Rétt fyrir hádegið í gær hóf 69 ára maður skotárás á menningarsetur Kúrda, veitingahús og hárgreiðslustofu á Rue d‘Enghien í París og varð þremur viðstöddum að bana auk þess að særa aðra þrjá. Skotárásin var í tíunda hverfi borgarinnar, Strasbourg-St. Denis, en á því svæði er fjöldi verslana og veitingahúsa og heimili fjölda Kúrda. Lögreglan náði að yfirbuga manninn á hárgreiðslustofunni.
Mikil skelfing greip um sig í hverfinu og yfirvöld báðu almenning að halda sig fjarri hverfinu. „Við sáum gamlan hvítan mann skjóta að menningarsetrinu áður en hann fór inn á hárgreiðslustofuna,“ sagði veitingahúsaeigandinn Romain við AFP fréttastofuna í gær. „Við vorum skelfingu lostin, og læstum okkur inni,“ sagði annar verslunareigandi í grenndinni. Vitni sögðust hafa heyrt sjö eða átta skot áður en lögregla náði að handtaka manninn.
Átök brutust út síðar um daginn milli lögreglu og mannfjölda, sem safnaðist saman á svæðinu þar sem árásin var gerð. Á myndum sást að fólk kveikti elda á götum úti og kastaði stólum og öðru lauslegu að lögreglu en óeirðalögreglumenn beittu táragasi á móti.
Nýlega sleppt úr varðhaldi
Franskir fjölmiðlar herma að árásarmaðurinn heiti William M., en vitni og lögregla sögðu í gær að hann væri hvítur, 69 ára gamall franskur lestarstjóri á eftirlaunum. Farið var með árásarmanninn á sjúkrahús, en við handtökuna varð hann fyrir skoti í andlitið.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem maðurinn kemst í kast við lögin, því hann hefur gert tvær aðrar tilraunir til manndráps, árin 2016 og 2021. Talið er er að hatur á innflytjendum hafi verið tilefni árásarinnar í gær þótt það hafi ekki verið staðfest. Innanríkisráðherra Frakklands, Gerald Darmanin, hefur ítrekað varað við hættunni á ofbeldisverkum öfgahópa í landinu. Yfirsaksóknari Parísarborgar, Laure Beccau, staðfesti við fjölmiðla í gær að árásarmanninum hefði verið hleypt úr fangelsi nýlega, aðeins rúmu ári eftir að hann réðst á tjaldborg innflytjenda í París með sverð að vopni. Ekki liggur fyrir hvers vegna maðurinn var látinn laus.