Fæðingum fækkar og frjósemi er minni. Þetta má lesa út úr starfsemistölum Landspítalans þar sem um 70% allra barnsfæðinga á Íslandi eiga sér stað. Á fæðingardeild sjúkrahússins fæddust alls 2.863 börn á fyrstu ellefu mánuðum yfirstandandi árs

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Fæðingum fækkar og frjósemi er minni. Þetta má lesa út úr starfsemistölum Landspítalans þar sem um 70% allra barnsfæðinga á Íslandi eiga sér stað. Á fæðingardeild sjúkrahússins fæddust alls 2.863 börn á fyrstu ellefu mánuðum yfirstandandi árs. Á sama tímabili í fyrra voru fæðingarnar 3.221 og 3.030 árið 2020. Fækkun fæddra barna á spítalanum í ár miðað við 2021, það er frá janúar til nóvember, er því um 11,1% og 5,6 sé horft til ársins 2020.

Í ár voru fæðingar á Landspítalanum flestar í september, 289, eða einni fleiri en var í október. Þessar tölur eru nánast á pari við hvað var í þessum sömu mánuðum í fyrra. Þá varð hins vegar nánast barnasprenging í júlí með alls 334 fæðingum. Ber þá þess að geta að níu mánuðum fyrr, það er á haustdögum 2020, voru mjög stífar samkomutakmarkanir í miðjum heimsfaraldri svo margir héldu sig heima.

Greiðslur Fæðingarorlofssjóðs hækka

Tölurnar um fjölda nýfæddra barna koma eðlilega strax fram í tölum Fæðingarorlofssjóðs. Samkvæmt upplýsingum frá Leó Erni Þorleifssyni sviðsstjóra hjá Vinnumálastofnun voru útgjöld sjóðsins árið 2020 um 16,4 milljarðar króna, 20,2 milljarðar króna í fyrra og á fyrstu ellefu mánuðum yfirstandandi árs eru útgreiðslur úr sjóðnum orðnar 22,5 milljarðar króna. Svo bætist desember við svo útgjöld ársins gætu endað í u.þ.b. 24,5 milljörðum. Í þessu sambandi minnir Leó Örn á að orlofsréttur foreldra 2019 og fyrr var níu mánuðir, 2020 var hann 10 mánuðir og frá 2021 heilt ár, eða 12 mánuðir.

„Þá hafa foreldrar nú allt að 24 mánuði til að nýta réttinn. Árið 2020 var sjóðurinn því að greiða með börnum fæddum 2018-20, árið 2021 var greitt vegna barna sem fæddust á árunum 2019-21 og árið 2022 vegna barna sem fæddust 2020-22. Á þessu tímabili hefur réttur foreldra lengst um þrjá mánuði eins og áður sagði, úr níu í 12 mánuði,“ sagði Leó Örn í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson