið upp myndband, þar sem saga verkefnisins var rakin. Þegar allur pakkinn var klár gengu Dio og félagar aftur á móti á vegg. Útgáfufyrirtæki sumra listamannanna voru með múður og jafnvel dólg. Eftir japl, jaml og fuður fengust öll leyfi loksins heilu ári síðar og Stars kom út 26. maí 1986.

Þá var mesti vindurinn úr verkefninu og ekki eins auðvelt að sigla á öldunni sem Band Aid og USA for Africa höfðu búið til. Stars komst hæst í 26. sæti breska vinsældalistans og MTV sýndi myndbandinu lítinn áhuga. Eins stórkostlegt og það nú er og innilega barn síns tíma. Hafið þið ekki séð það hvet ég ykkur til að kasta öllu frá ykkur nú þegar! Meira að segja Sunnudagsblaðinu. Einn af mörgum hápunktum er þegar menn leggja lófann yfir stu-ið í Studio á vegg í húsinu og fá í staðinn dio. Hlírabolurinn hans Robs Halfords er líka fyrir lengra komna.

Ef til vill geigaði skotið 1986 en í seinni tíð hefur Stars fest sig rækilega í sessi í málmsögunni. Þannig hafði sjónvarpsstöðin VH1 Hear 'N Aid á toppnum þegar það valdi 100 bestu málmstundir sögunnar árið 2004.

Ég veit ekki alveg með það.

Skiljið egóið eftir við dyrnar!

Blackie Lawless, forsprakki W.A.S.P. og góðkunningi Lesbókar, var meðal þeirra málmlistamanna sem tóku þátt í gerð Stars; söng bakraddir. Hann rifjaði verkefnið upp í hlaðvarpsþættinum Paltrocast With Darren Paltrowitz á dögunum. Að sögn Blackies hafði upptökustjórinn, Ken Kragen, hengt upp skilti fyrir utan hljóðverið, þar sem We are the World var líka tekið upp, með áletruninni: „Skiljið egóið eftir við dyrnar!“

„Það er svo undarlegt,“ sagði Blackie, „skiltið var óþarft. Ef einhver var með egó þarna inni, og maður þekkti ansi marga, þá sást það ekki. Maður auðmýkist nefnilega allur þegar maður er innan um svona mikla hæfileika.“

Og hafi menn verið stífir í byrjun þá mýktust þeir fljótt upp – enda var barinn opinn.