[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alfons Sampsted landsliðsmaður í knattspyrnu er að ganga í raðir hollenska úrvalsdeildarfélagsins Twente. Hann kemur frá Bodø/Glimt í Noregi, þar sem hann átti þrjú afar góð tímabil og varð meistari með liðinu bæði 2020 og 2021 ásamt því að fara langt með því í Evrópukeppni í tvígang

Alfons Sampsted landsliðsmaður í knattspyrnu er að ganga í raðir hollenska úrvalsdeildarfélagsins Twente. Hann kemur frá Bodø/Glimt í Noregi, þar sem hann átti þrjú afar góð tímabil og varð meistari með liðinu bæði 2020 og 2021 ásamt því að fara langt með því í Evrópukeppni í tvígang. Hollenski miðilinn Voetbal greindi frá þessu í gær og sagði Alfons vera á leið í læknisskoðun, áður en hann muni skrifa undir langtímasamning. Verður hann gjaldgengur með hollenska liðinu frá og með 1. janúar.

Finnski knattspyrnumaðurinn Dani Hatakka sem lék með Keflvíkingum á síðustu leiktíð hefur samið við FH-inga um að leika með þeim á komandi keppnistímabili. Hatakka er varnarmaður sem var í stóru hlutverki hjá Keflvíkingum en hann lék 26 af 27 leikjum þeirra í Bestu deildinni og skoraði fjögur mörk, þrjú þeirra í jafnmörgum leikjum í fyrri umferð mótsins. Hann er 28 ára gamall og lék áður með m.a. Honka, SJK og KuPS í Finnlandi og með norsku liðunum Hödd og Brann. Samtals hefur Hatakka spilað 233 deildaleiki á ferlinum og skorað í þeim 17 mörk og hann lék 14 leiki með yngri landsliðum Finnlands.

Sandra Sigurðardóttir, landsliðsmarkvörður í fótbolta, hefur framlengt samning sinn við Val og verður hjá félaginu næstu tvö árin. Sandra er orðin 36 ára gömul, en hún var aðeins fjórtán ára gömul þegar hún fór að leika með Þór/KA/KS árið 2001. Fjórum árum síðar var hún komin til Stjörnunnar, þar sem hún lék til ársins 2016, þegar leiðin lá til Vals. Sandra hefur alls leikið 331 leik í efstu deild og er sú leikjahæsta frá upphafi í deildinni. Ljóst er að hún heldur áfram að bæta í metið frá og með næstu leiktíð.

Þýskalandsmeistarar Magdeburg fá erfitt verkefni í átta liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar í handknattleik karla en dregið var til þeirra í gær. Ómar Ingi Magnússon, Gísli Þorgeir Kristjánsson og samherjar þeirra í Magdeburg drógust gegn Kiel á útivelli og óhætt er að segja að það verði stórleikur átta liða úrslitanna sem fara fram að loknu heimsmeistaramótinu, dagana 4. og 5. febrúar.

Manchester United mætir C-deildarliðinu Charlton í átta liða úrslitum enska deildabikarsins í fótbolta en þau verða leikin 10. og 11. janúar. Southampton mætir Manchester City, Nottingham Forest mætir Wolves og Newcastle mætir Leicester.

N'Golo Kanté, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Chelsea, verður frá keppni vegna meiðsla fram í febrúar. Þetta tilkynnti Graham Potter, stjóri Chelsea, á blaðamannafundi í gær en Kanté, sem er 31 árs gamall, lék síðast með Chelsea í ágúst þegar liðið gerði jafntefli gegn Tottenham í deildinni. Kanté hefur verið að glíma við meiðsli aftan í læri allt tímabilið og missti þar af leiðandi af heimsmeistaramótinu í Katar með franska landsliðinu.Chelsea er með 21 stig í áttunda sæti úrvalsdeildarinnar en liðið hefur saknað Kantés mikið á tímabilinu.