Kamerúnski knattspyrnumarkvörðurinn André Onana er hættur að leika með landsliði Kamerún. Þetta tilkynnti leikmaður á samfélagsmiðlinum Twitter í gær en Onana, sem er 26 ára gamall, er samningsbundinn Inter Mílanó á Ítalíu. Markvörðurinn var í lokahóp Kamerún á heimsmeistaramótinu í Katar og stóð á milli stanganna í fyrsta leik liðsins þegar Kamerún tapaði 0:1 gegn Sviss í G-riðli keppninnar. Eftir þann leik kom upp ósætti milli hans og landsliðsþjálfarans Rigoberts Songs sem endaði með því að Onana var sendur heim af heimsmeistaramótinu. Onana lék sinn fyrsta A-landsleik fyrir Kamerún árið 2016 en alls á hann að baki 34 landsleiki.
Knattspyrnumaðurinn Blaise Matuidi hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna, 35 ára að aldri. Þetta tilkynnti leikmaðurinn á samfélagsmiðlinum Twitter en Matuidi hefur leikið með Inter Miami í bandarísku MLS-deildinni undanfarin tvö tímabil. Hann gerði garðinn frægan með bæði París SG og Juventus en hann varð fjórum sinnum Frakklandsmeistari með Parísarliðinu og þrívegis ítalskur meistari með Juventus. Þá var hann í lykilhlutverki hjá Frökkum þegar liðið varð heimsmeistari í Rússlandi árið 2018.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur mikinn áhuga á franska miðjumanninum Adrien Rabiot en hann er samningsbundinn Juventus. Það er ítalski miðillinn Repubblica sem greinir frá þessu en Rabiot, sem er 27 ára gamall, sló í gegn með franska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í Katar. Samningur miðjumannsins við Juventus rennur út næsta sumar og mun hann ekki framlengja samning sinn í Tórínó.
Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham, segir að meiðslin hjá Richarlison, brasilíska framherjanum, séu það slæm að hann verði lengur frá keppni en bara yfir jól og áramót. Richarlison tognaði aftan í læri þegar Brasilía mætti Króatíu í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Katar en talið er að hann hafi fundið fyrir meiðslunum strax í upphitun en samt spilaði hann í rúmar 80 mínútur í leiknum. Conte sagði að meiðslin væru það alvarleg að hann yrði þrjár til fjórar vikur frá keppni til viðbótar.