Rúmlega 1,4 milljónir ferðamanna sóttu Ísland heim á fyrstu 10 mánuðum ársins, sem er um 16% fækkun frá sama tímabili 2019, samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu. Fyrstu mánuðir ársins voru enn rólegri en árið fyrir faraldur en bættist svo í þegar leið á árið. Þrátt fyrir þessa fækkun ferðafólks er velta í ferðaþjónustugreinum 3% hærri en fyrir sama tímabil á árinu 2019. Sé veltan hins vegar leiðrétt að teknu tilliti til gengis gjaldmiðla og verðlagsþróunar má greina ríflega 11% raunsamdrátt. Meðalkortavelta hvers ferðamanns var um 150 þúsund krónur, sem er um 6% aukning. Meðaldvalartími hefur jafnframt aukist og er nú tæpir átta dagar en var tæpir sjö árið 2019.