Og hann kom jafnvel þótt maður vissi leyndarmálið og vekti fram eftir öllu til að kíkja í skóinn áður en maður lagðist til svefns.

Pistill

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Jólin eru gengin í garð og því var ekki úr vegi að jólaandinn svifi yfir blaði helgarinnar. Sunnudagsblaðið fór á stúfana og fékk nokkra þekkta einstaklinga til að rifja upp jólasögur en í aðalhlutverki er hin 99 ára gamla Helena Sigtryggsdóttir sem stiklar á stóru þegar hún segir frá lífi sínu í gamla daga og jólahaldi hér fyrr á árum. Ekkert var til í búðum af matvöru né nokkru öðru og engar voru gjafirnar. Enginn jólasveinn gaf í skóinn heldur. En jólamatur var á borðum og kveikt á kertum á heimasmíðuðu jólatré og farið var í messu. Og börnin fengu rauð epli og dönsuðu í kringum jólatré.

Þegar undirrituð tók til við að skrifa viðtalið var ekki laust við að minningar bernskunnar streymdu fram. Fyrstu jólin sem ég man eftir voru líklega 1973, þá sex ára gömul, en fjölskyldan bjó þá í Bandaríkjunum. Afi sendi hangikjöt, en því fylgdi vottorð frá dýralækninum í Reykjavík, og mamma steikti laufabrauð sem búið var til frá grunni. Foreldrarnir voru víst frekar blankir en ekki tók maður eftir því. Gjafir voru undir fallega skreyttu trénu og jólasveinninn gaf í skóinn á hverju kvöldi því hann sinnti öllum íslenskum börnum; líka þeim sem bjuggu erlendis. Og hann kom jafnvel þótt maður vissi leyndarmálið og vekti fram eftir öllu til að kíkja í skóinn áður en maður lagðist til svefns. Spennan hélt svo sannarlega fyrir manni vöku. Eftirminnilegustu jólagjafir æskunnar eru dúkkur og dúkkurúm, Barbie og forláta rauður Barbie-sportbíll, Barbie-hús með rólu og auðvitað fylgdi Ken með.

Eftir heimkomuna var ellefu ára stúlka himinlifandi að fá skíði í jólagjöf og síðar á unglingsárunum voru föt í uppáhaldi; eitthvað smart úr Karnabæ eða útlöndum sló í gegn. Hljómplötur voru líka kærkomnar gjafir; Human League, Bowie, Queen, Bob Marley og Dire Straits leyndust örugglega undir trénu.

En jól æskunnar eru ekki bara eftirminnileg vegna gjafanna því best var þegar fjölskyldan kom saman og skar út laufabrauð eða bakaði hálfmána með kveikt á kertum og jólalögum. Mamma bakaði, og gerir enn, alltaf sveskjutertu sem við köllum svo (sem aðrir kalla ljósa randalínu), en engin eru jólin án hennar. Svo voru það jólaboðin þar sem dansað var í kringum tréð og sungið hástöfum „Gekk ég yfir sjó og land“. Nú er yngsta barnið í fjölskyldunni átján ára og við nýhætt að nenna að dansa. Ég bíð bara eftir barnabörnunum til að endurvekja þann sið!

Ár eftir ár höldum við í hefðirnar hvað varðar samverustundir sem virðast öllum dýrmætar. Það sýndi sig um daginn þegar unglingarnir mínir sögðu jólagjafir ekki lengur skipta mestu máli, heldur samverustundirnar með fjölskyldunni. Þeir flýttu sér þó að bæta við: „Við höfum samt ekkert á móti gjöfum!“