Bandaríska leikkonan Jane Fonda hefur á undanförnum árum komið sér upp afar góðu safni af myndlist einfara í bandarískri myndlist, svokallaðra naívista, einkum hörundsdökkra listamanna frá suðurríkjunum. Greint er frá því í The Art Newspaper að í næsta mánuði verði stór hluti safnsins seldur á uppboði. Fonda varð 85 ára á miðvikudaginn var og greindi þá frá því að eitlakrabbamein sem hún hefur glímt við væri í rénun.
Meðal verkanna sem Fonda selur eru 14 myndverk eftir bræðurna Thornton og Arthur Dial, og Thornton Dial yngri. Fonda hefur safnað verkum eftir þá í meira en tvo áratugi og er verðmæti stakra verka metið á frá 2.000 til 100.000 dali, eða allt að 14 milljónir króna. Fonda hefur sagst telja þá Dial-frændur meðal stórmeistara bandarískrar myndlistar. Hún hefur einnig safnað mörgum landslagsverkum eftir konur en meðal annarra einfara sem hún á safn myndverka eftir má nefna Mary L. Proctor, Purvis Young og Ronald Lockett en verk þeirra allra hafa notið sífellt meiri athygli á undanförnum árum.