Fjárhúsin Þegar kalt er úti er gott að vera í fjárhúsunum í Grobbholti á Húsavík. Baldur Freyr Skarphéðinsson fer oft með afa sínum að gefa fénu og hittir þá vin sinn, forystuhrútinn Mola.
Fjárhúsin Þegar kalt er úti er gott að vera í fjárhúsunum í Grobbholti á Húsavík. Baldur Freyr Skarphéðinsson fer oft með afa sínum að gefa fénu og hittir þá vin sinn, forystuhrútinn Mola. — Morgunblaðið/Atli Vigfússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Húsavík er vaxandi bær og þar hefur fólki fjölgað undanfarið. Ýmis þjónusta hefur hins vegar breyst og ekki þótti gott þegar Húsasmiðjan lokaði verslun sinni í fyrra. Nú í desember lokaði Bústólpi sinni afgreiðslu og eru bæði þessi fyrirtæki orðin að pöntunarfélögum

Úr bæjarlífinu

Atli Vigfússon

Laxamýri

Húsavík er vaxandi bær og þar hefur fólki fjölgað undanfarið. Ýmis þjónusta hefur hins vegar breyst og ekki þótti gott þegar Húsasmiðjan lokaði verslun sinni í fyrra. Nú í desember lokaði Bústólpi sinni afgreiðslu og eru bæði þessi fyrirtæki orðin að pöntunarfélögum. Það hefði einhvern tímann þótt tíðindi að ekki væri hægt að kaupa hænsnakorn á Húsavík. Svo á einnig við um ýmsa smávöru sem tengist landbúnaði. Þjónusta Póstsins hefur líka breyst og nú er einungis keyrt í sveitirnar tvisvar í viku. Þegar falla út dagar t.d. vegna veðurs eru ekki settir inn neinir aukadagar þannig að stundum kemur pósturinn bara einu sinni í viku. Þá koma mörg Morgunblöð í póstkassann. Svo mörg að þau komast varla fyrir.

Mýs hafa sótt heim að híbýlum manna nú í haust sem aldrei fyrr. Mikill músagangur við bæjarhús hefur einkennt síðustu vikur og stundum valda þær tjóni á heyrúllum. Hvort þær hafa vitað um vetrarkuldann skal ósagt látið en stundum er það svo. Allavega hafa þær undirbúið sig vel, því víða má sjá músarholur með ýmsu matarkyns sem þær hafa sankað að sér og matarbirgðir þeirra virðast í meira lagi þetta haustið.

Mannlífið hefur tekið breytingum og margt fólk af erlendum uppruna starfar á svæðinu. Við afgreiðsluborðin í verslunum á Húsavík þarf oft að tala ensku enda vinna þar margir sem ekki kunna tölurnar á íslensku. Í samtölum við það fólk hefur komið fram að það vill gjarnan læra tungumálið. Fyrirtækin eru samt ekkert að bjóðast til þess að kosta fólk á námskeið. Þetta kemur sér ekki alltaf vel því fullorðið fólk, sem ekki kann erlend tungumál, er stundum að vandræðast við kassann þegar það þarf að gefa upp kennitölu eða reikningsnúmer á ensku.

Mjólkurframleiðsla leggst af á einu stóru kúabúi í Aðaldal nú um áramótin. Margir bændur eru að fullorðnast og óvíst að hagkvæmt sé að byggja upp sumt af þeim fjósum sem eftir eru í héraðinu. Einungis einn mjólkurframleiðandi er eftir á Tjörnesi og í Reykjahverfi eru tvö kúabú þar sem áður voru nítján kúabændur. Í sumum sveitum er talin hætta á að nautgripir heyri sögunni til, en margir telja að með samhentu átaki megi bjarga búgreininni og eru bjartsýnir á að það sé hægt að efla þá framleiðslu sem fyrir er.

Tíðarfarið er alltaf að koma á óvart og mörgum fannst nóg um rigningarnar í sumar. Kornrækt í Þingeyjarsveit gekk ekki vel og ákváðu nokkrir bændur að þreskja ekki byggið þar sem uppskeran var lítil sem engin. Hins vegar kom mjög góð tíð í nóvember sem varð til þess að margir gátu sinnt sínum útiverkum í blíðviðri sem lengi var búið að bíða eftir. Margir nutu góðs af þessu, menn og skepnur. T.d. voru kindur úti óvenju lengi og komu á sumum bæjum ekki inn fyrr en viku af desember. Þá fóru heimilishænsni á beit flesta daga og gátu baðað sig í moldinni.

Tónleikar hafa verið nokkrir á aðventunni og vel sóttir. Jólin mín og þín, tónleikasýning Tónasmiðjunnar, var hátíðleg stund í kirkjunni með um 35 flytjendum. Hópurinn stóð sig frábærlega og það gladdi alla mikið að geta um leið stutt gott málefni. Tónlistarfólkið styrkti Velferðarsjóð Þingeyinga um 500 þúsund krónur að þessu sinni. Nú í desember hafa beiðnir um aðstoð sjaldan verið fleiri, en mörg heimili ná ekki endum saman. Forsvarsmenn samfélagshjálparinnar eru mjög þakklátir þeim sem láta eitthvað af hendi rakna og þess má m.a. geta að Kiwanisklúbburinn Skjálfandi deilir út matarkössum í samstarfi við Norðlenska. Þá er inneignarkortum í Nettó úthlutað og fiskeldið í Haukamýri gefur fisk.

Húsavíkurkirkja á marga vini og hollvinasamtök kirkjunnar hafa safnað fé til framkvæmda. Þetta merka hús þarf mikið viðhald auk þess sem nú liggja fyrir breytingar á lóð kirkjunnar. Er meðal annars meiningin að gera aðgengi að kirkjunni auðveldara fyrir fatlað fólk og á kirkjutorginu, sem þarna verður, er ætlunin að hafa bekki og borð fyrir ferðamenn og gesti. Þar á líka að vera gróður sem prýðir umhverfið og með öllu þessu á mannlífið í hjarta bæjarins að blómstra.

Jólahátíðin er að ganga í garð og þeir sem hafa húsdýr velja besta heyið til þess að allir eigi jól. Það er gaman að gefa grænt hey sem fær góðar viðtökur á garðanum. Það er líka skemmtilegt að hafa með sér brauðbita, svolítið meira en venjulega, því stundum eru einhverjir góðvinir sem það kunna að meta. Og nú þegar frost og fannfergi er um alla jörð er hlýtt og notalegt í fjárhúsunum og um að gera að vera bjartsýnn þótt úti sé kalt. Jón Arnkelsson frá Hraunkoti í Aðaldal orðar þetta svo:

Þótt standi stórhríð á glugga,

eða stormur og hríðarmugga,

og úti sé margt að ugga,

– ekki pæla í því.

Það styttir upp um síðir,

storma, él og hríðir,

er vorið og vindar þíðir,

vekja allt á ný.

Höf.: Atli Vigfússon