Fjórir ættliðir Frá vinstri: Hallbjörg Jónsdóttir, Hallbjörg Jónsdóttir, Guðrún Sigurðardóttir og Jenný Lind Sigurjónsdóttir.
Fjórir ættliðir Frá vinstri: Hallbjörg Jónsdóttir, Hallbjörg Jónsdóttir, Guðrún Sigurðardóttir og Jenný Lind Sigurjónsdóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Fjórir ættliðir og fjögur systkini eru í kór Hólaneskirkju á Skagaströnd. Systurnar Guðrún og Hjördís Sigurðardætur hafa verið í kór Hólaneskirkju á Skagaströnd í um 70 ár, en Gylfi og Árni Ólafur, bræður þeirra, eru einnig í kórnum. Hallbjörg Jónsdóttir, dóttir Guðrúnar og Jóns Ólafs Ívarssonar, Jenný Lind Sigurjónsdóttir, dóttir Hallbjargar og Sigurjóns Inga Ingólfssonar, og Hallbjörg Jónsdóttir yngri, barnabarnabarn Guðrúnar, dóttir Jóns Ólafs Sigurjónssonar og Hugrúnar Sifjar Hallgrímsdóttur kórstjóra, syngja jafnframt í kórnum. „Ég sagði einu sinni að þetta væri fjölskyldukórinn okkar,“ segir Guðrún.

Hugrún Sif, skólastjóri Tónlistarskóla Austur-Húnavatnssýslu, hefur stjórnað kórnum í 18 ár. „Sóknarnefndarformaðurinn stoppaði mig úti á götu og spurði hvort ég væri til í að prófa þetta, ég sló til og hef stjórnað kórnum síðan,“ segir hún. Um 30 manns eru í kórnum, sem æfir á þriðjudagskvöldum. Hann syngur í messu í Hólaneskirkju klukkan fimm í dag, aðfangadag, og í Höskuldsstaðakirkju klukkan tvö á morgun, jóladag, en auk þess sinnir kórinn Hofskirkju. „Þetta eru háin þrjú,“ segir Hugrún Sif.

Syngjandi fjölskylda

„Ég hef alltaf verið mikið fyrir söng og mér finnst ofboðslega gaman að syngja,“ segir Guðrún um áhugamálið. Hún fæddist á Ströndum, dóttir Hallbjargar Jónsdóttur og Sigurðar Guðmonssonar. „Foreldrar mínir voru mikið tónlistarfólk. Móðir mín spilaði á harmoníku og pabbi var í kórum þegar við bjuggum á Ströndum.“ Þau hafi flutt á Skagaströnd 1948 og hún byrjað þar í kirkjukórnum skömmu síðar eða rétt eftir fermingu. „Við systurnar vorum löngum saman heima og sungum og það endaði með því að við fórum í kórinn.“

Guðrún taldi tvær dætur sínar á að koma í kórinn. Þórey hætti fljótlega vegna vinnu en Hallbjörg hefur sungið í honum í aldarfjórðung. „Mér hefur alltaf þótt gaman að syngja, var lengi í leikfélaginu áður en það lagðist af og hef verið í leik- og sönghópnum á árlegu þorrablóti okkar um árabil,“ segir hún. „Mér líður vel í kirkjunni, kirkjukórinn er mjög góður félagsskapur og organistinn frábær. Ég er ekki hlutlaus því hún er tengdadóttir mín!“ Þess má geta að Jón Ólafur, sonur Hallbjargar, spilar oft á bassa eða gítar með kórnum. „Ég spila líka smávegis á gítar,“ upplýsir Hallbjörg. „Mamma átti gítar og við systurnar djöfluðumst í honum en skömmu fyrir fermingu gáfu foreldrar okkur gítar í jólagjöf og ég hef spilað síðan.“

Hallbjörg segist syngja hvað sem er og sérstaklega dægurlög. „Mér finnst mest gaman að vera í hópi þar sem fjórar raddir koma saman og heyra samhljóminn eftir að hafa æft allar raddirnar.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson