Útivist Einar segir það vonbrigði að hlutfall netverslunar úr faraldri haldi sér ekki betur til lengri tíma.
Útivist Einar segir það vonbrigði að hlutfall netverslunar úr faraldri haldi sér ekki betur til lengri tíma. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Einar Karl Birgisson framkvæmdastjóri útivistarvöruverslunarinnar Cintamani segir að netverslun sé komin óþarflega nálægt því hlutfalli af heildarveltu sem hún var í áður en faraldurinn skall á.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Einar Karl Birgisson framkvæmdastjóri útivistarvöruverslunarinnar Cintamani segir að netverslun sé komin óþarflega nálægt því hlutfalli af heildarveltu sem hún var í áður en faraldurinn skall á.

„Í faraldrinum færðist mjög mikið af verslun yfir á netið. Hjá okkur fór hlutfallið t.d. í um 40% af heildarveltu. Innst inni höfum við og aðrir á markaðnum verið að vona að þetta hlutfall myndi ná að halda sér hærra en það var fyrir faraldurinn, en því miður hefur það ekki gengið eftir,“ segir Einar Karl. Fyrir faraldur var hlutfall netverslunar af heildarveltu Cintamani um 18%. Það er nú á bilinu 15-20% að sögn Einars.

Hátt þjónustustig

Hann segir þjónustustig í netverslun á Íslandi mjög hátt miðað við nágrannalöndin. Fólk geti fengið vöruna afhenta fljótt og með ýmsum hætti, hvort sem er heimsent eða í póstbox, á pósthús eða næstu bensínstöð, svo dæmi séu tekin.

„Við náðum að besta þetta vel í faraldrinum. Það eru því pínu vonbrigði að þetta skuli ekki halda sér betur til lengri tíma. Það hefur lengi verið talað um að íslensk verslun þyrfti að komast þangað sem nágrannalöndin eru í netverslun. Þau eru mun framar en við,“ segir Einar.

Hann bætir við að þó sé engin ástæða til að kvarta. Mjög gott sé að fá sem flesta viðskiptavini í verslunina sjálfa. „Mér finnst líka áhugavert við Ísland hve margir kaupa á netinu en velja að sækja í verslunina sjálfa.“

Gott aðgengi

Ein ástæðan fyrir því að netverslun hefur róast síðan í faraldrinum segir Einar að sé mögulega sú staðreynd að aðgengi að verslunum á höfuðborgarsvæðinu sé gott. Stutt sé í allar áttir og varla nema 15-20 mínútur í allar verslanir. „Maður var samt að vona að þetta háa þjónustustig yrði til þess að netverslun héldist hærri, að fólk nýtti sér í meira mæli og til frambúðar þessi þægindi sem netversluninni fylgja.“

Einar segir að mögulega spili inn í að fólk hafi verið orðið langþreytt á samkomutakmörkunum og hafi einfaldlega þráð að hitta annað fólk. „Félagslegi þátturinn spilar því inn í.“

Áhugasamt um virknina

Spurður um kauphegðun segir Einar að algengara sé að fólk kaupi dýrari vörur í versluninni sjálfri en ódýrari á netinu. Þá sé fólk óhræddara við að kaupa gjafavörur á netinu. „Við erum að selja fatnað sem er tæknilegur og fólk er áhugasamt um virknina. Þá finnst því gott að mæta í verslunina og máta. Sölumaðurinn er ekki útdauður enn,“ segir Einar og hlær. „Það getur verið erfitt að útskýra flóknari hluti á prenti,“ bætir hann við.

GÁP að breytast

Spurður um söluna á árinu hjá Cintamani segir Einar að hún hafi verið góð. Hún hafi verið að rétta úr kútnum á síðustu mánuðum ársins og góður kippur hafi komið eftir að kuldakastið hófst í desember.

Auk netverslunarinnar er Cintamani með verslun í Austurhrauni 3 í Garðabæ. Þá keypti fyrirtækið hjólaverslun GÁP í Faxafeni fyrr á árinu.

„Við höfum jafnt og þétt verið að fjölga Cintamani-vörum þar inni. GÁP er að breytast í útivistarvöruverslun með hjól,“ segir Einar að lokum.

Netverslun

Aðgengi að verslunum á höfuðborgarsvæðinu er gott.

Fólk vill kaupa „tæknilegan“ fatnað í versluninni sjálfri.

Hlutfall netverslunar var 18% af heildarveltu fyrir faraldurinn.

Nú er hlutfall netverslunar Cintamani á bilinu 15-20%.

Höf.: Þóroddur Bjarnason