Loftslagshlýnun Pan Thorarensen með félögum sínum í fyield, Václav Havelka og Kryštof Krícek.
Loftslagshlýnun Pan Thorarensen með félögum sínum í fyield, Václav Havelka og Kryštof Krícek. — Ljósmynd/Lukáš Skála
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlistarmaðurinn Pan Thorarensen hefur verið virkur í raftónlist í mörg ár, þar á meðal sem einn liðsmanna ambienttríósins Stereo Hypnosis, aukinheldur sem hann hefur starfað með ýmsum listamönnum öðrum, á milli þess sem hann rekur…

Árni Matthíasson

arnim@mbl.is

Tónlistarmaðurinn Pan Thorarensen hefur verið virkur í raftónlist í mörg ár, þar á meðal sem einn liðsmanna ambienttríósins Stereo Hypnosis, aukinheldur sem hann hefur starfað með ýmsum listamönnum öðrum, á milli þess sem hann rekur tónlistarhátíðina Extreme Chill, rekur plötubúð og gefur út snældur með ýmislegum raftónlistarspuna.

Nýverið hóf Pan samstarf við tékknesku tónlistarmennina Václav Havelka og Kryštof Krícek, sem skipa sveitina Please The Trees. Samstarfið kalla þeir fyield og fyrsta breiðskífan, Future Landscapes, kom út fyrir viku.

Hljóðrannsóknaleiðangur

Aðdragandi að plötunni var rannsóknarleiðangur þeirra Pans, Havelka og Kríceks með fleiri tónlistarmönnum og umhverfishljóðateymi, sem skipað var upptökumeisturunum Söru Pinheiro frá Portúgal og Magnúsi Bergssyni. Haldið var á slóðir tékkneskra og íslenskra orkuvera til að taka upp umhverfishljóð, skrásetja hljóðaheim orkuframleiðslu landanna, hvort sem orkan kom úr iðrum jarðar, sem fallvötn eða kolaver, en einnig hljóðrituðu þau Pinheiro og Magnús umhverfishljóð í vatnsrækt, koltvísýringsniðurdælingu, jökullóni og olíulind. Hér á landi voru umhverfishljóð hljóðrituð við Fjallsárlón, Búðarhálsvirkjun, Fagradalsfjall og á Hellisheiði.

Úr þessum efnivið smíðuðu þeir fyield-félagar plötuna Future Landscapes, en þess má geta að heimildarmynd Ivos Bystricans um upptökuleiðangurinn, Invisible Landscapes, var frumsýnd fyrir stuttu. Textar á plötunni eru eftir heimspekinginn Lukáš Likavcan sem tók þátt í upptökuátakinu.

Að sögn framkvæmdastjóra verkefnisins, Terezu Swadoschová, fjallar það um loftslagsvandann, en er þó fyrst og fremst hvatning til að hlusta á umhverfið á nýjan hátt og þá hugsanlega miða fólki á rétta braut í baráttunni gegn hlýnun loftslagsins.

Á flakki milli landanna

Pan segir að það hafi verið frábært að vera valinn í þetta verkefni, „en það var víst einhver tékknesk listakona sem mælti með mér í þetta. Svo höfðu þeir Vaclav og Ivo samband við mig og vildu fá mig út til að fara yfir þetta. Við byrjuðum á upptökum víða í Tékklandi sumarið 2021. Hópurinn kom svo til Íslands í ágúst 2021 og við ferðuðumst víða um land; Fjallsárlón, Hellisheiði, Fagradallsfjall, Búðarhálsvirkjun og víðar. Náðum þar frábærum upptökum.

Ég hef svo verið á flakki milli Tékklands og Íslands frá haustinu 2021 í stúdíóupptökum og tónleikahaldi. Myndin var frumsýnd á Ji.hlava-heimildarmyndahátíðinni í Jihlava í október sl. og við lékum líka á tónleikum þar. Eiginlegir útgáfutónleikar voru svo haldnir á hinum sögufræga stað meetFactory í Prag seinna í október. Næst á dagskrá er tónleikaferðalag um Evrópu og Bandaríkin á næsta ári þar sem heimildarmyndin fer einnig í dreifingu.“

Félagarnir í fyield spiluðu hér á landi á Extreme Chill í haust en Pan segir að ekkert sé ákveðið með frekari spilamennsku á Íslandi í bili. „Það er þó aldrei að vita hvað maður gerir, það kemur þá í ljós.“

Höf.: Árni Matthíasson