Átök Unnur Ösp Stefánsdóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir og Benedikt Erlingsson í hlutverkum sínum í Ellen B.
Átök Unnur Ösp Stefánsdóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir og Benedikt Erlingsson í hlutverkum sínum í Ellen B. — Ljósmynd/Jorri
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Marius er bæði einn besti vinur minn og mikilvægasti samstarfs­félagi þegar kemur að sviðsvinnu,“ segir Benedict Andrews sem leikstýrir Ellen B. eftir þýska leikskáldið Marius von Mayenburg sem Þjóðleikhúsið frumsýnir á Stóra sviðinu annan í jólum

Viðtal

Silja Björk Huldudóttir

silja @mbl.is

„Marius er bæði einn besti vinur minn og mikilvægasti samstarfs­félagi þegar kemur að sviðsvinnu,“ segir Benedict Andrews sem leikstýrir Ellen B. eftir þýska leikskáldið Marius von Mayenburg sem Þjóðleikhúsið frumsýnir á Stóra sviðinu annan í jólum. Um er að ræða fyrsta verkið í nýjum þríleik sem verður heimsfrumsýndur hérlendis. Andrews leikstýrir einnig öðru verki þríleiksins, Ex, sem frumsýnt er 28. janúar, en höfundurinn leikstýrir sjálfur í haust þriðja verkinu, Egal.

Mayenburg starfaði lengi sem dramatúrg við Schaubühne-leikhúsið í Berlín en hefur líka unnið sem leikstjóri og þýðandi. Að sögn Andrews eru rúm 20 ár síðan þeir Mayenburg kynntust þegar sá ­síðarnefndi var á ferðalagi um Ástralíu þar sem Andrews er fæddur og uppalinn og hóf leikstjórnarferil sinn. „Í raun má segja að hann beri ábyrgð á því að ég fór líka að leikstýra í evrópskum leikhúsum,“ segir Andrews og rifjar upp að í upphafi ferils síns hafi hann verið eins og Konstantín í Mávinum eftir Tsjekhov.

Fer alltaf inn að kviku

„Ég var að leita að nýjum leikhúsformum og óhræddur við að gera tilraunir samtímis því sem ég hafði augun opin fyrir áhugaverðum leikskáldum sem gætu fangað samtímann í textum sínum,“ segir Andrews og bendir á að slíkt leikskáld hafi hann fundið í Mayenburg þegar hann las leikrit hans Feuergesicht. „Mér leið eins og ég væri að lesa grískan harmleik sem Tarantino hefði endurskrifað. Leikritið bjó yfir einstökum krafti, var tilraunakennt í forminu þar sem knappar senur bjuggu til góða snerpu. Á sama tíma bjó hrár frumkraftur að baki textanum þar sem fjallað var um níhílíska krísu minnar kynslóðar. Ég heillaðist því umsvifalaust af Mariusi sem leikskáldi. Hann fer alltaf inn að kviku, en þó aldrei til þess eins að stuða fólk,“ segir Andrews sem leikstýrði verkinu hjá Sydney Theater Company. Í framhaldinu bauðst Andrews að leikstýra hjá Schaubühne, þar sem Mayenburg og Thomas Ostermeier höfðu tekið við stjórnartaumum. Þar leikstýrði Andrews á árunum 2004 til 2010 verkum eftir Mayenburg, Söruh Kane, David Harrower, Caryl Churchill og Tennessee Williams.

„Í tuttugu ár höfum við Marius reglulega unnið saman og átt í löngu listrænu samtali. Hann er einn af þeim manneskjum sem fá fyrstar að lesa alla nýja texta sem ég skrifa, hvort sem það eru handrit, ljóð eða bækur,“ segir Andrews og rifjar upp að þeir hafi reglulega hist á zoom eftir að heimsfaraldurinn braust út og þar hafi Mayenburg sagt sér frá nýju verkunum sem nú mynda þríleikinn sem frumsýndur verður í Þjóðleikhúsinu.

Snjall höfundur

„Á þeim tíma vissum við ekki hvort og hvenær hægt yrði að opna leikhúsin aftur svo Marius sá jafnvel fyrir sér að hægt væri að leika verkin heima í stofu. Ég las verkin jafnóðum og hann skrifaði þau,“ segir Andrews og segist umsvifalaust hafa heillast af þríleiknum þar sem sér finnist kveða við nýjan tón hjá Mayenburg.

„Tæknilega er hann einstaklega snjall höfundur, sem sést til dæmis á því valdi sem hann hefur á rytma í samtölum persóna. Verkin eiga það sameiginlegt að vera mjög fyndin á sama tíma og þau eru hrá og dularfull,“ segir Andrews og bendir á að persónur verkanna séu einstaklega spennandi og túlkun þeirra mikill línudans þar sem mikilvægt sé að skilja það eftir hjá áhorfendum að lesa í samskipti og afstöðu persóna.

Sýnd og reynd takast á

„Textinn býður áhorfendum stöðugt upp á að túlka hlutina á margvíslegan hátt, sem er spennandi. Við þurfum sífellt að velta fyrir okkur hverjum er treystandi hvenær, því það breytist í sífellu. Verkin þrjú, ekki síst Ellen B., fjalla um valdabaráttu persóna og hvaða þýðingu það hafi að gera sér ljóst að maður hafi mögulega lifað lífi í lygi. Grunnspurning verkanna, sem snýr að því hvað sé satt og hvað logið, er í ákveðnum skilningi líka grunnstef leikhússins þar sem við erum sífellt að takast á við sýnd og reynd,“ segir Andrews og tekur fram að fyrir sér sem listamanni sé mikilvægt að veita ekki nein auðveld eða skýr svör til að gefa áhorfendum tækifæri á að hugleiða efnið áfram eftir að sýningu lýkur.

„Fyrir mér á leikhúsið að vera rannsóknarstofa fyrir krísur. Í leikhúsinu getum við skoðað og greint hluti sem erfitt er að greina annars staðar. Þar gefst okkur tækifæri til að skoða og setja okkur í spor persóna sem minna á okkur sjálf en eru á sama tíma ekki eins og við. Þar gefst okkur tækifæri til að skoða eigin galla og þverstæður á öruggan hátt.“

Snýst um vinnu leikarans

Í Ellen B. hittum við fyrir Astrid og Klöru sem hafa verið saman um nokkurn tíma. Astrid er menntaskólakennari á fimmtudagsaldri og 15 árum eldri en Klara, en þær kynntust þegar Astrid var kennari Klöru. Í upphafi verks mætir Wolfram, yfirmaður Astridar, í heimsókn og kemur öllu í uppnám. Með hlutverkin fara Unnur Ösp Stefáns­dóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir og Benedikt Erlingsson, sem lék síðast á sviði fyrir um áratug. Í verkinu tekst höfundur á við spurningar um valdajafnvægi og trúnaðartraust í nánum samböndum, mörkin milli atvinnu og einkalífs, lygina og sannleikann, kynferðislega áreitni og ásakanir, hvort sem þær eru falskar eða sannar.

„Fyrstu tvö verkin minna mig um margt á kammerverkin eftir Ibsen þar sem gestur kemur inn á heimili og raskar því jafnvægi sem ríkt hefur milli persóna. Þetta eru verk sem skoða valdasamspil persóna og fá okkur til að efast um sannleiksgildi þess sem er sagt,“ segir Andrews og tekur fram að það hafi heillað sig að fá að leikstýra verkum sem snúist fyrst og fremst um vinnu leikarans.

„Þessi verk gera ótrúlega miklar kröfur til leikhópsins. Mér líður sem leikstjóra eins og boxþjálfara sem þarf að hjálpa þremur keppendum í þungavigtarflokki að keppa til sigurs með allri þeirri snerpu, úthaldi og styrk sem það krefst,“ segir Andrews og hrósar leikhópnum sínum í hástert, en með hlutverkin í Ex sem hann frumsýnir eftir mánuð fara Nína Dögg Filippusdóttir, Gísli Örn Garðarsson og Kristín Þóra Haraldsdóttir.

Takast á innan sama hrings

Nina Wetzel, sem unnið hefur náið með Mayenburg og Oster­meier við Schaubühne-leikhúsið, hannar leikmynd og búninga þríleiksins. „Leikmyndin er sú sama í öllum þremur verkum sem bindur þau saman með sjónrænum hætti. Þannig sjáum við ólíka keppendur takast á innan sama boxhringsins, ef svo mætti segja,“ segir Andrews og tekur fram að sér hafi fundist spennandi að gefa áhorfendum tækifæri til að skoða verkin sem heild og bera saman innihaldið þótt verkin þrjú muni einnig geta staðið ein og sér. „Með sama hætti og litaþríleikur Kieslowskis myndar sterka heild en einnig er hægt að skoða hverja kvikmynd sem sjálfstætt verk.“

Andrews hrósar Magnúsi Geir Þórðarsyni leikhússtjóra fyrir þá dirfsku að setja verkin þrjú upp á Stóra sviðinu. „Fámenn verk eru oftast sett upp á minni sviðum, en frábær uppfærsla leikhússins á Úlfinum í leikstjórn Unnar Aspar sýndi okkur að Stóra sviðið getur opnað algjörlega nýja möguleika fyrir slík verk. Með því að setja þríleikinn upp á Stóra sviðinu eru verkin í ákveðnum skilningi meðhöndluð líkt og þau væru klassík,“ segir Andrews og vísar þar einnig til þess að í Þjóðleikhúsinu sé löng hefð fyrir því að frumsýna klassísk verk annan í jólum. Sjálfur hefur Andrews leikstýrt tveimur verkum eftir Shakespeare á Stóra sviðinu sem voru jólasýningar, fyrst Lé konungi, sem frumsýndur var annan í jólum 2010, og síðan Macbeth, sem frumsýndur var annan í jólum 2012.

Traustið forréttindi

„Mér finnst frábært að fá tækifæri til að vinna aftur með íslenskum leikurum og ég er hér með sex framúrskarandi leikara,“ segir Andrews og tekur fram að hann efist um að hægt væri að setja verkin upp nema vera með réttu leikarana sem henti í hlutverkin. „Sú mikla nánd og vinátta sem einkennir íslenskan leikhús- og kvikmyndaheim skilar sér í miklu trausti sem hægt er að byggja á strax frá fyrstu æfingu, sem eru mikil forréttindi,“ segir Andrews og bendir á að þetta séu gæði sem ekki sé hægt að ganga að í leikhúsum erlendis.

„Ég man mjög vel eftir því þegar ég var að leikstýra Shakespeare-­verkunum tveimur hér í húsinu hversu mjög ég dáðist að þeim hæfileika íslenskra leikara að vera drepfyndin samtímis því að vera grimm, nákvæm og hrein og bein, sem er ómetanleg gáfa,“ segir Andrews og bætir við að hann sé hugfanginn af nærveru, leikgleði og hollustu leikhópanna tveggja sem hann vinni með nú um stundir.

Höf.: Silja Björk Huldudóttir