Bækur
Ingibjörg Iða Auðunardóttir
Skrímslin vakna eftir Evu Rún Þorgeirsdóttur er fantasía fyrir börn og ungmenni sem gerist í framtíðinni, eða árið 2222, en ýmsar breytingar hafa orðið á samfélaginu á þeim tíma sökum hamfarahlýnunar. Lítið er eftir af náttúrunni eins og við þekkjum hana í dag, nema á afmörkuðum svæðum þar sem hún er ræktuð sérstaklega. Nánast engin dýr lifa villt heldur aðeins í dýragörðum mannanna og ekkert nýtt er framleitt, allt er endurunnið. Kötu, aðalsöguhetjunni, finnst gaman að lesa sögubækur og frásagnir um hvernig lífið var í fortíðinni, okkar nútíð, þar sem náttúran þreifst og hlutum var hent og nýtt búið til ef eitthvað vantaði. Árið 2022 er sjórinn aftur á móti orðinn of mengaður af plasti til að hægt sé að synda í honum og ál, sem eitt sinn var bara í dósum sem við hentum í ruslið, er orðinn einn verðmætasti málmur jarðar. Í upphafi sögunnar býr Kata hjá hinum illa Grími, en móðir hennar dó við barnsburð og faðir hennar hvarf við undarlegar aðstæður þegar hún var fimm ára. Grímur, sem jafnframt er forstjóri hinna svokölluðu Hauga þar sem allt er endurunnið og mikið er af verðmætum málmum, er hræðilegur fósturpabbi og tók Kötu raunar bara að sér í þeim tilgangi að líta betur út í samfélaginu. Kata þráir því ekkert heitar en að flýja að heiman – nokkuð sem hún hefur raunar verið að undirbúa í lengri tíma. En þegar Kata rekst á undarlega litla veru í Haugunum breytist allt.
Skrímslin vakna er stórgóð barnabók. Þegar um er að ræða ónáttúrulega frásögn, eða fantasíur líkt og í þessari bók, þarf söguheimurinn að vera sannfærandi svo að lesandinn samþykki hann. Ekki verður annað sagt en Evu Rún takist það ætlunarverk sitt. En þessi fantasíuheimur er raunar ekki svo fjarlægur okkur og í raun hægt að tala um Skrímslin vakna sem dystópískt verk – frásögn af heimi framtíðinnar sem er ekki ákjósanlegur. Sagan er kannski bara lýsing á því hvernig jörðin okkar verður ef við förum ekki að grípa til stórtækra ráða til að sporna við hlýnuninni sem þegar hefur átt sér stað, en í henni er dregin upp mynd af heimi þar sem ríkir gríðarlegt ójafnrétti og vesæld. Þessu stóra viðfangsefni, hamfarahlýnun, eru gerð listileg skil í umbúðum fantasíunnar og getur því orkað líkt og gluggi fyrir börn til að sjá inn í framtíðina sem bíður þeirra, barna þeirra, og jafnvel barnabarna. Því miður eru teikningarnar í bókinni og umbrotið að mati gagnrýnanda ekki nægilega skemmtilegar til að halda í við áhugaverðan söguþráðinn. Teikningarnar eru frekar dimmar og drungalegar, og skila sér ekki sem merkingarauki við sterka frásögnina af þessari vonlausu framtíð. Það virkar meira á gagnrýnanda eins og hönnuðir myndanna og kápunnar hafi tekið höndum saman um að nota bara gráa og jarðartóna, í stað þess að huga betur að smáatriðum í teikningum og litavali. Þetta er að mati gagnrýnanda miður þar sem umbrot bóka, teikningarnar og litirnir eru oft einmitt það sem nær athygli barna og ungmenna í upphafi. Letrið er þó í fínni stærð og kaflaskiptingin góð fyrir unga lesendur.
Kápur hjá Bókabeitunni eru oft spennandi og litríkar þó að þessi virki ekki sem skyldi en þeim ber að hrósa fyrir að hafa verið mjög öflug í útgáfu barnabóka hérlendis. En söguþráður bókarinnar Skrímslin vakna ætti ekki að valda neinum vonbrigðum, svo mikið er víst.