Símon Páll Aðalsteinsson, eða Símon í Bæ, verður áttræður á jóladag, 25. desember. Hann er elstur þriggja sona Sigurbjargar Pálsdóttur og Aðalsteins Símonarsonar, sem lengst af voru garðyrkjubændur á Laufskálum í Stafholtstungum

Símon Páll Aðalsteinsson, eða Símon í Bæ, verður áttræður á jóladag, 25. desember. Hann er elstur þriggja sona Sigurbjargar Pálsdóttur og Aðalsteins Símonarsonar, sem lengst af voru garðyrkjubændur á Laufskálum í Stafholtstungum. Símon ólst þar upp en fór ungur í Borgarnes þar sem hann lærði bifvélavirkjun á BTB auk þess sem hann ók rútum um tíma fyrir Sæmund Sigmundsson. Símon giftist Þuríði Jóhannsdóttur frá Akranesi árið 1965 og á með henni fjögur börn og eru afkomendur þeirra orðnir samtals 28.

Í byrjun árs 1970 fluttist Símon með konu og þremur ungum börnum upp í Bæjarsveit þar sem hann tók að sér rekstur bíla- og búvélaverkstæðis sem fékk nafnið Vélabær. Þar starfaði Símon langt fram á 10 áratuginn sem stjórnandi og afburða viðgerðarmaður. Starfssvæði verkstæðisins var stórt og ferðaðist Símon m.a. vítt um land að gera við hinar ýmsu vélar.

Árið 1997 fluttust Símon og Þurý í Borgarnes þar sem hann varð framkvæmdastjóri Golfklúbbs Borgarness. Þar gekk hann í öll verk og var ekki síst fyrir hans dugnað og atorku að fljótlega var hafin vinna við að stækka völlinn að Hamri í 18 holur og er hann í dag einn fallegasti völlur landsins.

Um 1990 greip Símon mikill áhugi á golfi og hefur það átt stóran hluta af huga hans síðan. Hann hefur fengið allnokkrar viðurkenningar fyrir störf sín að málefnum tengdum golfi, var t.d. sæmdur silfurmerki Golfsambands Íslands á 60 ára afmæli sínu árið 2002. Þá var hann gerður að heiðursfélaga í Golfklúbbi Borgarness 2007 og árið 2009 fékk hann viðurkenningu frá Borgarbyggð fyrir mikil og góð störf að félagsmálum og uppbyggingu golfvallarins að Hamri.

Frá árinu 2008 má segja að Símon og Þurý hafi búið á Spáni, enda dvelja þau nær alltaf vetrarlangt í húsi sínu í Orihuela nærri Torrevieja, en eru á Íslandi á sumrin.