Erna Indriðadóttir er fædd 25. desember 1952 og verður því 70 ára á morgun, jóladag. Hún fæddist á Akureyri en ólst upp í Laugarneshverfinu í Reykjavík hjá móður sinni og uppeldisföður.
Erna gekk í Laugarnesskólann og lauk stúdentsprófi frá MH árið 1972. Síðan lá leiðin í Háskólann í Lundi í Svíþjóð þar sem hún lærði samfélagsfræði og enn síðar tók hún meistarapróf í opinberri stjórnsýslu í Washington háskóla í Seattle.
Erna vann lengst af hjá Ríkisútvarpinu og var bæði fréttamaður í útvarpi og sjónvarpi og einnig deildarstjóri Ríkisútvarpsins á Akureyri um skeið. Hún hætti þar þegar hún var ráðin upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls þegar álverið á Reyðarfirði var í byggingu og þar starfaði hún í nokkur ár. „Það var mikið ævintýri að taka þátt í uppbyggingu álversins á Reyðarfirði. Það var á við háskólanám í efnahags-, iðnaðar- og orkumálum. Bygging álversins var umdeild, en ánægja meðal heimamanna mikil, enda sáu margir fram á betri tíð og ungt fólk sem hafði flutt í burtu til að stunda nám og sá ekki fram á að geta snúið aftur heim, gat nú gert það og fengið störf við hæfi, en í álverinu voru þá yfir 100 manns með háskólamenntun.“
Erna stofnaði vefritið Lifðu núna, sem fjallar um lífið eftir miðjan aldur, árið 2014 og hefur unnið við það síðan. „Ég stofnaði Lifðu núna eftir að ég varð sextug. Mér fannst forvitnilegt að fjalla um þetta aldursskeið á vefnum því fjölmiðlar almennt gera ekki mikið af því. Það helgast trúlega af því að langflestir sem þar vinna eru tiltölulega ungir. Ég hafði ekki mikinn áhuga á lífi eldra fólks þegar ég var að byrja í fréttamennskunni og skil þetta þess vegna vel. En það er líf eftir sextugt og það er alveg jafn fjölbreytt og lífið áður en fólk verður sextugt og alveg jafn mikil ástæða til að gera því skil, eins og öðru efni fyrir fólk á ýmsum aldri. Það hefur verið frábærlega skemmtilegt að fjalla um þetta og líka þarft, því eldra fólki á eftir að fjölga gríðarlega á næstu áratugum.”
Erna hefur átt sæti í nokkrum nefndum á vegum hins opinbera, ýmist sem aðalmaður eða varamaður og setið í stjórnum félagasamtaka, svo sem Náttúrulækningafélags Akureyrar og Félags eldri borgara í Reykjavík.
„Ég átti stuttan og mjög farsælan þingmannsferil þegar ég var varaþingmaður fyrir Samfylkinguna í Norðurlandskjördæmi eystra, kjörtímabilið 2013-2016. En ég tók sæti á Alþingi í eina viku, í fjarveru Kristjáns Möllers alþingismanns. Það er með því skemmtilegra sem ég hef gert um dagana. Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á þjóðmálum og sagnfræði.“
Ernu finnst ferðalög sömuleiðis heillandi. „Sérstaklega til framandi landa sem eru mjög frábrugðin því sem maður á að venjast. Indland, Japan og Mexikó koma upp í hugann. Það er samt fátt sem jafnast á við íslensk fjöll sem ég hef verið óþreytandi að klífa síðustu áratugina. Mér finnst gaman að taka ljósmyndir, hef yndi af lestri góðra bóka, leiklist og kvikmyndum. Það verður svo enn mikilvægara með aldrinum að verja tíma með vinum og vandamönnum og eru barnabörnin þar í algerum sérflokki.
Jóladagur er býsna erfiður afmælisdagur, ekki margir sem komast í afmæli á þeim degi. En gömul kona sem átti sama afmælisdag og ég sagði að það væri gæfumerki að vera fæddur undir jólastjörnunni og ég held að það sé dagsatt.“
Fjölskylda
Sambýlismaður Ernu er Andrés Svanbjörnsson verkfræðingur, f. 20.10. 1939. Þau eru búsett í Sjálandshverfi í Garðabæ. Foreldrar Andrésar voru hjónin Svanbjörn Frímannsson bankastjóri, f. 14.7. 1903, d. 9.7. 1992, og Hólmfríður Andrésdóttir húsmóðir, f. 3.9. 1915, d. 30.5. 2005.
Börn Ernu og fyrri maka, Péturs Reimarssonar verkfræðings í Reykjavík, f. 9.3. 1951, eru 1) Frosti Pétursson stærðfræðingur, f. 1.12. 1971, býr í Reykjavík; 2) Reimar Snæfells Pétursson hæstaréttarlögmaður, f. 14.11.1972, býr í Reykjavík. Maki: Björg Vigfúsdóttir, klínískur fjölskylduráðgjafi, f. 21.12. 1978; 3) Valva Pétursdóttir verkefnisstjóri, f. 23.1. 1975, býr í Noregi. Maki: Valdimar Þór Valdimarsson, CNC tæknimaður, f. 9.8. 1975. Synir Andrésar eru Frímann útfararstjóri, f. 1972, búsettur í Kópavogi, og Markús Þór sýningarstjóri, f. 1975. Maki Markúsar er Dorothée Kirch sýningarstjóri, f.1974. Þau búa í Reykjavík. Andrés og Erna eiga samanlagt 10 barnabörn og eitt langafabarn.
Hálfsystkini Ernu eru, sammæðra; Hildur Jakobína vinnusálfræðingur, f. 1969; samfeðra: Ragnhildur Rós hjúkrunarfræðingur, f. 1956; Pálmi vélstjóri, f. 1958; Helgi tannlæknir, f. 1959; Ólafur Skúli læknir, f. 1961; Jón Skúli verkfræðingur, f. 1963; Dagný Bergþóra leiðsögukona, f. 1965, og Ásmundur húsasmiður, f. 1967. Uppeldissystkini Ernu, börn Gísla Eiríkssonar: Guðný Edda bóndakona, f. 1940; Kristján byggingameistar, f. 1944: Bergsteinn rafeindavirki, f. 1945; Helgi myndhöggvari, f. 1947, og Lilja matreiðslukona, f. 1949, d. 2022.
Foreldrar Ernu: Kristín Guðnadóttir fótaaðgerðafræðingur, f. 22.10. 2027, býr í Reykjavík, og Indriði Gíslason, prófessor í íslensku við KHÍ, f. 27.7. 1926. d. 15.3. 2009, kvæntur Ingibjörgu Ýr Pálmadóttur kennara, f. 7.5. 1931, d. 23.7. 2021. Þau bjuggu í Reykjavík. Uppeldisfaðir Ernu og eiginmaður Kristínar var Gísli Eiríksson bifreiðarstjóri, f. 10.5. 1909, d. 22.10. 1992, bjó í Reykjavík.