Árni Jón Árnason fór í vegferð lífs síns með Viktoríu Hermannsdóttur sem skrásetti allt í heimildarmyndinni Velkominn Árni.
Árni Jón Árnason fór í vegferð lífs síns með Viktoríu Hermannsdóttur sem skrásetti allt í heimildarmyndinni Velkominn Árni. — Morgunblaðið/Ásdís
Ég hafði aldrei reynt að hafa uppi á föður mínum, enda var móðir mín reið honum á sínum tíma. Hún var þarna 47 ára en hann rúmlega tvítugur og við höldum að hún hafi gert sér einhverjar vonir um samband.“

Einlæg vinátta og væntumþykja ríkir á milli Árna Jóns Árnasonar og Viktoríu Hermannsdóttur sem blaðamaður hitti á heimili Árna einn snjóþungan eftirmiðdag í vikunni. Árni hefur búið í íbúð sinni í Kópavogi í fimm áratugi og þar líður honum vel innan um bækur, englastyttur, málverk eftir sjálfan sig og ljósmyndir af fjölskyldumeðlimum, gömlum sem nýjum. Kynni dagskrárgerðarkonunnar Viktoríu og Árna, verkamanns á eftirlaunum, hófust með einu símtali en úr varð að Viktoría gerði heimildarmynd, ásamt Allan Sigurðssyni, um einstaka sögu Árna sem fyrir tilviljun hóf leit að föður sínum á áttræðisaldri.

Uppljóstrun á dánarbeði

Bandaríkjamaður nokkur, David frá Kalíforníu, sat á dánarbeði föður síns dag einn fyrir um áratug, sem væri ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að hinn deyjandi maður ljóstrar þá upp hernaðarleyndarmáli. Hann hefði eignast son á Íslandi árið 1946 þegar hann var þar við herþjónustu og því ættu David og systkini hans hálfbróður á Íslandi. Nokkur ár liðu og David velti þessu lengi fyrir sér og gat ekki hætt að hugsa um þennan meinta bróður hinum megin á hnettinum. Hann ákvað loks að freista þess að finna hann og komst þá í samband við Viktoríu, en hún hafði þá verið með athyglisverða útvarpsþætti; Ástandsbörn, um börn íslenskra kvenna og erlendra hermanna.

„Ég fékk tölvupóst frá þessum bandaríska manni sem var að leita að hálfbróður sínum. Þetta var óvenjulegt því oftar var það barnið sem leitaði að föður en þarna var verið að leita að „barni“ sem enginn hafði vitað um. Ég var efins um að eitthvað kæmi út úr þessu en setti færslu á Facebook og bað fólk að hjálpa og eftir klukkutíma var búið að deila henni út um allt. Júlía Margrét, fyrrverandi blaðamaður Morgunblaðsins og ofurgrúskari, gerði einhverja galdra á timarit.is og fann nafnið á mögulegri móður, en sú kona var fædd töluvert fyrr en það sem við gerðum ráð fyrir,“ segir Viktoría, en konan umrædda hét Guðbjörg Tómasdóttir og hafði verið 47 ára árið 1945.

„En þessi kona hafði eignast barn 1945 og sá drengur situr hér við hlið okkar. Hann er Árnason en við komumst að því að þessi Árni hafði látist sex árum áður en Árni Jón fæddist. Þetta þótti okkur skrítið og við kveiktum á því að þarna gæti bróðirinn verið fundinn. Og þá hringdi ég í Árna,“ segir Viktoría.

Faðirinn var hermaður

Árni var að vonum hissa yfir þessu sérkennilega símtali.

„Ég hafði aldrei reynt að hafa uppi á föður mínum, enda var móðir mín reið honum á sínum tíma. Hún var þarna 47 ára en hann rúmlega tvítugur og við höldum að hún hafi gert sér einhverjar vonir um samband,“ segir Árni, en hann átti þrjú eldri systkini sem nú eru látin.

„Þegar ég hringdi í Árna var hann löngu hættur að pæla í hver væri faðir hans,“ segir Viktoría.

„Ég held að bræður mínir hafi ekki vitað neitt en mögulega vissi systir mín eitthvað, en það var vitað að faðir minn hefði verið hermaður. Mamma hafði sagt mér það en ég fékk aldrei að vita nafnið,“ segir Árni sem segist hafa farið að spyrja móður sína um föður sinn þegar hann var að nálgast unglingsárin.

„Hún brást illa við og varð hin reiðasta,“ segir hann en móðir hans lést þegar hann var á fermingaraldri og tók leyndarmálið með sér í gröfina.

Árni bjó þá hjá frændfólki og síðar með bróður sínum, en bræðurnir þrír voru alla tíð ógiftir og barnlausir.

„Systir mín sá um þetta og á níu börn,“ segir Árni, en hann sá lengi um eldri bróður sinn Sigurð í veikindum hans.

Hafði litla trú á sér

Viktoría hafði aldrei í hyggju að gera neitt annað en að hjálpa þessum Bandaríkjamanni að finna bróður sinn, en þegar hún talaði við Árna í síma í fyrsta sinn fannst henni hann afar áhugaverður.

„Mér fannst svo sérstakt að hann hafði aldrei hugsað mikið út í þetta. Hann sagði mér frá lífi sínu en hann hafði aldrei upplifað mikla ást frá móður sinni. Við hittumst svo og spjölluðum meira og mér fannst Árni svo frábær og sagan hans svo sérstök,“ segir hún.

„Mér fannst ég nú alltaf svo klaufalegur og stirðmæltur,“ segir Árni.

„Hann hefur alltaf minni trú á sér en við hin,“ segir Viktoría og Árni hlær.

„Hann er svo vel lesinn og fróður,“ segir hún og segir þau hafa átt mörg góð samtöl.

Árni segir ýmislegt hafa rifjast upp við öll samtölin og Viktoría ákvað í kjölfarið að gera útvarpsþátt um sögu Árna. Síðar kviknaði hugmyndin að heimildarmyndinni sem sýnd verður á jóladag og nefnist Velkominn Árni.

Var alltaf litinn hornauga

Myndin er um leitina að faðerninu, en varð óvart þroskasaga manns sem finnur sjálfan sig að sögn Viktoríu, en ævi Árna hefur ekki verið dans á rósum. Eins og fyrr segir missti þessi föðurlausi drengur snemma mömmu sína og var hann oft mjög langt niðri. Hann kláraði aðeins grunnskóla, átti ekki marga vini og var hálfgerður einfari alla tíð sem hafði lítið sjálfstraust.

„Árna fannst hann alltaf alls staðar vera fyrir,“ segir hún.

„Ég kom bara þarna eins og aðskotahlutur; skrattinn úr sauðarleggnum. Ég var alltaf litinn hornauga,“ segir Árni.

„David kom hingað og við vildum komast að því hvort þetta væri rétt að þeir væru hálfbræður. Árna langaði að fara út til þeirra og ég ákvað þá að gera myndina,“ segir Viktoría sem henti sér beint út í djúpu laugina, en hún hafði aldrei áður komið nálægt heimildarmyndagerð.

Óðu af stað til Ameríku

„Við óðum svo af stað og vissum ekkert hvað við vorum að gera,“ segir Viktoría sem fékk Allan Sigurðsson með sér í lið og segir þau hafa farið út árið 2018 að finna meinta fjölskyldu Árna.

„Það gerðist ýmislegt í millitíðinni; ég eignaðist tvö börn og svo kom Covid, en það er gott því svona mynd þarf að malla svolítið,“ segir hún.

„Árni var á krossgötum þegar þetta var því hann var nýbúinn að missa bróður sinn Sigurð sem hann hafði alltaf séð um. Kannski þess vegna var hann opnari fyrir því að fara af stað í svona ferðalag,“ segir hún og segir Árna alltaf hafa hlúð að öðrum í lífinu en kannski minna hugsað um sjálfan sig.

Árni hafði aldrei áður komið til Bandaríkjanna og viðurkennir að tilfinningin hafi verið einkennileg; að fara utan að hitta möguleg hálfsystkini sín, en ekki hafði faðernið verið staðfest með erfðafræðiprófi. Bandaríska fjölskyldan tók vel á móti Árna og sum þeirra voru viss um að þarna væri týndi bróðirinn en ekki voru allir jafn vissir í sinni sök.

„Það var smá óvissa með þetta,“ segir Viktoría og segir þau hafa ákveðið að fara í DNA-próf þar við komuna.

„Það gerðist ýmislegt óvænt sem flækti hlutina aðeins en við viljum ekki gefa allt upp fyrir þá sem munu sjá myndina,“ segir Viktoría og brosir.

Eins og endurfæðing

Líf Árna hefur gjörbreyst eftir ævintýrið sem hófst með einu símtali fyrir nokkrum árum.

„Mér finnst ég nýr maður. Ég er miklu opnari og það er eins og ég hafi endurfæðst. Ég fór að skrifa og á meira en tíu handrit að ljóðabókum og hugleiðingum. Ég er meira að segja búinn að skrifa uppkast að ævisögunni, en það spratt allt upp af þessu ævintýri,“ segir Árni sem nú þegar hefur gefið út eina ljóðabók sem nefnist Seyðingur.

„Ég fékk sjálfstraust. Ég leit alltaf á mig sem misheppnaðan mann,“ segir Árni og segir það hafa gefið sér mikið að kynnast alls konar fólki í þessu ferli öllu.

„Ég næ tökum á lífinu eftir þetta en áður var ég rekald,“ segir Árni og Viktoría skýtur inn í að það hafi líka gefið sér ákaflega mikið að kynnast Árna.

„Árni gefur manni alltaf dýpri sýn á öllu. Við erum mjög miklir vinir,“ segir Viktoría.

„Það liggur við að ég sé kominn í fjölskylduna,“ segir hann og Viktoría tekur undir það.

„Við grínumst oft með að við séum búin að ættleiða Árna 77 ára, og að hann sé sjötta barnið,“ segir Viktoría og hlær.

„Það vantar bara ættleiðingarpappírana,“ segir hann kankvís.

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir