HM 2023
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Sautján af þeim nítján leikmönnum sem Guðmundur Þ. Guðmundsson þjálfari karlalandsliðsins í handbolta valdi í hóp sinn fyrir heimsmeistaramótið 2023 léku með liðinu á Evrópumótinu sem fram fór í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar á þessu ári.
Guðmundur tefldi fram samtals 24 leikmönnum á því móti, sem er einstakt í sinni röð vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins en hann hjó stór skörð í hóp Íslands og margra annarra liða á mótinu.
Það kom þó ekki í veg fyrir að íslenska liðið næði frábærum árangri en það stóð uppi í sjötta sætinu eftir að hafa sigrað Portúgal, Holland, Ungverjaland, Frakkland og Svartfjallaland en tapað fyrir Danmörku, Króatíu og Noregi.
Hornamennirnir Hákon Daði Styrmisson og Óðinn Þór Ríkharðsson koma inn í liðið en í þeirra stað sitja Teitur Örn Einarsson og Orri Freyr Þorkelsson eftir heima. Aðrir sem komu við sögu á EM 2022 en eru ekki í þessum HM-hópi Guðmundar eru Daníel Þór Ingason, Magnús Óli Magnússon, Vignir Stefánsson, Darri Aronsson og Þráinn Orri Jónsson. Þeir Magnús, Vignir, Darri og Þráinn voru allir kallaðir með stuttum fyrirvara til Ungverjalands eftir að keppnin hófst og tóku þátt í einum til fjórum leikjum.
Hákon Daði hefur leikið einn landsleik á þessu ári, gegn Eistlandi í undankeppni EM í haust, en Óðinn lék með í umspilsleikjunum fyrir HM gegn Austurríki í júní og skoraði þá 11 mörk í sigurleikjunum tveimur.
Ágúst Elí er til taks
Markvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson er í raun nítjándi leikmaður hópsins en Guðmundur útskýrði á fréttamannafundinum í gær að þeir Björgvin Páll Gústavsson og Viktor Gísli Hallgrímsson væru aðalmarkverðir liðsins en þar sem Viktor væri að jafna sig af meiðslum í olnboga væri Ágúst Elí til taks og myndi æfa með liðinu fram að brottför.
Hópurinn er þannig skipaður:
Markverðir:
Björgvin Páll Gústavsson, Val
Viktor Gísli Hallgrímsson, Nantes
Ágúst Elí Björgvinss., Ribe-Esbjerg
Vinstra horn:
Bjarki Már Elísson, Veszprém
Hákon D. Styrmiss., Gummersbach
Vinstri skyttur:
Aron Pálmarsson, Aalborg
Elvar Ásgeirsson, Ribe-Esbjerg
Ólafur Guðmundsson, Amicitia
Miðjumenn:
Gísli Þ. Kristjánsson, Magdeburg
Janus Daði Smárason, Kolstad
Elvar Örn Jónsson, Melsungen
Hægri skyttur:
Ómar Ingi Magnússon, Magdeburg
Viggó Kristjánsson, Leipzig
Kristján Örn Kristjánsson, Aix
Hægra horn:
Sigvaldi Björn Guðjónsson, Kolstad
Óðinn Ríkharðsson, Kadetten
Línumenn/varnarmenn:
Ýmir Örn Gíslason, RN Löwen
Arnar Freyr Arnarsson, Melsungen
Elliði S. Viðarsson, Gummersbach
Björgvin er reyndastur
Björgvin Páll Gústavsson markvörður er leikreyndasti leikmaður Íslands á mótinu en hann á 244 A-landsleiki að baki. Aron Pálmarsson hefur leikið 158 landsleiki, Ólafur Andrés Guðmundsson 137 og Bjarki Már Elísson 91.
Aron er markahæsti leikmaðurinn með 618 mörk fyrir íslenska landsliðið. Bjarni Már hefur skorað 291 mark, Ólafur Andrés 269 og Ómar Ingi Magnússon er orðinn fjórði markahæstur af núverandi landsliðsmönnum með 216 mörk í 66 landsleikjum.
Hákon Daði er reynsluminnstur með átta landsleiki og Elvar Ásgeirsson hefur spilað níu sinnum með A-landsliði Íslands, en það eru einmitt síðustu níu landsleikirnir, eftir að hann kom í fyrsta sinn inn í hópinn á EM í janúar.
Fyrsta æfingin 28. desember
Hópurinn kemur saman á fyrstu æfinguna miðvikudaginn 28. desember, allir nema þeir átta leikmenn sem spila í þýsku 1. deildinni. Þeir þurfa að leika með sínum félagsliðum milli jóla og nýárs og mæta síðan til leiks en lokaundirbúningur Guðmundar með allan hópinn hefst mánudaginn 2. janúar.
Liðið æfir þá saman í fjóra daga en fer síðan til Þýskalands og mætir þar þýska landsliðinu undir stjórn Alfreðs Gíslasonar í Bremen og Hannover dagana 7. og 8. janúar.
Þaðan verður haldið til Kristianstad í Svíþjóð og leikið gegn Portúgal, Ungverjalandi og Suður-Kóreu í D-riðli heimsmeistaramótsins dagana 12., 14. og 16. janúar.
Þrjú af þessum fjórum liðum komast áfram í milliriðil sem leikinn verður í Gautaborg og mæta þar liðunum sem enda í þremur efstu sætum C-riðils. Í honum leika Svíþjóð, Brasilía, Grænhöfðaeyjar og Úrúgvæ. Leikdagar þar eru 18., 20. og 22. janúar.
Til þess að komast í átta liða úrslitin í Stokkhólmi þarf íslenska liðið að ná öðru sæti í þessum milliriðli en þau eru leikin 25. janúar. Síðan er leikið um endanleg sæti á heimsmeistaramótinu dagana 27. og 29. janúar.