Landsliðsþjálfari Arnar Þór Viðarsson tók við þjálfun íslenska karlalandsliðsins í desember árið 2020 þegar Svíinn Erik Hamrén hætti með liðið.
Landsliðsþjálfari Arnar Þór Viðarsson tók við þjálfun íslenska karlalandsliðsins í desember árið 2020 þegar Svíinn Erik Hamrén hætti með liðið. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það hefur gengið á ýmsu hjá íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu síðan Arnar Þór Viðarsson tók við þjálfun liðsins í desember árið 2020. Á árinu sem er að líða lék liðið 14 leiki; tveir þeirra unnust, átta enduðu í jafntefli og fjórir þeirra töpuðust

Fótbolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Það hefur gengið á ýmsu hjá íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu síðan Arnar Þór Viðarsson tók við þjálfun liðsins í desember árið 2020.

Á árinu sem er að líða lék liðið 14 leiki; tveir þeirra unnust, átta enduðu í jafntefli og fjórir þeirra töpuðust. Reyndar unnust tveir leikjanna, sem enduðu sem jafntefli, eftir vítaspyrnukeppni gegn Litháen og Lettlandi í Eystrasaltsbikarnum. Liðið gerði hins vegar fjögur jafntefli í B-deild Þjóðadeildarinnar, gegn Albaníu og Ísrael, og það voru þeir leikir sem skiptu mestu máli á árinu.

„Heilt yfir þá er ég og við sem störfum í kringum liðið ánægð með árið 2022,“ sagði Arnar Þór í samtali við Morgunblaðið.

„Í lok árs 2021 misstum við yfir 700 A-landsleiki úr hópnum af hinum ýmsu aðstæðum. Það tekur alltaf tíma að byggja upp nýtt lið og fyrst þarf að finna ákveðinn grunn. Með góðum grunni er svo hægt að byggja upp nýtt lið og við höfum talað um það, alveg frá síðasta ári, að við séum að vinna í því jafnt og þétt. Það hafa hins vegar ekki bara orðið breytingar á leikmannahópnum því það hafa líka orðið miklar breytingar á teyminu sem starfar í kringum liðið. Þegar ég horfi til loka árs 2021 og hvar ég vildi vera með liðið í lok ársins 2022 þá held ég að við getum verið nokkuð sáttir.

Krafan er auðvitað alltaf sú að við vinnum alla þá leiki sem við spilum en við áttum góða möguleika á því að enda í efsta sæti okkar riðils í Þjóðadeildinni og ef það hefði tekist þá værum við að tala um frábært ár núna. Við gerðum mörg jafntefli á árinu og núna þurfum við að læra að breyta þessum jafnteflum í sigra. Það tekur um það bil 10 ár fyrir hvern leikmann að safna 70 landsleikjum og þeir sem kunna að reikna og skilja fótbolta gera sér grein fyrir því að verkefnið hefur verið ansi stórt. Þess vegna er ég stoltur yfir þeim stað sem liðið er komið á,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

Snýst um reynslu

En hvað þarf liðið að gera til þess að breyta þessum jafnteflum í sigra?

„Þetta snýst að stóru leyti um reynslu. Gegn Venesúela tókst okkur að snúa jafntefli upp í sigur á lokamínútunum og það skipti máli þó um vináttulandsleik hafi verið að ræða. Svipað var uppi á teningnum gegn Albaníu í Þjóðadeildinni þegar við snérum tapi upp í jafntefli, einum manni færri, á síðustu mínútunum. Þetta var mjög farsæl reynsla sem leikmenn öðluðust í þessum leikjum sem dæmi. Það skiptir okkur gríðarlega miklu máli að vera með leikmenn í hópnum sem hafa spilað yfir 50 landsleiki í bland við yngri leikmenn.

Við tókum þá ákvörðun í lok síðasta árs að velja leikmenn í liðið sem gætu skarað fram úr með landsliðinu til lengri tíma litið. Þessir leikmenn þurfa 15-20 landsleiki áður en þeir geta farið að ná í góð úrslit fyrir okkur. Við hefðum getað valið leikmenn sem eru orðnir 27-28 ára og hafa verið viðloðandi landsliðið undanfarin ár, en kannski í aukahlutverki. Okkur fannst það ekki vera rétta leiðin, til langs tíma litið í það minnsta, og því þurftum við stundum að bíta í það súra epli að úrslitin á árinu voru ekki alltaf okkur í hag.“

Verða lykilmenn landsliðsins

Margir ungir leikmenn fengu stórt hlutverk í landsliðinu á árinu og Arnar Þór er ánægður með þá vegferð sem þeir eru á.

„Við erum með marga unga stráka, sem eru fæddir á árinu 2000 eða jafnvel seinna, sem hafa öðlast mjög dýrmæta reynslu í bláa búningnum. Leikmenn eins og Ísak Bergmann, Hákon Arnar, Þórir Jóhann, Andri Lucas, Mikael Egill og markverðirnir okkar til dæmis. Þetta eru allt leikmenn sem ég reikna með að verði algjörir lykilmenn í landsliðinu eftir nokkur ár.

Við verðum hins vegar að fara varlega með þá og við megum ekki setja þá pressu á þá núna að þeir þurfi að draga vagninn fyrir landsliðið, það er algjörlega óraunhæft að mínu mati. Þessir leikmenn þurfa eldri og reynslumeiri leikmenn sem þeir geta stutt sig við. Þess vegna horfi ég sáttur til baka yfir árið því við fengum marga reynslumikla leikmenn inn á hópinn á nýjan leik í ár og í raun alla þá leikmenn sem okkur stóðu til boða og ég fagna því.“

Fá öðruvísi hlutverk

Alfreð Finnbogason, Aron Einar Gunnarsson, Jóhann Berg Guðmundsson og Sverrir Ingi Ingason snéru allir aftur í landsliðið á síðasta ári eftir langa fjarveru.

„Það var frábært að fá þessa reynslubolta aftur inn í liðið og þeir hafa margir öðlast nýtt líf með sínum félagsliðum eins og til dæmis Jóhann Berg. Hann er allt annar leikmaður í dag en hann hefur verið síðustu ár. Aron Einar er að spila sem miðvörður í Katar og við getum því notað hann í tvær stöður í landsliðinu í dag. Sverrir Ingi er að spila í hæsta gæðaflokki í Grikklandi og í ofanálag er hann að spila hverja einustu mínútu líka. Það tók smá tíma fyrir okkur að finna bestu stöðuna hans Guðlaugs Victors innan hópsins en hann hefur blómstrað sem hægri bakvörður í landsliðinu og verið algjörlega stórkostlegur.

Að fá Alfreð inn var líka frábært og þegar horft er á tölfræðina hans á æfingum og hlaupatölur til dæmis þá sér maður mjög glögglega af hverju hann var að spila í efstu deild Þýskalands öll þessi ár. Birkir Bjarna hefur svo verið frábær á meðan við vorum að róa í gegnum þennan ólgusjó og stutt vel við bakið á ungu strákunum. Vissulega eru þeir orðnir eldri en á EM í Frakklandi og HM í Rússlandi en á sama tíma þá er jafnvel nóg fyrir okkur að fá jafnvel 60 mínútur frá þeim í hverjum leik. Hlutverkið breytist því eftir því sem árin líða. Þessir eldri leikmenn fá líka ákveðna orku við að vera í kringum þessa ungu leikmenn og það er áhugavert að sjá hvernig sumir þeirra breytast aftur í hvolpa þegar þeir koma til móts við landsliðið, á jákvæðan hátt.“

Lifir og lærir

Þjálfarinn viðurkennir að öll þau kynferðis- og ofbeldismál sem upp komu í kringum karlalandsliðið á síðasti ári hafi tekið á hann og Knattspyrnusambandið í heild sinni.

„Það er ekkert launungarmál að þetta var hvorki einfalt, skemmtilegt né auðvelt á sínum tíma. Ég fékk öll þessi mál í fangið en það sem situr eftir er allur lærdómurinn og reynslan sem ég sjálfur öðlaðist sem þjálfari og manneskja auðvitað. Það kom tímapunktur þar sem ég, Ómar Smárason deildarstjóri samskiptadeildar og Sigurður Sveinn Þórðarson liðstjóri karlalandsliðsins vorum einir eftir og allir aðrir farnir. Stjórnin var farin, formaðurinn farinn og sambandið var svo gott sem hauslaust.

Ég get hlegið að þessu augnabliki núna, þar sem ég sat einn með Ómari og Sigga og velti hlutunum fyrir mér, en ég gerði það ekki þá. Við reyndum að gera eins gott úr þessum aðstæðum og við gátum en við gerðum líka okkar mistök. Maður lifir hins vegar og lærir í þessum heimi og nú þegar það er smá lognmolla í kringum okkur get ég sagt að þetta var góður skóli þó ég væri ekki til í að gera þetta aftur.“

Pressan alltaf til staðar

Í sumar bárust fréttir af því að Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, hefði rætt við Heimi Hallgrímsson um að taka við þjálfun karlalandsliðsins.

„Þetta fór ekki í taugarnar á mér, ekki þannig. Svona er bara fótboltaheimurinn og pressan er og verður alltaf til staðar. Ég var atvinnumaður í 16 ár og hefur verið þjálfari í 8 ár þannig að ég tel mig þekkja fótboltaheiminn ágætlega. Það fylgja því ákveðin forréttindi líka að vera í starfi þar sem pressan er til staðar, því þá veistu fyrir víst að þú ert í starfi í háum gæðaflokki. Ég geri bara þær kröfur til sjálfs mín að ég nái árangri og ég hef aldrei þekkt neitt annað, hvorki sem leikmaður né þjálfari.

Svo framarlega sem mínar skoðanir, og Vöndu, eru byggðar á þekkingu en ekki tilfinningum þá veit ég að hún er að vinna sína vinnu og ég mína. Ég kunni líka að meta það að hún var opin við mig með þessar viðræður sínar við Heimi. Þetta mál er einfaldlega búið og það er í raun ekkert meira um það að segja. Á sama tíma græði ég lítið á því að pirra mig á svona hlutum enda er þetta ekki neitt sem ég get stjórnað. Þetta er ekki einsdæmi hjá KSÍ, ég þekki marga þjálfara sem hafa unnið leik á þriðjudegi og svo verið reknir á miðvikudegi.“

Lokar aldrei dyrunum

Albert Guðmundsson hefur ekki verið í náðinni hjá þjálfaranum að undanförnu og var ákveðið fjaðrafok í kringum það þegar hann var ekki valinn í hópinn fyrir landsleikjagluggann í september.

„Framtíð hans með liðinu er bara opin eins og ég hef áður sagt. Ég ætlast til ákveðinna hluta hjá mínum leikmönnum og reglurnar hjá mér eru ekki margar. Ég hef sjálfur verið leikmaður og ég sé mjög mikið með mínum tveimur augum ef svo má segja. Þegar allt kemur til alls snýst þetta fyrst og fremst um hegðun og hugarfar. Albert er gríðarlega hæfileikaríkur leikmaður og hann er einn sá hæfileikaríkasti sem hefur leikið með landsliðinu undir minni stjórn en hann verður að vera í þessu 100%.

Ég hef oft tekið dæmi með Gylfa Þór Sigurðsson sem er klárlega einn besti leikmaður sem hefur spilað fyrir landsliðið. Hans hugarfar var alltaf upp á 10, bæði innan sem utan vallar. Hann lagði einna mest á sig í öllum leikjum og líka á æfingum liðsins. Ég hef rætt þessa hluti opinskátt við Albert og hann veit hvar minn hugur liggur. Um leið og hann lagar ákveðna hluti þá eru dyrnar alltaf opnar hjá mér. Ég mun aldrei loka neinum dyrum á leikmenn enda er það vinnuregla hjá mér að láta ekki stjórnast af tilfinningum. Ég mun halda áfram að taka mínar ákvarðanir út frá þekkingu fyrst og fremst.“

Neikvæðnin háværust

Arnar Þór hefur fengið sinn skerf af gagnrýni síðan hann tók við landsliðinu.

„Ég hef ekkert á móti gagnrýni ef það er einhver þekking á bak við hana. Ef þú ætlar að gagnrýna val mitt á hópnum, liðinu eða taktíkinni sem ég vil spila þá skal ég glaður hlusta ef gagnrýnin er málefnaleg. Því miður er það þannig í dag, í samfélaginu sem við búum í, að gagnrýnin er oft byggð á tilfinningum eða einhverju öðru undirliggjandi sem býr að baki þar sem að þú ert að reyna að koma einhverjum öðrum að til dæmis. Þeirri gagnrýni get ég ekki tekið alvarlega. Á sama tíma eru það oftast þessar skoðanir sem verða hvað háværastar og þeir dreifa sér alla jafna út í samfélagið. Staðan er einfaldlega sú að það er ekkert gaman að því að smella á fréttir sem eru með jákvæða fyrirsögn og neikvæð fyrirsögn selur oft á tíðum miklu betur.

Ég hef reynt að taka þessu ekki persónulega en það er ekki alltaf auðvelt. Þú þarft að grafa djúpt til að verja þig fyrir svona gagnrýni og stundum þarf maður að moka sig upp úr ansi stórri holu þegar gagnrýnin er hvað mest. Oft á tíðum er gagnrýnin líka bara ósanngjörn, eins og til dæmis þegar við unnum San Marínó. Við gáfum það út fyrir þann leik að við myndum gefa ungum leikmönnum tækifæri og við gerðum ellefu breytingar á byrjunarliðinu. Þegar við komum heim þá var þetta eins og við hefðum farið í burtu í þrjár vikur, spilað sjö leiki við San Marínó og tapað þeim öllum, sem mér fannst mjög ósanngjarnt.“

Allt undir á næsta ári

Fram undan er svo undankeppni EM 2024 sem fram fer í Þýskalandi en öll undankeppnin verður leikin á næsta ári og dróst Ísland í J-riðil ásamt Bosníu, Liechtenstein, Lúxemborg, Portúgal og Slóvakíu.

„Mér líst mjög vel á þennan riðil og ef ég hefði fengið að velja eitt lið úr styrkleikaflokki tvö þá hefði ég valið Bosníu. Eins og þetta horfir við mér þá verða það Bosnía, Slóvakía og svo Ísland sem berjast um þetta annað sæti riðilsins. Lúxemborg er líka með lið sem hefur bætt sig mikið en ég er ánægður með þennan drátt. Liðin munu kroppa stig hvert af öðru og það má ekki gleymast að töpuð stig hér eða þar eru alls enginn dauðadómur. Þetta verður mikil barátta alveg fram í nóvember og leikjaplanið í mars verður erfitt þegar við mætum Bosníu á útivelli. Á sama tíma förum við í þann glugga með breitt bak og höfum fulla trú á okkur.

Ég er með samning út árið 2023 og það er eðlilegt að horft verði til árangurs liðsins í undankeppni EM, þegar að við setjumst niður að samningnum liðnum. Liðið tók framförum á þessu ári og markmiðið er að halda áfram að taka skref fram á við. Ég finn það á fjölmiðlum að við tókum framförum á árinu sem er að líða, einfaldlega vegna þess að það hefur verið ákveðið logn í umræðunni í kringum karlalandsliðið. Þeir sem eru neikvæðir og vilja vera neikvæðir eru að bíða eftir undankeppninni og það er bara eðlilegt að mitt starf verði dæmt út frá því hvernig okkur gengur í henni,“ bætti Arnar Þór við.

Höf.: Bjarni Helgason