Kýr Kostnaður við rekstur kúabúa hefur aukist töluvert frá því í haust.
Kýr Kostnaður við rekstur kúabúa hefur aukist töluvert frá því í haust. — Morgunblaðið/Eggert
Mjólk hækkar í verði um áramótin. Búast má við að útsöluverð á venjulegri mjólk í eins lítra fernu hækki um sjö krónur. Ástæðan er aukinn kostnaður, ekki síst við vinnslu mjólkurinnar og dreifingu, í kjölfar nýgerðra kjarasamninga

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Mjólk hækkar í verði um áramótin. Búast má við að útsöluverð á venjulegri mjólk í eins lítra fernu hækki um sjö krónur. Ástæðan er aukinn kostnaður, ekki síst við vinnslu mjólkurinnar og dreifingu, í kjölfar nýgerðra kjarasamninga. Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar í verðlagsnefnd búvara vöruðu við því að launahækkunum væri velt beint út í verðlag og greiddi fulltrúi BSRB atkvæði á móti hækkun heildsöluverðsins.

Verðlagsnefnd búvara ákvað ný­lega á fundi 2,38% hækkun lágmarksverðs á mjólk til bænda frá 1. desember. Jafnframt var ákveðið að heildsöluverð mjólkur og mjólkurvara, sem nefndin verðleggur, hækkaði almennt um 3,5% um áramót. Samkvæmt tilkynningu frá verðlagsnefndinni er verðhækkunin komin til vegna kostnaðarhækkana við framleiðslu og vinnslu mjólkur frá síðustu verðákvörðun sem miðaðist við 1. september. Bent er á að gjaldaliðir í verðlagsgrundvelli kúabús hafi hækkað um 2,38% og vinnslu- og dreifingarkostnaður afurðastöðva um 5,06% að meðtöldum áhrifum kjarasamninga.

Verð á mjólk, án viðbættra vítamína, í eins lítra fernum verður 171 króna í heildsölu frá og með 1. janúar. Álagning í smásölu er frjáls og verðið því nokkuð mismunandi á milli verslana. Búast má við að verslun sem nú selur lítrann á 190 krónur hækki verðið upp í 196-197 krónur, ef hlutfallsleg álagning helst. Verslun sem selur þessa sömu vöru á 200 krónur gæti hækkað fernuna um 7 kr., upp í 207 krónur.

Á fundi verðlagsnefndarinnar, þar sem hækkunin var ákveðin, kom fram hjá fulltrúa mjólkuriðnaðarins að eftir hagræðingu undanfarinna ára og miklar kostnaðarhækkanir sé lítið svigrúm í rekstrarumhverfi iðnaðarins. Fulltrúi BSRB lagði fram minnisblað þar sem segir að í ljósi áherslu kjarasamninga, um að verja kaupmátt og skapa forsendur fyrir stöðugleika, sé varhugavert að kostnaðarauka vegna þeirra sé velt út í verðlag.

Ágreiningur í nefndinni

Fulltrúar BSRB og ASÍ sátu hjá við ákvörðun um að hækka verð til bænda og fulltrúi BSRB greiddi atkvæði á móti hækkun vinnslu- og dreifingarkostnaðar. Fulltrúi ASÍ sagðist hafa skilning á forsendum sem lægju að baki hækkuninni, að því er fram kemur í fundargerð, en taldi ekki forsvaranlegt að kjarasamningsbundnum launahækkunum yrði velt beint út í verðlag enda væri ein meginforsenda kjarasamninganna að skapa meiri stöðugleika í hagkerfinu með lækkandi verðbólgu og lækkun vaxta.

Höf.: Helgi Bjarnason