Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt kaup Mowi á meirihluta hlutafjár í Arctic Fish Holding, norsku móðurfélagi íslenska fiskeldisfyrirtækisins Arctic Fish. Kemur þetta fram í tilkynningu seljandans, SalMar, til norsku kauphallarinnar. Samkeppniseftirlitið íslenska hafði áður ákveðið að láta af afskiptum af málinu.
Vegna samruna fyrirtækja í norsku fiskeldi stefndi í það í haust að Arctic Fish og Arnarlax yrðu í eigu sama norska fiskeldisrisans, SalMar. Vegna andstöðu framkvæmdastjórnar ESB sem hafði áhyggjur af áhrifum hugsanlegs samruna Arctic og Arnarlax gerði SalMar samkomulag við framkvæmdastjórnina um að selja frá sér eignarhlutann í Arctic Fish. Samið var við Mowi, sem er stærsta fiskeldisfyrirtæki heims, og nú geta þessi viðskipti gengið í gegn.
Eignarhlutur Mowi í Arctic Fish er 51,28%. Síldarvinnslan er næststærsti hluthafinn, með rúmlega 34% hlut. helgi@mbl.is