— Morgunblaðið/Eggert
Þorsteinn Guðmundsson, sálfræðingur og leikari, man vel eftir forláta skíðum sem hann fékk tólf ára gamall í jólagjöf. Hvað kemur þér í jólaskap? Uppáhaldsjólaplatan mín er með Nat King Cole, ég set hana yfirleitt á fóninn að minnsta kosti einu sinni á ári

Þorsteinn Guðmundsson, sálfræðingur og leikari, man vel eftir forláta skíðum sem hann fékk tólf ára gamall í jólagjöf.

Hvað kemur þér í jólaskap?

Uppáhaldsjólaplatan mín er með Nat King Cole, ég set hana yfirleitt á fóninn að minnsta kosti einu sinni á ári. Mér finnst líka gaman að kveikja í greni; það gefur lykt sem maður finnur bara í kringum jólin. Ég elska líka Sigga Guðmunds, Valdimar og svo er Helga Möller jóladrottningin fyrir mér.

Hver eru eftirminnilegustu jólin?

Ég á almennt mjög góðar minningar af jólunum. Jólaboðin hjá afa og ömmu eru minnisstæð. Þau byrjuðu með því að við fórum á jólaball í Útvarpinu á Skúlagötu, fengum nammipoka, löbbuðum svo saman í snjónum á Laufásveginn þar sem við fluttum meðal annars heimatilbúin leikrit eftir ömmu, yfirleitt um smala, lamb og álfkonu. Ein jólin steig ég á pall með Siggu frænku og Steina frænda sem Ríó tríóið og við fluttum Arídú arídúradei. Ég veit ekki hvort ég sagði þeim frá því en í huganum þá var ég Helgi Péturs, sem, án þess að móðga neinn, var svalastur.

Hver er sniðugasta jólagjöf sem þú hefur fengið?

Held að Elan-skíðin (úr slóvensku Ölpunum) sem ég fékk þegar ég var 12 ára sé jólagjöfin sem hefur glatt mig mest og hef ég þó fengið margar góðar gjafir. Þetta voru mjög flott skíði og ég einhvern veginn upplifði að ég væri svona 30% flottari að eiga þau. Ég var ekkert sérstaklega mikið á skíðum á þessum árum og braut þau á heimatilbúnu stökkbretti nokkrum dögum seinna en minningin lifir um þetta kærkomna stöðutákn.

Hvernig verða jólin í ár?

Nú höldum við fyrstu jólin okkar í Hafnarfirði sem er auðvitað hinn opinberi jólabær landsins (og reyndar líka víkingabærinn, álfabærinn og er hann ekki frægur fyrir að þar búa flestir vitleysingar landsins, samanber Hafnfirðingabrandarana?). Við erum fastheldin á hefðirnar og erum með möndlugraut með viðeigandi verðlaunum fyrir þann sem finnur möndluna, reyktan lax með aspas (sem gefur pissinu manns mjög undarlega lykt, en mér skilst að sýran í aspasinum brotni niður í brennistein í meltingunni), hamborgarhrygg með viðeigandi meðlæti og franska súkkulaðiköku í eftirrétt. Þá stendur maður yfirleitt á blístri og þarf að taka langa pásu áður en við treystum okkur í að opna pakkana. Geggjað stuð.

Þorsteinn Guðmundsson