Söngkonan Sigrún Hjálmtýsdóttir, ávallt kölluð Diddú, elskar að dunda sér í eldhúsinu á aðfangadag.
Hvað kemur þér í jólaskap?
Það sem mér finnst notalegast þegar aðventan nálgast eru æfingarnar sem fylgja öllum jólatónleikunum. Þá fer um mann hlý endurminning um hvað í vændum er. Svo að sjálfsögðu þegar ilmurinn úr eldhúsinu leggst yfir allt við smákökubaksturinn.
Hver eru eftirminnilegustu jólin?
Við bjuggum nokkur ár erlendis á námsárunum, bæði í Englandi og svo á Ítalíu. Jólin voru þá eðlilega með öðrum hætti en þegar við héldum þau heima á Íslandi í hefðbundnum faðmi fjölskyldunnar. Þegar við vorum á Ítalíu með tvíburana tveggja ára áttum við okkar fyrstu jól sem fjölskylda, án allra á Íslandi. Við reyndum að apa upp eftir ítölskum venjum, en gjarnan er borðaður fiskur eða kjúklingur á þeirra eina hátíðisdegi. Hátíðin þeirra er nefnilega stutt miðað við okkar hefðir. Þá smökkuðum við panettone í fyrsta sinn. Jammijamm!
Hver er sniðugasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Við vorum tiltölulega nýflutt í húsið okkar í Dalnum og ég var hörð á því að vilja enga uppþvottavél því útsýnið var svo fallegt við vaskinn. Kelinn gaf mér því forláta uppþvottabursta og uppþvottagrind. Skýr skilaboð það!
Hvernig verða jólin í ár?
Hefðirnar hér heima verða í hávegum hafðar í ár. Við fjölskyldan, dætur, tengdasynir og barnabörn, ásamt tengdamömmu, verðum öll hjá okkur í Mosfellsdal á aðfangadag. Ég verð í eldhúsinu allan daginn að nostra við matinn og hlýða á jólakveðjur. Það er ómetanlegur tími. Svo kíkja vinir gjarnan við í sopa og með því upp úr hádegi. Keli minn fer alltaf snemma með gjafir til vina og vandamanna. Við verðum með rjúpur, hamborgarhrygg og veganrétt. Og alls kyns meðlæti sem allir geta gætt sér á. Á jóladag kemur stórfjölskylda Kela saman í pálínuboð, þar sem allir leggja eitthvað á borðið. Eftir matinn er spilað og sungið. Og síðan á annan dag jóla hittumst við sjö systkinin með okkar fjölskyldur, en þegar allir eru á landinu erum við rúmlega fimmtíu. Þar verður líka pálínuboð, dansað og sungið kringum jólatréð og spilað alvöru bingó!