Finnst þér ekkert leiðinlegt að vera síðasti jólasveinninn sem kemur til byggða? Nei, alls ekki! Ég er aðal því ég kem á aðfangadagsmorgun og krakkarnir eru mest spenntir að fá í skóinn frá mér. Svo fæ ég líka að fara síðastur

Finnst þér ekkert leiðinlegt að vera síðasti jólasveinninn sem kemur til byggða?

Nei, alls ekki! Ég er aðal því ég kem á aðfangadagsmorgun og krakkarnir eru mest spenntir að fá í skóinn frá mér. Svo fæ ég líka að fara síðastur.

Ertu hættur að stela kertum og borða?

Ég stel alveg enn þá kertum en þau eru algjörlega óæt þessa dagana, fussumsvei! Eintóm ilmkerti sem eru nú í tísku. Ég beit einu sinni í eitt slíkt og ældi lungum og lifur. Ég prófa það ekki aftur!

Eruð þið jólasveinarnir eitthvað að linast
með árunum?

Já það má nú segja. Það má ekkert lengur! Grýla má ekki lengur borða börn og við viljum ekki lenda í fangelsi fyrir einelti eða strákapör. Við höfum nú alltaf látið kvenfólk í friði þannig það hefur ekkert breyst. Mamma leyfir okkur ekki að deita. En ég get sagt þér leyndarmál. Stekkjastaur laumaðist á Tinder í fyrra, en enginn vildi hann. Enda mættum við kannski alveg fara að baða okkur og snyrta en við nennum því bara alls ekki. Það tekur því ekki úr þessu.

Hvað eru þið eiginlega gamlir?

Alla vega tvö hundruð ára eða jafnvel þúsund ára. Ég man bara tvö hundruð ár aftur í tímann. Æskan er öll í móðu.

Hvað gerir þú svo á jóladag?

Ég er yfirleitt svo þreyttur eftir ferðalagið úr fjöllunum og vinnuna við að setja í alla þessa skó að ég sef bara allan guðslifandi daginn.

Færðu jólagjöf frá Grýlu?

Biddu fyrir þér, nei. Mamma á ekkert fyrir þrettán jólagjöfum; hún á ekki bót fyrir boruna á sér.

Hvar gistir þú þegar þú ert í bænum?

Það er hernaðarleyndarmál en ég get hvíslað því að þér að það fer vel um okkur hér á lúxushótelinu við höfnina.

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Já, nennið þið að skilja eftir smákökur og mjólk fyrir mig!

Kertasníkir er síðasti jólasveinninn sem kemur til byggða en alls ekki sá sísti.