Við gleðjumst um jólin til þess að fagna fæðingu frelsarans, ljóss heimsins. Við gleðjumst einnig hvert með öðru, fjölskylda og vinir, jafnvel ókunnugt fólk, því á jólum fögnum við bæði hinu himneska og því sammannlega.

Við gleðjumst um jólin til þess að fagna fæðingu frelsarans, ljóss heimsins. Við gleðjumst einnig hvert með öðru, fjölskylda og vinir, jafnvel ókunnugt fólk, því á jólum fögnum við bæði hinu himneska og því sammannlega.

Á sinn hátt hafa jólin orðið veraldlegri á undanförnum áratugum, það er æ meiri áhersla á umgjörðina og allsnægtirnar, en hið andlega hefur látið undan síga. Kannski ekki síst á opinberum vettvangi, þar sem sumir virðast feimnir við að nefna almættið og Krist í samhengi við þessa mestu hátíð ársins.

Það er ástæðulaust, en sennilega er einnig ástæðulaust að hafa of miklar áhyggjur af því. Þegar líður að klukkan sex í kvöld kemur helgin af sjálfu sér til þeirra, sem hana vilja halda, og fleiri til. Um það þarf enga opinbera leiðbeiningu.

Fyrir Úkraínumenn eru jólin með öðru sniði en áður. Ekki aðeins vegna þess að þau eru að þessu sinni haldin í skugga innrásar Rússa í fósturjörðina, heldur vegna þess að nú halda þeir þau hátíðleg hinn 25. desember en ekki 7. janúar eins og verið hefur til þessa. Það tengist klofningi úkraínsku rétttrúnaðarkirkjunnar frá hinni rússnesku og þá var tækifærið notað til þess að taka loks upp gregoríanskt tímatal, líkt og aðrar vestrænar þjóðir og kirkjur.

Jólin í Úkraínu eru haldin við þröngan kost að þessu sinni, rafmagn vantar víða og vatnsveita víða löskuð, enda hefur Rússaher harðstjórans Vladímírs Pútíns það beinlínis að hernaðarlegu markmiði – þvert á alþjóðalög og samninga – að herða að úkraínskum almenningi með þeim hætti, til þess að draga úr baráttuþreki hans og sigurvilja.

Eins og fleira í stríðinu hafa þær ráðagerðir snúist í höndunum á Pútín, því þessar aðgerðir hafa þjappað þjóðinni enn frekar saman í viðureigninni við innrásarherinn. Og meira en það, því það hefur aukið mönnum von um að ef aðeins þeir þrauki veturinn, þá sé sigurinn vís með hækkandi sól og vori.

Þær vonir munu glæðast nú um jólin, sem er sigurhátíð ljóssins sem tekur við af myrkum tímum vetrarins, hátíð endurfæðingar og hinnar dýrmætu gjafar lífs og elsku Guðs.

Það er þó rétt að minnast þess að jólaguðspjöll Biblíunnar snúa ekki einungis að dýrðinni, fæðingu endurlausnarans og sigri ljóssins. Þau eru einnig áminning um hörku heimsins og grimmd mannsins. En um fram allt gefa þau von.

Ómögulegt er að segja fyrir um hvort vonir Úkraínumanna rætast með vorinu, sennilega er það nokkur bjartsýni. En án vonarinnar er engin von og vonirnar verður að næra til þess að þær rætist, hvort heldur er í vor, næsta vor eða síðar.

Við vitum að sól mun hækka á ný, það kallar ekki á neitt af mannsins hálfu annað en þrautseigju. Vonin ein dugar hins vegar ekki til þess að sigrast á myrkri af manna völdum. Til þess þarf aðgerðir, aðföng og aðstoð. Íslendingar hafa ekki látið sitt eftir liggja, bæði með pólitískri samstöðu og fjárstuðningi við Úkraínu, hjálpargögnum og skjólshúsi yfir flóttamenn þaðan. Þar þarf þó meira til og svo mun áfram vera meðan stríðið stendur og ugglaust lengi á eftir.

Það kemst þó ekki í hálfkvisti við framlag vina okkar í Póllandi, sem hafa stutt nágranna sína og frændur af einurð og rausn, opnað land sitt fyrir þeim, og er Pólland þó ekki með auðugri löndum Evrópu. Íslendingar þekkja örlæti Pólverja vel, því þeir réttu okkur að eigin frumkvæði hjálparhönd í bankahruninu, sem þeir hafi ævarandi þökk fyrir. Um leið eru Pólverjar stærsta þjóðarbrot á Íslandi, svo Íslendingar eiga fyrir vikið einnig frændsemi og vináttu við Úkraínumenn. Það væri verðug jólagjöf Íslendinga, vopnlausrar þjóðar, að við hjálpuðum Póllandi við að hjálpa Úkraínu með mannúð og mannkærleik að leiðarljósi.

Það væri í góðu samhengi við hinn kristna boðskap um náungakærleikann. Kærleikann, sem er langlyndur og góðviljaður meðal manna og okkur ber að auðsýna hvert öðru. Þannig höldum við gleðileg jól; jól sem eru okkur gleðileg, enn frekar ef við gerum þeim gleðilegri jól þar sem myrkrið er mest.