Bjarni Þór Bjarnason
Bjarni Þór Bjarnason
Tökum á móti Jésúbarninu fegins huga – í kvöld, í nótt, á morgun. Guð gefi okkur öllum gleðileg jól.

Bjarni Þór

Bjarnason

Í kvöld, í nótt, á morgun, heyrist þessi kveðja á mörgum tungum um víða veröld. Gleðileg jól! Merry Christmas! Glædelig jul! Fröhliche Weihnachten! Feliz Navidad! Svona mætti lengi telja. Boðskapurinn yndislegi finnur sér leið að hjörtum manna á öllum þessum tungum. Óskin er ein og hin sama alls staðar, að þú megir eiga gleðiríka hátíð, að þú fagnir komu barnsins.

„Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn.“ (Lúkas 2:11.)

Við höfum undirbúið jólin undanfarnar vikur, á aðventunni, sem hófst 27. nóvember síðastliðinn. Þá fengum við að heyra stefin sem fylgja þessum undirbúningstíma jólanna:

„Sjá, konungurinn þinn kemur til þín.“ (Sakaría 9:9.)

Spádómarnir hafa ræst og nú er hann kominn til þín. Í kvöld, í nótt, á morgun, er gjörvöll kristnin með einum huga.

„Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.“ (Jesaja 9:6.)

Guðs kristni fagnar og gleðst. Kristnir menn eru sameinaðir í lofgjörðinni yfir komu hans. Kirkjan er hjörð hans er hann leiðir.

Það er þetta nýfædda, saklausa barn sem sameinar okkur öll. Vald þess er mikið að þessu leyti – ómálga brjóstmylkingurinn. Hver var það sem fékk fyrst að líta í augu barnsins? Hver tók á móti frelsara heimsins? Hvaða hendur fengu að njóta þeirrar blessunar? Hver var ljósmóðir þess? Var það hún sem fékk fyrst að líta í augu sonar Guðs? Við fáum aldrei svar við því. Allt er þetta hulið móðu sögunnar.

En ljósmóðirin er svo mikilvæg. Er til fegurra starfsheiti hér á jörð? Að eiga sér starfsheiti sem kennt er við tvennt það stórkostlegasta í heiminum: Ljós og móður. Ljósið sem er okkur svo óendanlega dýrmætt. Þetta frumtákn lífsins. Og móðirin sem gengur með barnið sem er líf af hennar lífi, hún gefur barninu næringu, hlýju og kærleika.

„Fæddi hún þá son sinn frumgetinn … og lagði hann í jötu.“ (Lúkas 2:7.)

María hefur örugglega horft hugfangin í augu barnsins síns, sonar Guðs. María hafði fengið vitneskju um það sem gerast mundi. Guð hafði áður birt henni það.

María var útvalin af Drottni til mikilvægs hlutverks. Hún þurfti því að axla mikla ábyrgð. Hún miklaði Drottin með veru sinni og gladdist innilega í frelsara sínum.

Ferðalagið frá Nasaret til Betlehem hefur verið Maríu erfitt. Það var örðugt fyrir konu í hennar aðstæðum að sitja á baki asna langa leið eða um 140 kílómetra. Og ekki tók betra við í borginni sem var yfirfull af fólki. Þetta var eins og í landlegu á Siglufirði á síldarárunum þegar íbúafjöldinn margfaldaðist. Það var ekki eitt einasta herbergi laust á gistiheimilum. Þannig vildi Guð hafa það. Hann kaus fjárhúsið – hið lága og lítilmótlega, þar sem auðmýktin réð ríkjum. María þurfti að fæða sjálfan Guðssoninn í heiminn innan um skepnurnar. Inn í þessar kringumstæður ól hún soninn með þrautum, líkt og allar mæður hafa gert frá upphafi og gera enn. Og gráturinn var kröftugur. Það þýddi aðeins eitt: Drengurinn var heilbrigður. Skömmu síðar hvíldi hann öruggur og sæll við brjóst móður sinnar og fyllti maga sinn í fyrsta sinn af heilnæmri og volgri mjólkinni. Hún hefur örugglega þrýst honum að sér og strokið honum ofur varlega. Þannig er móðurástin.

Tökum á móti Jesúbarninu fegins huga – í kvöld, í nótt, á morgun.

Guð gefi okkur öllum gleðileg jól.

Höfundur er sóknarprestur

í Seltjarnarneskirkju.

Höf.: Bjarni Þór Bjarnason