Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Skipulagsstofnun telur að notkun ásætuvarna á sjókvíar Arctic Fish í Arnarfirði sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því skuli aðgerðin háð mati á umhverfisáhrifum.
Ásætur eru lífverur sem setjast á yfirborð eldiskvía og neta í sjó og er kostnaðarsamt að fjarlægja þær. Ásætur geta einnig stuðlað að sýkingum í fiskum. Sjóeldisfyrirtæki hafa brugðist við með því að bera efni á kvíarnar, svokallaðar ásætuvarnir. Þau efni sem nú eru best talin duga innihalda koparoxíð. Í greinargerð Arctic Fish vegna áforma um að nota ásætuvarnir á kvíum í Arnarfirði kemur fram að með því móti sé hægt að draga mjög úr þörf á þvotti á eldisnótum og draga þannig úr álagi á nætur og fisk. Einungis sé þörf á þvotti nóta í sjó með lágþrýstingi á 8 til 12 mánaða fresti þegar ásætuvarnir eru notaðar en nætur án koparoxíðhúðunar þurfi að þvo á sex vikna fresti.
Arctic Fish hefur leyfi til að nota þessar ásætuvarnir á kvíar sínar í Dýrafirði, Tálknafirði og Patreksfirði og Arnarlax hefur slíkt leyfi fyrir kvíar í Arnarfirði. Nú bregður svo við að Artctic Fish þarf að láta fara fram umhverfismat ef fyrirtækið hyggst halda til streitu áforum sínum um að nota ásætuvarnir í Arnarfirði.
Í rökum Skipulagsstofnunar fyrir því að umhverfismat skuli fara fram segir að lífríki Arnarfjarðar sé á krefjandi svæði vegna þröskuldar í mynni fjarðarins, sem dregur úr endurnýjun og blöndun sjávarins, auk þess sem það er undir álagi vegna losunar lífræns úrgangs og ítrekaðrar notkunar lúsalyfja. Segir Skipulagsstofnun að notkun kopars í sjókvíum bæti við nýjum álagsþætti á botndýralíf fjarðarins en kopar geti haft langvarandi eitrunaráhrif á lífverur og sé mjög eitraður þörungum og hryggleysingjum. Langvarandi notkun ásætuvarna sem innihalda kopar sé líkleg til að stuðla að því að ástand Arnarfjarðar versni og umhverfismarkmiðum verði ekki náð. Ekki er talið víst að vöktun komi í veg fyrir uppsöfnun kopars í firðinum og óafturkræf skaðleg áhrif á lífríki fjarðarins.